Ríkar áherslur lagðar á umhverfismálin en ekki síður að skapa aðstæður fyrir gott samfélag íbúa í Urriðaholti

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Urriðaholti á undanförnum 16 árum og þar risið blómlegt og metnaðarfullt hverfi, en nú líður að lokum uppbyggingar. Garðabær og Urriðaholt ehf gerðu með sér samkomulag í lok árs 2021 þar sem stefnt var að ljúka uppbyggingu byggðar í Urriðaholti fyrir lok árs 2024 og virðast þau markmið að mestu að ganga eftir.

Tæplega 25% íbúafjölda í Garðabæ býr í Urriðaholti

Sumarið 2008 var fyrsti áfangi Urriðaholts tilbúinn til uppbyggingar, en efnahagshrunið sama ár hægði þó töluvert á uppbyggingunni, en síðustu ár hefur verið mikill og góður gangur í uppbyggingunni og þegar hverfið verður fullbyggt verða íbúar hverfisins um 4500 talsins eða tæplega 25% af íbúafjölda Garðabæjar.

Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf, hefur stýrt uppbyggingunni í Urriðaholti af mikilli röggsemi allt frá upphafi og Garðapósturinn heyrði í honum nú þegar sér fyrir endann á þessari viðamiklu uppbyggingu.

Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf, hefur stýrt uppbyggingunni í Urriðaholti af mikilli röggsemi

99% íbúða í hverfinu fullbúnar á næsta ári

Það er beinast að spyrja Jón af því hver staðan sé í dag og hvort markmið um að ljúka uppbyggingu séu að nást? ,,Nú eru uppbyggingu í síðasta áfanga íbúðarbyggðar að ljúka og á næsta ári verða 99% íbúða í hverfinu fullbúnar. Eins og gengur er einn og einn draugur í uppbyggingu og er það sameiginlegt verkefni Urriðaholts og Garðabæjar að tryggja að öll uppbygging klárist. Ekki hefur ekki tekist að koma öllum atvinnulóðunum í uppbyggingu og áfram er unnið að því en of snemmt er að segja til um hvenær það gangi eftir,“ segir Jón Pálmi.

Ekkert slakað á gæðakröfum þrátt fyrir efnahagshrunið

Sumarið 2008 var fyrsti áfangi Urriðaholts tilbúinn til uppbyggingar, en það er hægt að segja að tímasetningin hafi ekki verið góð þar sem efnahagshrunið brast á í október sama ár. Hafði þetta mikil áhrif á uppbygginguna og breyttist eitthvað? ,,Hrunið hægði auðvitað á allri uppbyggingu en við vorum í stakk búinn til að takast á við það. Félagið hafði tekjur af Kauptúnslóðum og var jafnframt 100% fjármagnað með eigið fé og hafði því alla burði til að takast á við vandann. Við ákváðum að hvergi yrði slakað á þeim gæðakröfum sem lagt var upp með en auðvitað þurftum við að takast á við þær breytingar sem hrunið hafði á eftirspurn eftir húsnæði.“

Vesturhluti Urriðaholts árið 2014

Fullt af dæmum þar sem lóðir voru seldar með verulegum afslætti

Það var eitthvað rætt um að til að koma verkefninu og uppbyggingunni af stað að nýju eftir efnahagshrunið þá hafa fyrstu fjölbýlishúsalóðirnar selst með mjög góðum afslætti? ,,Já, það eru fullt af dæmum þar sem lóðir voru seldar með verulegum afslætti en kannski ekki bara til að koma uppbyggingu af stað. Hluti af því var líka að byggja upp hverfi og skapa fleiri íbúðavalkosti. Við lögðum m.a. áherslu á byggja smáíbúðir og fengum félög eins og Bjarg og Búseta til að byggja í hverfinu en auk þess höfum við veitt verulega afslætti þeim aðilum sem hafa byggt Svansvottuð hús í hverfinu. Svo í sömu vegferð þá höfum við farið í tvö stór fjárfestingarverkefni í uppbyggingu atvinnulóða. Fyrst með bygging húss fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands og svo húss í aðkomu hverfisins fyrir hverfistengda þjónustu ásamt því að hýsa skrifstofur Bláa Lónsins á efri hæðum.“

Fyrstu íbúarnir í Urriðaholti fluttu inn 2010. Hafsteinn Guðmundsson, Steinunn Bergmann og sonur í Keldugötu 7 ásamt Jóni Pálma

Ríkar áherslur lagðar á umhverfismálin og skapa aðstæður fyrir gott samfélag

Urriðaholt ehf er í eigu Oddfellowreglunnar á Íslandi og Viskusteins ehf, eignarhaldsfélag í eigu Sigurðar Gísla Pálmasonar og Jóns Pálmasonar. Þessi tvö félög ákvaðu strax í upphafi að leggja mikinn metnað í uppbygginguna þar sem umhverfismálin skipa stóran sess – með hvaða hætti og hverjar voru helstu áherslurnar? ,,Já, það voru ríkar áherslur lagðar á umhverfismálin en ekki síður að skapa aðstæður fyrir gott samfélag íbúa í hverfinu. Þessar áherslur hafa haldist alla tíð. Við vorum vissulega í fararbroddi á sínum tíma á mörgum sviðum en á þessum tíma sem liðið hefur hafa kröfur samfélagsins líka aukist og margt af því sem við vorum að gera í upphafi hefur orðið sjálfsögð krafa í öðrum verkefnum í dag,“ segir hann.

Þetta er stórt og fjölmennt hverfi, í raun heill Vestmannaeyjabær risið í Urriðaholti. Hverjar hafa verið helstu áskoranirnar í þessu verkefni? ,,Skipulagsmálin í samstarfi við Garðabæ hefur alltaf verið ráðandi þáttur í allri uppbyggingu hverfisins. Síðan höfum við ráðið til verksins fjölda ráðgjafa og sérfræðinga til púsla þessu saman og að lokum samningar og eftirfylgni við kaupendur lóða og þá bæði verktaka og einstaklinga.“

Hafa öll þessi metnaðarfullu markmið sem sett fyrir hverfið gengið eftir eða hafið þið þurft að draga eitthvað í land? ,,Já, ég held að það megi segja að þessi markmið hafa gengið eftir. Auðvitað er alltaf eitthvað sem hefði mátt ganga betur en uppbygging hverfis tekur áratugi og stundum þarf þolinmæði.“

Náttúrufræðistofnun í nóvember árið 2010

Þurftu að höfða til barnafjölskyldna sem voru í brýnni þörf fyrir húsnæði

Hvað með íbúasamsetningu í hverfinu, nú hefur það komið töluvert á óvart hversu margar barnafjölskyldur hafa flutt í hverfið, en þær eru langt yfir meðaltali þegar miðað er við önnur hverfi innan Garðabæjar. Veistu hvað veldur og reiknuðu þið með meiri aldursblöndun? ,,Ég held að það sé tvennt sem skýri þetta. Til að ná krafti í uppbyggingu þurftum við m.a. að höfða til barnafjölskyldna sem voru í brýnni þörf fyrir húsnæði og hins vegar að Garðabær er þekktur fyrir að veita barnafólki góða þjónustu. Þetta varð til þess að meðaltalsútreikningar í aldursamsetningu brugðust með tilheyrandi vanda í leikskólamálum sem nú þegar er þetta farið að jafna sig.“

Samgöngutengingar við hverfið hafa því miður ekki gengið eftir

Annað sem hefur verið töluvert rætt um er aðkoman inn í Urriðaholtið og Kauptún, það myndast stundum töluverðar teppur á álagstímum. Í samkomulaginu við Garðabæ árið 2021 var rætt um að hefja undirbúning og viðræðu við hagsmunaaðila um gerð tengivegar austan við Kauptún 6 (Toyota) og að gatnamótum Reykjanesbrautar við Molduhraun í samræmi við aðalskipulag. Hvernig er staðan hvað þetta varðar og var ekki hugmyndin einnig að opna aðkomu inn og út úr hverfinu inn á Elliðavatnsveg (Flóttamannaveginn)? ,,Samgöngutengingar við hverfið hafa því miður ekki gengið eftir. Vandamálið er að við erum háð ríkinu (Vegagerðinni) um úrbætur á Flóttamannavegi og gerð mislægra gatnamóta við Reykjanesbraut í gegnum Kauptúnið. Umferðarlega er þetta að sjálfsögðu mjög bagalegt en þetta er líka alvarlegt öryggismál. Nú í vetur gerði Verkfræðistofan Efla heildarúttekt á umferðarmálum Urriðaholts og Kauptúns þar sem farið var yfir upphaflegar forsendur á sínum tíma og þá þróun sem orðið hefur fram til dagsins í dag ásamt ítarlegri greiningu á stöðunni í dag og hvað þurfi bæta. Of langt er að rekja efni þess hér en kynning er m.a. aðgengileg að heimasíðu Urriðaholts.“

2020 Austurhluti Urriðaholts! Alexander Ágúst Óskarsson og Eva Dögg Davíðsdóttir, ungt par í framkvæmdum í Urriðaholti

Verið að skoða möguleika á líkamsræktarstöð og stórri matvörverslun

Í síðasta áfanganum, sem er í uppbyggingu, er töluvert um atvinnuhúsnæði. Fyrir hvernig atvinnurekstur og er vitað um einhver fyrirtæki sem eru að koma þar inn? ,,Atvinnuhúsnæðið er mikið skrifstofuhúsnæði á efri hæðum. Því miður hefur ekki tekist að koma því öllu í uppbyggingu þrátt fyrir allskyns tilraunir. Svo hjálpar ekki að fjármálastofnanir lána ekki til slíkra verkefna nema húsnæðið sé fyrirfram selt eða leigt út. Nú er verið að vinna lokaundirbúning að uppbyggingu regluheimils fyrir Oddfellow og jafnframt er verið að skoða möguleika á líkamsræktarstöð og stórri matvörverslun en það er mjög mikilvægt að horfa á þetta í heild og ljúka allri uppbyggingu.“

Staðsetning og náttúran í kring eru frábær gæði

Svona þegar þú lítur yfir þennan tíma ertu þá ánægður og stoltur með hvernig þetta ferli og uppbyggingin hefur gengið? ,,Já, ég er mjög sáttur. Ég held að í heildina hafi tekist mjög vel til þó auðvitað megi alltaf finna eitthvað sem hefði mátt fara betur. Staðsetning og náttúran í kring eru frábær gæði og ég held að allt það sem við höfum gert til viðbótar sé til þess fallið að auka lífgæði þeirra sem þar búa.“

Verkefni sem allir geti verið stoltir af

Og hefur samstarfið við Garðabæ gengið vel? ,,Já, samstarfið við Garðabæ hefur gengið mjög vel. Á svona löngum tíma hafa verið mörg sjónarmið og auðvitað ekki alltaf allir sammála en ég er þess nokkuð viss að þetta samstarf hafi ekki síður verið árangursríkt fyrir Garðabæ og séum með verkefni sem allir geti verið stoltir af.“

Hefur elst með verkefninu

Þú hefur verið vakinn og sofinn yfir þessu verkefni frá því að samstarfssamningar við Garðabæ voru gerðir árin 2005 eða í nærri 20 ár. Hvað tekur svo við hjá Jóni? ,,Maður hefur elst með verkefninu. Því líkur kannski ekki á einhverjum einum degi en markmiðið er að minnka vinnu og ég er reyndar nú þegar byrjaður í smá aðlögun í þeim efnum.“

Og er svo Jón sjálfur ekki öruggleg búsettur í Urriðaholti? ,,Fjölskyldan keypti einbýlishúsalóð á besta stað í hverfinu sínum tíma. Af ýmsum ástæðum gekk það ekki eftir en nú erum við hjónin búin að kaupa íbúð í fjölbýli sem er í byggingu í norðurhlíðum Urriðaholts,“ segir Jón Pálmi að lokum sem má sannarlega vera stoltur af þessari flottu og metnaðarfullu byggð sem risin er í Urriðaholti undir hans stjórn.

Forsíðumynd: Fyrsta húsið sem reis í Urriðaholti var árið 2009

Austurhluti Urriðaholts 2020
Austurhluti Urriðaholts 2020

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar