Pælingin: Þrautseigja

Garðapósturinn fór þess á leit við Sigríði Huldu Jónsdóttur að taka upp þráðinn og skrifa áfram stutta pistla undir heitinu pælingin. Sigríður Hulda er með MA gráðu í náms- og starfsráðgjöf og MBA í stjórnun og viðskiptum, eigandi SHJ ráðgjafar. Sigríður Hulda er jafnframt bæjarfulltrúi í Garðabæ.

Það er áhugavert og ögrandi hvernig við getum breytt okkur sem manneskjum. Þessi pistill er sá fyrsti af þremur sem fjallar um seiglu og þrautseigju (e. resilience). Átt er við hæfni sem við búum öll yfir til að takast á við álag og áskoranir.

,,Seigluvöðvinn“

Á markvissan hátt getum við aukið eigin þrautseigju sem léttir okkur lífið. Að lifa í gegnum heimsfaraldur skapar kjörið tækifæri til að beina sjónum að eigin þrautseigju. Seigla og þrautseigja er hér notað jöfnum höndum í sömu merkingu þótt stundum sé rætt um að seigla sé hluti þrautseigju en ekki er farið nánar út í það hér. Við þekkjum öll leiðir til að auka líkamlegt þrek eða vöðvastyrk með markvissum æfingum. En hvernig eflum við ,,seigluvöðvann“?

Hegðun, hugsun, viðhorf

Jú, við getum stækkað ,,seigluvöðvann“ með hliðstæðum hætti. Gert ,,æfingar“ sem snúa að hegðun okkar, hugsunum og viðhorfum sem endurspegla framkomuna. Þannig er unnt að auka andlegan styrk og lífsánægju til lengri tíma litið. Verða snjallari og sterkari í daglegum áskorunum þannig að þær taka síður of mikinn toll af okkur.

Nálgun á aðstæður og verkefni

Við höfum öll tekist á við verkefni, daga og tímabil sem reyna á okkur. Þrautseigja eða seigla kemur þá fram í nálgun okkar á aðstæður og verkefni, hjálpar okkur að komst í gegnum áskorun eða ná settu marki. Þá skiptir hugsunarháttur og hegðun miklu máli, hefur jafnvel afgerandi áhrif á hvernig okkur gengur.

Árangur og áföll

Við sýnum þrautseigju til að ná árangri, einnig til að takast á við breytngar, álag eða áföll. Dæmi sem allir geta séð fyrir sér eru breyting á vinnulagi og félagsskap, fjallganga, veikindi, að ljúka verkefni, læra fyrir próf, halda stillingu í krefjandi samskiptum og svo mætti lengi telja. Ef við búum yfir þrauseigju er líklegra að við náum að ljúka verkefninu eða komast með þokkalega farsælum hætti í gegnum erfið tímabil. Það er ekki auðvelt en það er mögulegt.

Samantekt

Áskoranir tilverunnar á tímum heimsfaraldurs krefjast úthalds og yfirvegunar þar sem við þurfum að horfa til lengri tíma. Þessir þrír þættir eru allir tengdir þrautseigju. Með því að gefa hegðun okkar, hugsunum og viðhorfum gaum – svo og hvernig við nálgumst aðstæður og verkefni – skapast tækifæri til að efla eigin þrautseigju. Þrautseigja styður við árangur, jafnvægi og vellíðan við krefjandi aðstæður.

Næsta Pæling birtist 2. júní og fjallar áfram um þrautseigju. Þá er sjónum beint að tengslum þrautseigju við farsæld, andlegan styrk, staðfestu, ástríðu, þolinmæði, aga og vinnusemi.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, MBA, MA, eigandi SHJ ráðgjafar, www.shjradgjof.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar