Í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg stendur nú yfir sýning á peysum eftir textílhönnuðinn Ýrúrarí. Í ágúst býður hönnuðurinn upp á tvær opnar smiðjur þar sem gestir koma með sínar eigin peysur sem annaðhvort eru skemmdar eða sem eigandinn er hættur að nota og langar að endurlífga. Smiðjurnar fara fram sunnudaginn 20. og 27. ágúst kl. 13:00. Frítt er í smiðjurnar og efniviður til viðgerða er í boði á staðnum en þátttakendur mega gjarnan koma með eigin efnivið.
Sýning Ýrúrarí ber titilinn Nærvera. Hér leikur hönnuðurinn sér með mörk búninga og hversdags klæðnaðar. Undanfarin ár hefur sjálfbærni og endurvinnsla verið fókuspunktur í verkunum sem aðallega eru unnin með efnivið sem safnast upp á endurvinnslustöðvum.
Á sýningunni gefur að líta nýjar peysur eftir Ýrúrarí. Ferlið byggist á tilraunum með fjölbreyttar aðferðir og útfærslur sem veita ósöluhæfum peysum úr endurvinnslustöðvum sterkari nærveru svo þær haldist í notkun um ókomna tíð. Í anda fyrri verkefna Ýrúrarí eru peysurnar unnar á húmorískan hátt með leikgleði að leiðarljósi. Markmiðið er að lífga upp á hversdaginn og lengja líftíma fatnaðar sem við eigum nú þegar.
Verk eftir Ýrúrarí má m.a. finna í ýmsum spennandi fataskápum en einnig í safneignum Textiel Museum í Hollandi, Museum für Kunst und Gewerbe í Hamborg, Museum of International Folk Art í Nýju Mexíkó, National Museums of Scotland og Hönnunarsafni Íslands.
Upplýsingar má finna á honnunarsafn.is
Sýningunni lýkur sunnudaginn 27. ágúst.
Ljósmyndir: Studíó Fræ