Sumarsýning Grósku opnar 22. apríl og samstarfssamningur við Garðabæ endurnýjaður
Þann 12. apríl var undirritaður samstarfssamningur milli Garðabæjar og myndlistarfélagsins Grósku til tveggja ára. Gróska sér nú fram á bjartari tíma en sumarsýning félagsins verður opnuð á sumardaginn fyrsta, 22. apríl í Gróskusalnum á Garðatorgi 1.
Hefur þessi samningur mikla þýðingu fyrir Grósku og í hverju felst hann aðallega?
,,Samstarfssamningurinn við Garðabæ er gerður til tveggja ára og er mikilvægur fyrir Grósku vegna þess að hann tryggir félaginu áfram afnot af húsnæði við Garðatorg 1. Húsnæðið myndar mikilvæga umgjörð um starfsemi Grósku en auk sýningahalds fara þar fram fjölbreytt námskeið og viðburðir á vegum félagsins,” segir Rúna Tetzchner formaður Grósku og heldur áfram: ,,Þarna hittumst við og skipuleggjum starfsemina en undirbúningur sýninga hefst ávallt löngu áður en sýning er opnuð. Auk Gróskusalarins, sýningarsals á 2. hæð, erum við með geymslur fyrir margvíslegan búnað félagsins. Frjáls aðgangur að húsnæði er grunnforsenda þess að félag eins og Gróska fái þrifist og haldi áfram að vaxa og þetta er því ómetanlegt. Styrkur frá Garðabæ gerir félaginu auk þess kleift að standa straum af rekstri sem fylgir starfseminni, þó svo að stjórnarliðar og aðrir sem starfa innan félagsins vinni áfram mjög óeigingjarnt starf í sjálfboðaliðavinnu. Vilji Garðabæjar til samstarfs felur í sér viðurkenningu á hinu framsækna hugsjónastarfi Grósku og ber vott um skilning bæjaryfirvalda á mikilvægi lista og menningar fyrir samfélagið almennt.”
Sýningar og fræðslustarf
,,Í samstarfssamningnum felst að félagið skipuleggur sýningar og fræðslustarf í Garðabæ og þá ekki síst Jónsmessugleði sem er umfangsmesta sýning félagsins og einn stærsti menningarviðburðurinn sem fram fer innan bæjarmarkanna. Jónsmessugleði Grósku er öllum Garðbæingum kunn og hefur á undanförnum árum orðið þekkt langt út fyrir bæjarfélagið. Gróska skipuleggur og stjórnar Jónsmessugleði í samstarfi við Garðabæ og þarna er í raun vísir að bæjarlistahátíð; það hlýtur að vera nánast einstakt að frjáls félagasamtök skipuleggi svo víðtæka listahátíð í sjálfboðaliðastarfi. Þetta hefði þó ekki verið unnt án tilstyrks Garðabæjar og Gróska hlakkar til að eiga áfram farsælt samstarf,” segir Rúna.
Hvað eru margir félagsmenn í Grósku, fer þeim fjölgandi og eru allir velkomnir? ,,Gróskuliðar eru nú um 70 talsins og hefur farið fjölgandi. Gróska er félag myndlistarmanna í Garðabæ og opið öllum yfir 18 ára sem búa eða vinna hér og fást við myndlist. Félagar eru á öllum aldri og við hvetjum fleiri til ganga í Grósku, ekki síst unga fólkið. Hægt er að senda umsókn með pósti á [email protected] eða í gegnum fésbókarsíðu Grósku https://www. facebook.com/groska210.”
En fyrir hvað stendur félagið? ,,Tilgangur Grósku er að styrkja samstarf myndlistarmanna í Garðabæ, efla og gera myndlistina sýnilegri og auka myndlistaráhuga í bæjarfélaginu. Starfsemin hefur borið árangur og hefur Gróska fest sig í sessi í menningarlífi Garðabæjar. Með Grósku hefur myndast mikilvægur vettvangur fyrir skapandi samneyti myndlistarmanna sem hefur orðið mörgum hvatning til að koma fram með duldar listaperlur. Til að efla hópinn innbyrðis stendur félagið fyrir skemmtunum og faglegum námskeiðum og það hefur meðal annars skilað sér í sífellt vandaðri sýningum.”
Hvernig hefur svo starfsemin verið undanfarið ár, í kórónu-veirufaraldrinum? ,,Í skugga kórónuveirunnar var mikil vinna lögð í að skipuleggja sýningar og viðburði sem síðan þurfti að fresta eða aflýsa. Við héldum þó Haustsýningu þar sem þemað var „breytt veröld“ og stóðum fyrir tveimur netsýningum. Auk þess var sýningaröðinni „listamaður mánaðarins“ haldið gangandi á Bókasafni Garðabæjar þrátt fyrir lokanir en hún er samstarfsverkefni Bókasafnsins og Grósku. Í svona árferði gefst hins vegar tækifæri til að horfa inn á við og þótt Gróska hafi ekki verið áberandi á yfirborðinu eru hræringar undir niðri og margt í bígerð.”
37 sýnendur á sumarsýningu Grósku
En það eru vonandi bjartari tímar framundan og þið ætlið m.a. að opna sumarsýningu á sumardaginn fyrsta í Gróskusalnum? ,,Já, við opnum Sumarsýningu Grósku í Gróskusalnum á sumardaginn fyrsta með 37 sýnendum en það er metþátttaka,” segir hún.
Þetta verður algjör sprengja
,,Þessi sumarsýning einkennist af margbreytileika og frumleika í ólíkum verkum og uppsetningu. Þetta verður salonsýning með meira en 100 verkum: málverkum, vatnslitamyndum, glerlist, skúlptúrum úr ýmsum efnum o.fl. Eins og tíðkast á slíkum á sýningum eru myndir hengdar upp frá gólfi og upp undir loft og þetta verður því alger sprengja. Uppsetning svona sýningar er flókin en hún er í öruggum hönd-um Birgis Rafns Friðrikssonar myndlistarmanns sem er sýningarstjóri og hefur mikla reynslu á þessu sviði. Auk salonsýningarinnar verður sett upp sameiginlegt verk allra sýnenda þar sem þemað er „veisla“. Hver sýnandi leggur til eina mynd og þær eru settar saman í eitt stórt veisluverk. Verkið felur í sér gjörning þar sem Gróska býður öllum til veislu en það er unnið í tilefni af 10 ára afmæli Grósku árið 2020 og átti upphaflega að sýna það þá. Höfundur að uppsetningu veisluverksins er Laufey Jensdóttir myndlistarmaður en hún er einnig hugmyndasmiðurinn að stofnun Grósku. Gróska býður nú til veislu með fjöldatakmörkunum, þannig að veislugestum verður hleypt inn í hópum meðan sýning stendur yfir dagana 22.-25. apríl og helgina 1.-2. maí kl. 14-18. Loks verður einnig gert myndband í tengslum við sýninguna með spjalli við sýnendur og verður það birt á netinu. Hin hæfileikaríka Rebekka Jenný Reynisdóttir myndlistarmaður stjórnar þessum hluta verkefnisins.”
Fjárfesting sem endist út ævina og miklu lengur
Og þetta er sölusýning? ,,Þetta er að sjálfsögðu sölusýning og við hvetjum fólk til að fjárfesta í listaverkum sem endast út ævina og miklu lengur.”
Hvað er svo fleira framundan í sumar? ,,Haldin verða nokkur námskeið en annars munu maí og júní að mestu leyti fara í undirbúning fyrir Jónsmessugleði Grósku 24. júní. Þemað í ár er „leiktjöld litanna“ þannig að búast má við skrautlegri sýningu með fjölbreyttum listviðburðum. Einkunnarorðin gefum, gleðjum og njótum slá tóninn og þau eru líka einkennandi fyrir starfsemi Grósku,” segir Rúna að lokum.