Haustsýning Grósku verður opnuð föstudaginn 28. október kl. 18:30-22 í Gróskusalnum á 2. hæð, Garðatorgi 1, og einnig á torginu fyrir framan. Þema sýningarinnar er rökkur og opnunin tengist listahátíðinni Rökkvan sem haldin er á Garðatorgi sama kvöld. Sýnendur eru 23 og allir í Grósku, félagi myndlistarmanna í Garðabæ. Sýningarstjóri er Laufey Jensdóttir myndlistarmaður.
Fólk er hvatt til að gera sér glaðan dag, göfga andann og njóta hauströkkursins, bæði á sýningu Grósku og Rökkvunni. Myndlistarmennirnir verða á staðnum.
Allir eru hjartanlega velkomnir, Garðbæingar jafnt sem aðrir listunnendur, og þau sem ekki komast á opnunina þurfa ekki að örvænta því sýningin er opin áfram helgarnar 29.-30. október og 5.-6. nóvember kl. 13.30-17.30.
Gróska er öflugt myndlistarfélag sem stendur fyrir allnokkrum myndlistarsýningum á ári, auk námskeiða og annarra viðburða. Í félaginu er fjölskrúðugur hópur fagmenntaðra og sjálfmenntaðra myndlistarmanna en ein af hugsjónum Grósku er að allir fái að blómstra og njóta sín við listsköpun. Í rúmlega tólf ár hefur starfsemi Grósku skapað mikilvægan vettvang fyrir skapandi samneyti myndlistarmanna og eflt myndlistina og menningarlíf Garðabæjar. Myndlistarmenn sem búa eða vinna í Garðabæ eru hvattir til að sækja um inngöngu í Grósku gegnum fésbókarsíðu Grósku https://www.facebook.com/groska210/ eða með því að senda póst á [email protected].
Forsíðumynd: Hulda Hreindal Sigurðardóttir