Leikskólinn Urriðaból í Urriðaholti fékk góða heimsókn í síðustu viku þegar Pedro Pessoa e Costa, sendiherra Portúgals á Norðurlöndum, kom í Garðabæ og óskaði sérstaklega eftir því að skoða húsið. Með í för var Marina Mendonça, ræðismaður Portúgals á Íslandi.
Leikskólinn var hannaður af Garðbæingnum Huldu Jónsdóttur, arkitekt hjá HJARK, í samstarfi við portúgölsku arkitektastofuna SASTUDIO, undir stjórn arkitektsins Tiago SA. Þau Hulda og Tiago hafa unnið saman í fjölda ára, meðal annars á sömu stofu í Kaupmannahöfn, og þetta verkefni ber greinilega merki um vel þróað samstarf þeirra.

Sendiherrann hafði heyrt af leikskólanum, sem hefur hlotið viðurkenningar fyrir framúrskarandi hönnun, vistvænt skipulag og metnaðarfulla nálgun í byggingalist. Hann lýsti yfir mikilli ánægju með tækifærið til að sjá verkið með eigin augum og sagði Urriðaból vera einn glæsilegasta leikskóla sem hann hafi séð. ,,Hér hefur verið hugsað fyrir öllu, skipulagið er vandað, efnisvalið smekklegt og útfærslan heildræn. Það er augljóst að hver einasti hluti hússins er hannaður af natni og ástríðu.”
Það var Hulda sem tók á móti sendiherranum og leiddi hann um húsnæðið. Hann naut þess að hlýða á skýringar hennar á hönnun og skipulagi leikskólans og sagði það greinilegt að hún hefði djúpan skilning á efninu. „Það er ekki aðeins fagurfræðin sem heillar heldur líka hugsunin að baki öllu, hvernig arkitektúrinn þjónar börnum, starfsmönnum og umhverfinu í einu samhengi. Þetta er hönnun með hjarta.“
Sendiherrann lýsti yfir sérstakri ánægju með þetta samstarf Íslands og Portúgals í gegnum arkitektúr og hönnun. Hann sagðist vilja styðja við áframhaldandi samvinnu og bætti við að: „Ég tel að Tiago og Hulda ættu að hanna byggingar í Portúgal líka, það væri okkur mikill fengur.“
Hulda svaraði því með brosi og sagðist vonast til þess að sá draumur rættist einn daginn.

Urriðaból hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir hönnun sína og vistvæna nálgun:
- Var meðal úrslitaverkefna á World Architecture Festival í Lissabon árið 2022 og keppti þar við stærstu arkitektastofur heims.
- Hlaut Grænu skófluna 2024 sem umhverfisbygging ársins.
- Er fyrsti SVAN-vottaði leikskólinn á Íslandi – sem staðfestir háleitar kröfur um umhverfisáhrif, heilsu og gæði innivistar.
Myndir: Hulda Jónsdóttir og Pedro Pessoa e Costa, sendiherra Portúgals á Norðurlöndum í leikskólanum Urriðabóli