Samstarfssamningur við Sjómannadagsráð endurnýjaður

Nýlega endurnýjuðu Garðabær og Sjómannadagsráð samstarfssamning frá árinu 2017 um rekstur Ísafoldar hjúkrunarheimilis og dagdvalar.

Sjómannadagsráð rekur hjúkrunarheimilið Ísafold sem sjálfstæðan rekstraraðila undir merkjum Hrafnistu við Strikið 3 í Garðabæ. Í hjúkrunarheimilinu eru 60 hjúkrunarrýma og í dagdvölinni eru tuttugu rými, þar af sextán almenn og fjögur rými fyrir einstaklinga með heilabilun.

Hrafnista er í dag ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins með starfsemi í fimm sveitarfélögum og þjóna Hrafnistuheimilin á annað þúsund öldruðum á hverjum degi. Hrafnista skuldbindur sig til að reka hjúkrunarheimilið eins markvisst og hagkvæmt og kostur er en alltaf með áherslu á markmið Hrafnistu um andlega, líkamlega og félagslega vellíðan íbúa með gildi Hrafnistu að leiðarljósi.
Hjá Hrafnistu er til staðar mikil sérþekking og reynsla sem kemur starfseminni til góða. Eins og á öðrum Hrafnistuheimilum er á Ísafold er starfrækt Hrafnistuútgáfa af „Lev og bo“ hugmyndafræði.

Mynd: Aríel Pétursson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs og Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar