Rótarý Hof styrkir Örninn

Rótarýklúbburinn Hof Garðabæ styrkir mikilvægt starf Arnarins, ekki síst vegna mikilvægs starfs sem fer þar fram til styrkingar barna og ungmenna sem hafa misst nána ástvini sína.

Örninn og sjálfboðaliðar sem taka þátt í starfinu sinna mikilvægum stuðningi í úrvinnslu unga fólks-ins okkar á sorginni. Rkl. Hof leggur áherslu á mikilvægi þess að styðja við mannúðarstarf og fellur starf Arnarins vel að því. Rkl. Hof hvetur önnur góðgerðarsamtök og félög sem vilja styðja Örninn til að gera það, enda er hér um óeigingjarnt starf að ræða.

Starf Arnarins

Örninn er félag sem stofnað var 2018 af Heiðrúnu Jensdóttur og sr. Jónu Hrönn Bolladóttur. Heiðrún varð fyrir þeirri reynslu að missa fullorðinn son sinn og varð vör við það að ýmislegt vantaði uppá úrræði fyrir þá 10 ára sonardóttur hennar sem var að syrgja föður sinn. Hún kynnti sér þess vegna sorgarhópa erlendis og kom að máli við Jónu Hrönn varðandi það að stofna hér á landi sumarbúðir fyrir börn í sorg. Boltinn fór að rúlla og í dag hefur stór hópur af sjálfboðaliðum Arnarins farið sex sinnum með hóp af börnum og unglingum á aldrinum 9 til 17 ára upp í Vindáshlíð og Vatnaskóg yfir helgi til þess að vinna með sorgina og hjálpa unga fólkinu að finna sorginni sinni heilbrigðan farveg. Þar fyrir utan hittumst við á reglulegum fundum yfir veturinn þar sem við höldum áfram að kynnast og vinna sorgarúrvinnslu ásamt því að hafa gaman og njóta lífsins. Vonin og gleðin verða alltaf að vera með í för.

Sjálboðaliðarnir sem starfa fyrir Örninn koma úr hinum ýmsu áttum og eru m.a. sálfræðingar, guðfræðingar, prestar, myndmenntakennarar og sjúkraþjálfarar. ,,Við nýtum okkur fjölbreytta þekkingu starfsfólksins til þess að vinna með sorgina frá ólíkum hliðum því börn og unglingar hafa ekki sömu getu og fullorðnir til þess að setja tilfinningar sínar í orð og greina þannig sitt innra líf. Þess vegna dugar ekki bara samtalsmeðferð fyrir þau þó svo að hún sé afskaplega mikilvæg. Börn hafa enn meiri þörf en fullorðnir til þess að vinna líka táknrænt úr sinni sorg og með annars konar tjáningu. Þau nota leik, myndlist, tónlist, táknrænar athafnir og líkamlega úrvinnslu. Af þeim sökum reynum við að mæta öllum þessum tjáningaformum með vinnu í listasmiðju, á minningastundum, með hreyfingu og slökun ásamt leik og gleði. Þar fyrir utan eru úrvinnslufundir þar sem börnin ræða missinn og sorgina í litlum hópum þar sem sorgarráðgjafi stýrir umræðunni ásamt sjálfboðaliðum,” segir Matthildur Bjarnadóttir, æskulýðsprestur og verkefnastjóri Arnarins.

Um þar síðustu helgi var farið með 35 börn og unglinga upp í Vatnaskóg en meðfylgjandi myndir eru afrakstur listasmiðjunnar. Þetta eru sjálfsmyndir sem tjá innri veruleika, tilfinninga, vonir og drauma.

Forsíðumynd: Afhentu styrkinn! F.v. Matthildur Bjarnadóttir, æsku-lýðsprestur og verkefnastjóri Arnarins., Heiðrún Jensdóttir, stofnandi Arnarins, Sigríður Björk Gunnarsdóttir, forseti Hofs og Guðmunda Dagmar Sigurðardóttir, stallari.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar