Miðbær Garðabæjar hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Margt hefur breyst með tilkomu íbúða, verslana og veitingastaða í nýjum byggingum við torgið og fyrrum „svefnbærinn“ Garðabær dregur nú að sér íbúa og gesti frá öðrum bæjum. Nú er kominn tími til að líta heildstætt á Garðatorg og á sama tíma að gera aðkallandi úrbætur á yfirbragði og ásýnd torganna og svæðanna á milli húsanna.
Undirbúningsnefnd vegna uppbyggingar miðbæjarsvæðis í Garðabæ
Á bæjarstjórnarfundi 16. júní sl. var samþykkt tillaga Sigríðar Huldu Jónsdóttur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skipan undirbúningsnefndar vegna uppbyggingar miðbæjarsvæðis Garðabæjar. Nefndinni er gert að huga að heildarsýn fyrir svæðið, tengingum og öðru með það að markmiði að skapa aðlaðandi umhverfi og miðbæjarsvæði sem virkar. Útlínur miðbæjarsvæðisins teygja sig frá Bæjarbraut meðfram Vífilsstaðavegi að Hofsstöðum og skal m.a. hugað að endurgerð yfirbyggðu torganna, aðkomu og aðgengi fyrir alla, hljóðvist og lýsingu svo eitthvað sé nefnt. Ráðgjafafyrirtækinu Alta hefur verið falið að vinna drög að vegvísi fyrir verkefnið sem felur í sér greiningu á svæðinu og tillögur varðandi framtíðarsýn og verkáætlun.
Tækifæri og samráð við íbúa
Nefnd hefur nú þegar tekið til starfa og hana skipa undirrituð. Nú þegar hefur tillaga um að útiveitingasvæði meðfram suðurhlið húsanna að Garðatorgi 4 og 6 verið samþykkt í bæjarstjórn og vísað í grenndarkynninu. Nefndinni er mjög umhugað um samráð við íbúa bæjarins og í dag verður opnuð samráðsgátt á heimasíðu bæjarins undir Betri Garðabær um mótun miðbæjarins. Við hvetjum öll í bænum til þess að senda inn hugmyndir, ábendingar og tillögur sem nýtast til að gera góðan miðbæ í Garðabæ enn betri. Nefndin mun í kjölfarið ásamt bæjarstjóra funda með hagsmunaaðilum á Garðatorgi og verður því samtali haldið áfram sem og samráðsgátt við íbúa bæjarins.
Uppskeruhátíð á Garðatorgi 1. október
Laugardaginn 1. október verður haldin Uppskeruhátíð bænda á Garðatorgi. Verslanir og þjónustuaðilar bjóða upp á vörur og þjónustu, markaður með vörum beint frá býli verður í göngugötunni, bitabílar bjóða upp á góðgæti og fleira til gamans. Þennan dag verður gestum og gangandi boðið að setja skriflegar hugmyndir í hugmyndakassa sem staðsettur verður á torginu. Fjölskylduhlaup Garðabæjar verður sama dag þar sem hlaupið er frá Stjörnuheimilinu kl 11.00. Samráð og þátttaka við íbúa bæjarins er nauðsynleg til þess að skapa þá stemningu og þann miðbæ sem við viljum sem flest og getum verið stolt af.
Við hverjum ykkur til að hafa áhrif og koma á framfæri ykkar hugmyndum varðandi Garðatorg í gegnum heimasíðu bæjarins undir Betri Garðabær, skila hugmyndum í hugamyndakassa á torginu 1. október eða hafa samband við okkur í nefndinni.
Sjáumst á Garðatorgi laugardaginn 1. október!
Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar
Pálmi Freyr Randversson
Ósk Sigurðardóttir, varabæjarfulltrúi
Mynd: F.v. Ask, Sigríður Hulda og Pálmi Freyr