Það verður sjálfsagt nokkuð sérstök og tilfinningaþrungin stemmning á Samsungvellinum á laugardaginn þegar Stjarnan mætir FH í lokaleik Bestu-deildarinnar klukkan 16:15. Það er ekki nóg með að Stjarnan sé að berjast fyrir Evrópusæti heldur munu þrír leikmenn kveðja Stjörnuna eftir leikinn, leikmenn sem hafa skrifað kafla í sögu Stjörnunnar, en þetta er goðsögnin í Garðabæ, Daníel Laxdal, markahrókurinn Hilmar Árni Halldórsson og varnarjaxlinn Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Þeir hafa allir skilað frábæru starfi fyrir Stjörnuna en Daníel og Hilmar eru tveir af fremstu leikmönnum í sögu félagsins. Daníel hefur spilað vel yfir 500 leiki fyrir félagið og var lengi vel fyrirliði og Hilmar Árni hefur raðað inn mörkum fyrir Stjörnuna frá 2016 og er markahæsti Stjörnumaðurinn í efstu deild. Þórarinn Ingi hefur leikið með Stjörnunni frá 2018 og hjálpaði liðinu að vinna sinn fyrsta bikarmeistaratitil árið 2018. „Liðið og þessir leikmenn eiga skilið að fylla völlinn í sínum síðasta leik. Þetta er tækifærið til þess að þakka þeim fyrir allt sem þeir hafa gert – fyrir augnablikin sem munu lifa í minningum okkar um ókomna tíð. Einnig lifir ennþá von um Evrópusætið og þar af leiðandi er stuðningurinn ekki síður mikilvægur í þeirri baráttu,“ segir í tilkynningu Stjörnunnar.
Þess má geta að Hilmar Árni hefur alls spilað 428 KSÍ-leiki og skorað 144 mörk, en hann er að fara að snúa sér að þjálfun og mun taka við 4. flokki kvenna og 3. flokki karla hjá Stjörnunni.
Þórarinn Ingi segist ekki endilega vera hættur. ,, Ég hef ekkert gefið út að ég sé hættur þannig séð, minn tími í Stjörnuliðinu er bara kominn á enda. Nú tekur bara frí við hjá manni og ef það kemur einhver löngun hjá mér eftir það skoða ég það,“ segir Þórarinn.