Síðasta Tónlistarnæringin þar til í haust

Miðvikudaginn 5. apríl klukkan 12:15 fara fram síðustu hádegistónleikar vorannar í röðinni Tónlistarnæring sem haldin er í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Tónvöndur er yfirskrift tónleika sem samanstendur af spennandi dagskrá eftir tónskáld úr mismunandi áttum sem sópransöngkonan Bryndís Guðjónsdóttir, flautuleikarinn Pamela De Sensi og píanóleikarinn Guðríður St. Sigurðardóttir flytja.

Ástríðufullir hljómar eftir Donizetti, Lehár og Previn blandast saman við rómantíska og fágaða hljóma og skapa skemmtilegar andstæður. Tónskáldin voru flest uppi á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Efnisskráin er í heild blanda af þekktum sem og minna þekktum tónverkum fyrir þessa samsetningu.

Fyrsta Tónlistarnæring haustannar fer fram þann 6. september en þá mun hinn fjörugi baritónsöngvari Jón Svavar Jósefsson syngja ásamt Guðrúnu Dalíu Salomónsdóttur píanóleikara.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar