Reglur um útivistartíma barna og unglinga

Grunnþáttur í velferð barna

Þann 1. maí breyttist útivistartími barna og unglinga, en um útivistartíma barna er fjallað í 92. gr. barnaverndarlaga, en þar segir:

Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20:00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22:00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. 
Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag. 

Af hverju eru reglur um útivistartíma?
Reglur um útivistartíma eru fyrst og fremst til að vernda börn og unglinga. Það hefur sýnt sig að eftirlitslaus börn og unglingar sem eru úti langt fram á kvöld eru líklegri til að fikta við tóbak, áfengi og fíkniefni og lenda frekar í ýmis konar vandræðum. Reynslan hefur jafnframt sýnt að alvarlegar líkamsárásir og óæskileg kynlífsreynsla eiga sér oft stað seint á kvöldin.
Góður nætursvefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu og vellíðunar. Niðurstöður kannana sýna að börn og unglingar í dag fá mörg hver ekki nægjanlegan nætursvefn. Það að vera komin heim á skikkanlegum tíma eykur líkur á að börn og unglingar fái góða hvíld. Vel útsofnir einstaklingar eru ólíklegri til að lenda í slysum og óhöppum.

Hvenær gilda reglurnar?
Útivistarreglurnar gilda alla daga ársins, virka daga, um helgar og á hátíðisdögum. Reglurnar segja til um hvað börn og unglingar mega vera lengi úti en ekki hvað þau eiga að vera lengi úti. Foreldrar geta því sett sínar eigin reglur innan ramma útivistarreglna.

Samstaðan mikilvæg
Samstaða foreldra, bæjaryfirvalda og lögreglu er lykillinn að þeim góða árangri sem náðst hefur hér í Garðabæ á undanförnum árum. Sá árangur er ekki síst góðri samstöðu foreldra varðandi útivistartíma að þakka. Færri börn og unglingar eru á ferli ein og eftirlitslaus seint á kvöldin og sjaldgæfara er að lögreglan þurfi að hafa afskipti af unglingum á grunnskólaaldri í Garðabæ.
Það að foreldrar séu vel upplýstir og samtaka í viðmiðum skapar öryggi og samhljóm sem auðveldar öllum að virða reglur um útivistartíma og stuðla þannig að velferð barna og unglinga í bænum okkar.

Björg Fenger, bæjarfulltrúi og formaður ÍTG

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar