S-in fimm – Samkennd, seigla, sjálfstjórn, sjálfstæði og skapandi hugsun – Forvarnavika Garðabæjar 1.-8. nóvember 2024

Forvarnavika Garðabæjar verður haldin í níunda sinn dagana 1.-8. nóvember 2024. Vikan hefst á Menntadegi Garðabæjar og lýkur á Degi gegn einelti.

Markmið forvarnavikunnar er að vekja athygli á mikilvægum og fjölbreyttum þáttum í forvarnarstarfi. Garðabær vill með forvarnavikunni styrkja og efla forvarnir í bænum, auka fræðslu, þekkingu og vitund Garðbæinga um lýðheilsu, samfélagið og nauðsynlegar forvarnir á ýmsum sviðum. Með víðtækri þátttöku í forvarnavikunni nýtum við þau sóknarfæri að gera vel í forvarnarmálum og stuðlum að heilbrigði Garðbæinga á öllum aldri á markvissan hátt.

Víðtæk samvinna samfélagsins

Forvarnavikan er verkefni sem hófst í grunnskólum bæjarins árið 2016. Verkefnið hefur vaxið að umfangi með ári hverju en strax á öðru ári bættust leikskólarnir við. Í kjölfarið fylgdu ýmsar stofnanir og félög í bænum og fyrir nokkrum árum var sérstaklega leitað til eldri borgara og ungmennaráðs í því skyni að sem flestar raddir heyrðust í forvarnavikunni.

Það er að mínu áliti afskaplega mikilvægt að samfélagið allt komi að forvarnarmálum enda varða forvarnir bæjarbúa alla og verða þeim mun áhrifameiri ef allt samfélagið tekur höndum saman og vinnur að þeim sem ein heild. Höfum það hugfast að þó forvarnavikan sé árlegt átaksverkefni, sem sett er af stað í því skyni að vekja vitund og efla fræðslu, að þá eru forvarnir viðfangsefni allra á hverjum einasta degi allt árið um kring.

Góð samskipti skapa gott samfélag

Þema forvarnavikunnar í ár eru samskipti og S-in fimm sem lögð eru fram í nýjum Samskiptasáttmála Garðabæjar. S-in fimm eru samkennd, seigla, sjálfstjórn, sjálfstæði og skapandi hugsun.
Í vikunni ætlum við að skoða samskiptin okkar með fjölskyldum, skólum og íþróttafélögum með sérstaklega áherslu á S-in fimm. Við munum skoða hugtökin frá ýmsum sjónarhornum með það að markmiði að bæta og stuðla að jákvæðum samskiptum í samfélaginu okkar. Við berum öll ábyrgð á að eiga í góðum samskiptum, bæði ég og þú, sama hvaða hlutverki við gegnum, sem foreldrar, þjálfarar, iðkendur, kennarar, nemendur og manneskjur í samfélaginu okkar.

Í leikskólum bæjarins mun hver leikskóli vinna með S-in fimm og fjalla sérstaklega um hugtökin í starfi sínu þá vikuna. Í grunnskólunum verður fjölbreytt dagskrá og munu félagsmiðstöðvarnar leggja áherslu á að kynna forráðafólki fyrir starfsemi þeirra og vinna sérstaklega með S-in fimm með það að augnamiði að treysta tengsl forráðamanna, barna og starfsmanna félagsmiðstöðvanna.

Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ hefur verið ákveðið að halda forvarnarmánuð í nóvember og verður fjölbreytt dagskrá með námskeiðum, smiðjum og alls kyns viðburðum sem hafa það að markmiði að efla félagsfærni, samkennd og samskipti meðal nemenda. Þar að auki er sefnt að því að draga úr símanotkun, auka samfélagslega ábyrgð og stuðla að betri andlegri heilsu meðal nemenda með því að hvetja til betri samskipta og aukinnar samveru.

Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar beinir því til íþróttafélaga og annarra frjálsra félaga í bænum að leggja áherslu á að bæta samskipti til að bæta líðan einstaklinga sem koma að starfinu, bæði þjálfara og iðkenda.

Opinn fundur með forráðafólki barna og ungmenna

Garðabær mun síðan halda opinn fund með forráðafólki barna- og ungmenna í Garðabæ þriðjudaginn 12. nóvember nk., kl. 20:00 í Sjálandsskóla. Bæjarstjóri mun ávarpa fundinn en svo munu fyrirlesarar flytja nokkur erindi um málefni sem snúa að börnum og ungmennum í bænum okkar í ljósi umræðna og atburði sem hafa átt sér stað í samfélaginu undanfarin misseri, s.s. um vopnaburð ungmenna, hópamyndanir, hættur á samfélagsmiðlum o.s.frv. Við hvetjum foreldra og forráðafólk til að fjölmenna á opna fundinn og taka þátt í gagnlegum umræðum um forvarnir í lífi barna og ungmenna í Garðabæ.

Tökum þátt – vinnum saman að heilbrigðu samfélagi!

Fyrir hönd íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar vil ég hvetja alla bæjarbúa til að vinna saman að heilbrigðu samfélagi. Hugum sérstaklega að daglegum samskiptum í lífi okkar, sköpum traust manna í millum og treystum þannig forvarnir í lífi barnanna okkar. Dagskrá forvarnaviku Garðabæjar má finna á vef bæjarins, gardabaer.is, og einnig má sjá upplýsingar á vefjum skólanna. Ég vil þakka sérstaklega þeim fjölmörgu aðilum sem hafa lagt sig fram við að undirbúa áhugaverða, fræðandi og skemmtilega dagskrá fyrir forvarnavikuna okkar árið 2024.

Hrannar Bragi Eyjólfsson
formaður íþrótta- og tómstundaráðs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar