Hrannar Bragi Eyjólfsson býður sig fram í 4.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.
Ég heiti Hrannar Bragi Eyjólfsson og ég býð mig fram í 4.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, 5. mars næstkomandi. Það geri ég vegna þess að ég get af einlægni sagt að ég unni sannarlega Garðabænum heitt og vil leggja mitt af mörkum til að efla hag bæjarfélagsins og velsæld íbúanna.
Fjölskylda mín á að baki langa sögu í bænum. Ég get stoltur sagt að hún hefur verið í þjónustu við samfélagið í meira en 60 ár. Ég er fæddur og uppalinn í Garðabæ og hef búið hér alla mína ævi. Hér hef ég gengið í gegnum leik-, grunn- og framhaldsskóla, og þykist því þekkja ágætlega okkar góða skólakerfi. Það hefur verið gæfa mín að alast upp og ganga í gegnum skóla bæjarins. Nú er ég 26 ára gamall og starfa sem lögfræðingur hjá Almenna lífeyrissjóðnum.
Ég er þeirrar skoðunar að sterkur stuðningur bæjaryfirvalda við frjáls félög í bænum er íbúum nauðsynlegur og farsæll grunnur heilbrigðs samfélags. Stjörnuhjartað fékk ég í arf, félagið er mér í blóð borið, og spila ég nú handbolta með meistaraflokki karla hjá Stjörnunni.
Ég var snemma félagslyndur og tók þátt í nemendafélögum, bæði í FG og í Háskólanum í Reykjavík. Mér er því ljóst hve nauðsynlegt og þroskandi félagslíf er í skólum. Einnig hef ég tekið þátt í ungmennahreyfingum Sjálfstæðisflokksins, bæði í Garðabæ og einnig á landsvísu. Þess utan var ég á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og hef setið í menningar- og safnanefnd Garðabæjar síðustu fjögur ár. Þau störf hafa aukið löngun mína til að taka frekari þátt í uppbyggingu bæjarins og leggja mitt af mörkum til þess að gera okkar góða bæjarfélag enn betra.
Frá þessum stað rata ég í prófkjörsbaráttu hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég vil varðveita það góða sem nú þegar hefur verið unnið í Garðabæ, en um leið horfa upplitsdjarfur til framtíðar með framsæknum hug, þannig að okkar góði bær geti verið í forystu í sem flestum málum á landsvísu.
Í þessari stuttu grein kem ég ekki öllum mínum áherslum eða stefnumálum fyrir, og mun ég gera betur grein fyrir þeim síðar, en brot af þeim eru þessi:
Traustur fjárhagur er undirstaða framþróunar
Við búum vel í Garðabæ og vel hefur verið haldið utan um fjármál og rekstur bæjarins. Þá braut þurfum við áfram að feta. Höldum áfram álögum lágum og höldum skuldahlutfalli bæjarins í lágmarki, sýnum hagsýni og ráðdeild og leggjum þannig grunn að traustri og bættri þjónustu.
Unga fólkið þarf rödd
Yfirskrift þessarar greinar er: Reynsla er mikilvæg – en nýliðun líka. Ég trúi því að mikilvægt sé að listi Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum endurspegli samfélag Garðbæinga eins og það er. Mikil fjölgun hefur verið á ungu fólki á liðnu kjörtímabili og það þarf rödd í bæjarstjórn. Ég býð mig stoltur fram sem málsvara unga fólksins í Garðabæ, en jafnframt sem baráttumann fyrir lögbundinni grundvallarþjónustu fyrir alla bæjarbúa.
Garðabær er sístækkandi
Okkar Garðbæinga bíður mikil áskorun. Á síðustu átta árum hefur bæjarbúum fjölgað mjög mikið. Það stafar ekki aðeins af sameiningu Álftaness og Garðabæjar, heldur hefur nýtt hverfi í Urriðaholti stækkað ört og fólksfjölgunin verið mikil.
Skólamál og leikskólar
Það á að vera stefna Sjálfstæðisflokksins að standa við það grundvallarmarkmið að tryggja börnum, 12 mánaða og yngri, pláss í leikskólum bæjarins. Til þess þarf að vanda til verka og byggja skóla og leikskóla þar sem við á í samræmi við stærð íbúðarhverfa sem skólarnir eiga að þjóna, bæði fyrir börnin, og eins til þess að laða hæfasta starfsfólk á hverjum tíma til starfa í Garðabæ. Þetta þarf m.a. að hafa í huga við uppbyggingu á nýjum hverfum, s.s. í Hnoðraholti.
Tengjum saman bæjarhluta – Urriðaholt – Innbæ – Álftanes
Byggðin í Garðabæ hefur vaxið mjög á umliðnum árum. Frá því að meginbyggðin skiptist á svæðið sitt hvorum megin við Hafnarfjarðarveg má segja að byggðakjarnar bæjarfélagsins séu nú þrír. Þessi nýi veruleiki skapar áskoranir fyrir Garðabæ.
Við Ásdís kærasta mín erum hluti af því unga fólki sem fest hefur kaup á íbúð í Urriðaholti. Ég tel mjög mikilvægt að börnum og unglingum í Urriðaholti séu tryggðar góðar og öruggar samgöngur til og frá hverfinu. Þar á ég bæði við almenningsvagna en líka göngu- og hjólastíga. Tryggja þarf að þegar í stað verði ráðist í gerð undirganga eða göngubrúar yfir Reykjanesbraut sem tengir hverfið betur við eldri hverfi Garðabæjar. Þannig gætu krakkar úr hverfinu farið með öruggum hætti yfir brautina og í átt að Ásgarði í gegnum Garðahraun. Að sama skapi þarf að tryggja greiðfærar samgöngur ungmenna yfir í Miðgarð – okkar nýja og glæsilega fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri. Á sama veg þarf að tryggja góðar almenningssamgöngur milli Álftaness, innbæjar og Miðgarðs.
Ég brenn vissulega fyrir mörgum öðrum málefnum í okkar samfélagi, t.d. um Álftanes, eldra fólk, félagslíf, íbúalýðræði, miðbæjarmál og málefni menningar í bænum. Um það rita ég síðar.
Tökum þátt í prófkjörinu!
Ég hvet bæði unga og aldna til þess að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ 5. mars næstkomandi, annað hvort sem frambjóðendur eða sem kjósendur. Það er mikilvægt fyrir flokkinn og raunar bæjarfélagið allt að góð þátttaka náist í þessu lýðræðislega vali sem okkur er boðið upp á. Þannig fáum við vonandi góðan lista hæfileikaríks fólks sem endurspeglar samfélag Garðbæinga. Ég vil leggja mitt af mörkum við að vinna okkar ágæta bæjarfélagi gagn á komandi kjörtímabili í samvinnu við traustan hóp í bæjarstjórn, öllum íbúum yngri sem eldri til heilla.
Lifið heil!