Patrekur sýndi snilli sína

Stjarnan er komin í undanúrslit Íslandsmóts karla í handbolta í fyrsta skipti í sögu úrslitakeppninnar í handbolta eftir 30:28-útisigur á Selfossi á útivelli í rafmögnuðum handboltaleik sl. föstudagskvöld. Selfoss vann fyrri leikinn 28:26 og fer Stjarnan því áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Það er Haukar sem bíða Stjörnunnar í undanúrslitum, en fyrri leikur liðanna er á þriðjudaginn í TM höllinni í Mýrinni kl. 20:15.
 
Sérfræðingarnir eru sammála um að Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, hafi sýnt snilli sína, þegar hallaði verulega undan fæti hjá Stjörnunni í leiknum og liðið var komið fjórum mörkum undir,eða alls 6 mörkum vegna tveggja marka ósigurs í fyrri leiknum. Þá tók hann sitt annað og síðasta leikhlé í hálfleiknum og enn um 15 mínútur eftir að leiknum, breytti um leikaðferð þar sem Stjarnan tók markvörðinn sinn út af þegar liðið var í sókn og spilaði þannig sóknarleikinn með 7 menn á móti 6 leikmönnum Selfoss. Planið gekk fullkomlega upp og Stjarnan saxaði á forskotið og þegar skammt var eftir af leiknum komst Stjarnan í 28-26 og þá var ljóst að Stjörnunni dugði tveggja marka sigur vegna markatölu. Stjarnan náði svo þriggja marka forystu þegar lítið var eftir og leikurinn endaði 30:28 eins og áður segir.

En hvað segir Patrekur Jóhannesson þjálfari liðsins núna rúmum sólarhring eftir að leiknum lauk – ertu búinn að jafna þig og kominn niður á jörðina? ,,Já, ég er búinn að ná mér vel niður og byrjaður að undirbúa næsta verkefni,“ segir hann.

Vorum með gott leikplan

Þetta var mögnuð spennan, hvernig leið þér á lokamínútunum? ,,Mér leið mjög vel fyrir leik og í leiknum sjálfum eða allar þessar 60 mín. Ég vissi að við værum með gott leikplan og mistök sem við gerðum í leik eitt var auðvelt að laga, sem við gerðum.“

Var grimmur að breyta um varnaraðferðir

Leikur Stjörnunnar var ekki nógu góður í byrjun síðari hálfleiks og þú tekur þá ákvörðun að taka síðara leikhlé liðsins þegar hálfleikurinn er rétt tæplega hálfnaður. Þú varst ekkert að bíða með það? ,,Nei, byrjun seinni hálfleiks var ekki góð og við vorum hikandi í aðgerðum á þessum kafla. Við vorum ekki að missa leikinn frá okkur, en klárlega var staðan orðin krefjandi, 6 mörkum undir. Við breytum sóknarlega, förum í 7/6 og varnarlega þá var ég grimmur að breyta um aðferðir til þess að gera Selfoss erfiðara fyrir að spila hefðbundinn sóknarleik. Auðvitað er það alltaf áhætta en maður verður að þora í íþróttum. Hvað ég sagði nákvæmlega í leikhléinu man ég ekki allt, en eitt man ég að ég sagði við mína menn að við þyrftum að nálgast þá því okkar tækifæri kæmi. Við vorum mjög samstilltir í þessum leik.“

Oftast ekki gaman að horfa á 7/6

Og handboltasérfræðingarnir hafa hrósað þér að taka þetta leikhlé og breyta um leikaðferð, setja 7 manninn í sóknina – hafið þið mikið æft þessa leikaðferð og notað mikið á mótinu í vetur? ,,Já, við æfum 7/6 eða þessa yfirtölu töluvert. Þessi aðferð eða taktik, að spila 7/6, er oftast ekki gaman að horfa á, en fyrir þjálfara að þá er gott að geta notað þessa aðferð. Í vetur þá höfum við spilað þetta afbrigði bæði þegar við erum undir í leikjum eða yfir.“

Við erum klárlega á réttri leið

Og þú ert fyrsti þjálfari Stjörnunnar frá því að úrslitakeppnin í handbolta var tekin upp á síðust öld sem kemur Stjörnunni í gegnum 8-liða úrslitin. Það hlýtur að vera ánægjulegt og sýnir kannski að Stjarnan er að taka skref fram á við? ,,Við erum klárlega á réttri leið, frábært fólk í stjórn og meistaraflokksráði sem vinnur mikið sjálfboðastarf hjá okkur og fórnar miklum frítíma að gera umgjörð betri og betri. Það er mjög góður andi í handboltanum í dag og samvinna milli allra flokka, karla og kvenna er til fyrirmyndar.“

Patti fer yfir málin í leikhléi með sínum mönnum í Stjörnunni

Hlakka til að stjórna mínum frábæru leikmönnum gegn Haukum

En hvað segir þú síðan um framhaldið – sterkt lið Hauka sem bíður ykkar í 4-liða úrslitum – hvernig líst þér á þá rimmu og hverjir eru möguleikarnir? ,,Mér líst vel á leikina við Hauka. Hlakka til að stjórna mínum frábæru leikmönnum í þessu krefjandi verkefni.“

Hvetur bæjarbúa til að mæta á leiki Stjörnunnar

Spennufallið hjá drengjunum sjálfsagt mikið eftir sigurinn á Selfossi. Verður ekki krefjandi koma þeim niður á jörðina aftur? ,,Nei, það verður ekkert mál,“ segir Patrekur og bætir við: ,,Ég vil nota tækifæri og hvetja alla Stjörnumenn að mæta í TM Höllina á þriðjudaginn kl. 20:00 og svo á miðvikudaginn í Ásgarð að sjá körfuna leika gegn Þór Þórlákshöfn og svo á laugardaginn að sjá fótboltann á Samsung. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar