Pörin koma koll af kolli alveg fram í marslok

Þeir sem hafa lagt leið sína á Garðatorgið nýlega hafa etv. tekið eftir tveimur málverkum sem hanga þar uppi fyrir framan nýja verlsun á torginu, Mu & Me. Listmálarinn Birgir Rafn Friðriksson – BRF er þar með tvö málverk sem hanga á upphengdum flekum. Á flekunum er texti með stórfyrirsögninni „Dúettar“.  Þar stendur að um sé að ræða sýningarröð og það sem gefur að líta þarna er fyrsti þáttur af fimm í röðinni. Kallast þessi fyrsti þáttur „Um upphaf“ og samanstendur sumsé af tveimur verkum. Garðapósturinn forvitnaðist meira um málið.

Nýtt þema um hver mánaðarmót

Birgir Rafn hvað er á seyði hér? ,,Þetta er upphaf sýningarraðar og það sem hér sést er fyrsti þátturinn í þeirri röð. Það kemur svo nýr þáttur strax um mánaðarmótin og þá skipti ég út verkunum og nýtt málverkapar tekur sviðið. Auðvitað kemur nýtt þema. Svo koma pörin koll af kolli alveg fram í marslok. Hver þáttur stendur í mánuð í senn,“ segir Birgir.

Því heitir þessi þáttur Um upphaf? ,,Ég átti þessi tvö verk til hjá mér. Þegar ég hafði þróað hugmyndina betur tók ég eftir að bæði verkin fjölluðu um einhverskonar byrjun. Frá ólíkum sjónarhóli þó. Borgarsenuverkið er fyrir mér eins og nýr dagur. Ferskleiki, hráleiki, frískleiki. Samt eru þar kröftug og þung form húsa og annarra hluta líka. Eins og þau séu grunnur fyrir það sem koma skal. Hitt verkið hefur aftur meiri djöfulgang og lífskrafta að miðla, en þó má – ef grannt er skoðað – sjá gulli slegin sjóndeildarhring og þar með landslag. Vísunin er þannig meira í náttúruna í þessu verki þú skilur. Verkin fjalla bæði um upphaf, bara frá sitthvorum sjónarhólnum. Og svo er þetta sýningarupphaf.“

Til hvers að stilla þeim svona saman upp? Og af hverju ekki að hengja fleiri verk upp og klára bara sýninguna fyrir jól? ,,Þú segir nokkuð. Sko hugmyndin er sú að tefla tveimur verkum saman og láta þau mynda einhverskonar söng saman, þ.e. dúett. Málið er að ef maður stillir upp gulum sófa við hliðna á grænu píanói fara litirnir að hafa áhrif hvor á annan og guli sófinn myndi virka allt öðru vísi við hliðina á bláa píanóinu. Litir og áferðir hafa sterk sjónræn áhrif út yfir sjálfa hlutina sem þeir bindast og yfir á aðra litaða hluti. Flestir átta sig á þessu þegar þeir raða sjálfum sér í fötin sín á morgnanna og velja liti og áferðir saman. Þetta gildir vitaskuld líka með hlutina sem fólk raðar upp heima hjá sér. Stundum er þar einn hlutur sem yfirgnæfir aðra fínlega hluti, sem þannig hálf hverfa. Eins og háværasti krakkinn í afmælinu yfirgnæfir alla hina. Dúetta hugmyndin er um að búa til lokaðra samhengi þar sem tveir koma saman, mynda einhverja heild en syngja samt hvor með sýnu nefi. Og þá var upplagt að koma samhenginu hálf kæruleysislega fyrir á torgi. Hafa lokaða samhengið á galopnu torgi. Er það ekki gott?“

Æsispennandi fyrir mig

En hvers vegna að kalla þetta þætti? Það minnir kannski lesendur helst á Netflix þáttaraðir eða leikhús. ,,Þú hittir naglann á höfuðið. Orðið þáttur er mjög gott orð og hefur sterka skírskotun í allar þessar seríur sem fólk horfir á nú um mundir. Ég vildi tengja hugmyndina við það og leikhús, málverkasýning í 5 hlutum, þó það sé ekkert hlé. Málið er nefnilega að sýningarröðin er líka gjörningur, því ég er alls ekkert búinn að fullmóta sýningarhugmyndina og hvað þá alla þættina. Ég á eftir að mála brjóta heilann mikið. Maður verður að leyfa hlutnum að gerjast og þróast. Þetta gerir þetta allt æsispennandi fyrir mig og vonandi fyrir bæjarbúa líka. Kannski einskonar lifandi spennuþáttur í Garðabæ.“

Og já, það má slúðra

Hver er þá næsti þáttur? Má slúðra því? Er það jólaþáttur? ,,Nei, nei. Aðrir sjá um jólaþættina. Og já, það má slúðra. Annar þáttur hefur að vísu ekki enn fengið nafn en fjallar um mótun. Hann kemur upp í desember byrjun. Svo ef fólk vill fylgjast með Dúettunum getur það verslað í matinn í Bónus, rekið svo nefið inn á torgið við hliðina og fengið myndlistardúett í bónus,“ segir Birgir að lokum og nú er um að gera á kíkja á sýninguna á Garðatorgi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar