,,Bollusalan fer vel af stað,“ segir Stefán R. Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA, en hann reiknar með að seldar verði um 80 þúsund bollur í veitingahúsi IKEA í Kauptúni á meðan sölunni stendur og alls um 10 þúsund bollur á bolludaginn sjálfan, sem er mánudaginn, 12. febrúar.
Og Stefán reiknar með aukinni bollusölu í ár miðað við í fyrra. ,,Við erum með 10 tegundir af bollum, hefðbundnar ásamt sælkerabollum og sænsku Semlabollunni;“ segir hann.
Saltkjör og baunir á 995 kr.
Þá er sprengidagurinn alltaf stór dagur í IKEA, en hann er á þriðjudaginn. ,,Við reiknum með að selja um 1600 skammta af saltkjöt og baunum, en það er svipað magn og seldist í fyrra,“ segir hann en skammturinn kostar aðeins 995 kr. með ábót á súpu.
Stefán sjálfur hefur svo afgreitt viðskiptavini á sprengidaginn. ,,Við munum skipta með okkur vöktum á sprengidag og allir taka þátt. Sjálfur verð ég part úr degi að afgreiða baunasúpuna,“ segir hann en veislan hefst kl. 11 á sprengidag.
Ekki má svo gleyma öskudeginum sem er á miðvikudaginn, 14. febrúar, en þá er góðgæti í boði fyrir börnin í anddyri IKEA.