Pælingin: Er hægt að mæla hamingjuna?

Garðapósturinn fór þess á leit við Sigríði Huldu Jónsdóttur að taka upp þráðinn og skrifa mánaðarlega stutta pistla áfram undir heitinu pælingin. Sigríður Hulda er með MA gráðu í náms- og starfsráðgjöf og MBA í stjórnun og viðskiptum, eigandi SHJ ráðgjafar. Jafnframt er Sigríður Hulda bæjarfulltrúi í Garðabæ.

Pælingin: Er hægt að mæla hamingjuna?
Á sama tíma og við mörg eigum fleiri hluti og meira af fötum en þekktist fyrir nokkrum áratugum – þá er hraðinn meiri, og samanburður t.d. í gegnum samfélagsmiðla sterkari. Í nýútkomnu lagi sínu minna Heimilistónar okkur á að anda inn og anda út og fara ekki í gegnum jólafríið í einum hnút. Já, fara ekki í gegnum lífið af einskærri kappsemi sem vinnur gegn nánd og vellíðan, en eykur streitu og kvíða eins og mælingar sýna. Er hamingjan hugmynd um eftirsóknarverða tilfinningu, stöðu, aðstæður, viðhorf eða upplifun? Er hægt að mæla hamingjuna?

Jákvæða sálfræðin kom fram á síðari hluta síðustu aldar þar sem lögð er áhersla á að skilgreina vellíðan, sátt og hamingju einstaklinga og þjóða. Áður var sterk tilhneiging í fræðunum til að staldra við vandamál og frávik. Jákvæða sálfræðin beinir sjónum að því sem er jákvætt, og einkennandi fyrir þá sem eru sáttir og sælir; heilbrigði, styrk, velgengi og leiðum sem gagnast til að auka hamingju í lífi okkar. Hér verður fjallað um nokkur hamingjuráð, eða þætti sem eru einkennandi fyrir þá sem eru sáttir og meta sig hamingusama. Þessir þættir þykja stuðla að og styðja við vellíðan. Byggt er m.a. á  Robert Biswas- Diener og bókinni Meiri hamingja (Happier) eftir Dr. Tal Ben-Shahar (þýdd af Karli Ágústi Úlfssyni, 2009).

     Þakklæti breytir hugarfarinu: Að venja sig á að veita því sem er þakkarvert í lífinu athygli, ekki síst í andstreymi, getur skapað sátt og þakklæti. Oft vill amstrið og krefjandi verkefni fanga athygli okkar og lífið virðist snúast um að lifa af. Með því að skrá daglega hjá sér nokkur atriði, sem þakka má fyrir, veitir maður því jákvæða aukna athygli og þannig vex vægi þess í eigin upplifun og tilveru.      Tengsl: Ræktaðu tengsl við aðra sem einkennast af heiðarleika, virðingu og vináttu. Gagnvirkni er mikilvæg í tengslum þannig að athyglin og stuðningur sé í báðar áttir til lengri tíma litið. Ræktaðu trúnaðartengsl þar sem þú gefur af þér og getur einnig treyst öðrum fyrir mistökum þínum, ótta og berskjöldun. Það er hreinlega óhollt að loka erfiðar tilfinningar innra með sér, skömm eða reiði. Við erum félagsverur og höfum þörf fyrir að tilheyra félagslegri einingu, mælingar sýna að einmannakennd er vaxandi vandamál í hraða samfélagsins.
   Góðar venjur – fastir siðir:  Góðar venjur veita sjálfsvirðingu, öryggi og frelsi. Venjur sem grundvallast á gildum okkar og styðja við þarfir og lífsgæði. Gagnlegt getur reynst að skilgreina ákveðna hegðun sem við viljum efla eða draga úr, fastsetja stað og stund fyrir þá venju. Rannsóknir sýna að það tekur um 21 dag að tileinka sér nýja venju og festa hana í sessi.      Ekki fresta hamingjunni:  Ekki vera of upptekin/n til að veita því rými að skapa þér innihaldsríkt líf. Forgangsraðaðu því sem vekur góðar tilfinningar og gerir þér gott í nútíð og framtíð. Góð tengsl, skemmtun, gleði og hlátur. Veldu þér félagsskap, tónlist, tómstundir, hreyfingu, umhverfi og viðfangsefni sem vekja hjá þér vellíðan.
     Minna er meira:  Ekki gera það að vana að gera margt í einu, slíkur ávani er líklegur til að skapa streitu. Njóttu þess sem þú gerir af fullri athygli. Núvitund miðlar afstöðu sáttar og vinsemdar í eigin garð og annarra. Núvitund merkir „að vera til staðar á líðandi stund í vinsemd og sátt“. Samkvæmt rannsóknum gagnast núvitund til að bæta líðan, losna undir valdi hugsana, þekkja líðan sína og viðbrög. Hreyfing er eðlileg: Að hreyfa sig ekki er ávísun á heilsuvanda. Gerðu hreyfingu að daglegri venju og finndu hreyfingu sem þér finnst skemmtileg. Hreyfing er nauðsynleg fyrir bæði líkamlega og andlega heilsu, hún þarf ekki að vera ofsafengin en mikilvægt er að hún sé regluleg.
     Leyfðu þér að vera mannleg/ur: Það er mikilvægt að gangast við eigin líðan og tilfinningum eins og ótta, sorg, öfund og reiði. Streðið við að afneita og halda slíkum tilfinningum í skefjum getur valdið þjáningu og kallað á flóttaleiðir og stjórnleysi. Allar tilfinningar eru heiðarlegar og eiga því fullan rétt á á sér. Það vinnur gegn vellíðan að hafa t.d. reiði og ótta sem ferðafélaga í gegnum lífið og því mikilvægt að finna leið til að vinna með slíkar tilfinningar.      Heilindi og gildi:  Það er mikilvægt að þekkja gildin sín og hafa þau sem leiðarljós. Heilsteypt manneskja lætur orð og gjörðir fylgjast að. Hrein samviska eflir sjálfsvirðingu okkar.
     Að gefa af sér: Þeir sem eru hamingjusamir eiga það sameiginlegt að eiga auðvelt með að leggja gott til annarra. Hugarfarið verður jákvæðara við það að beina athyglinni frá eigin þörfum og vera vakandi fyrir því sem maður getur lagt af mörkum án þess að vænta neins á móti.      Lærðu af eigin mistökum. Mistök þín skilgreina þig ekki, heldur hvernig þú vinnur úr þeim. Mistök eru tækifæri til að læra, til að festast ekki í að gera sömu mistökin aftur og aftur t.d. að lenda í tímahraki, þrasa um sömu hlutina við sama fólkið, ástunda vinnulag sem skapar streitu.

Er hægt að mæla hamingjuna? Vitum við hvað skapar þá tilfinningu og hvernig við ræktum hana? Hvað af því sem fjallað er um hér að ofan skiptir máli fyrir þig núna? Gleðileg jól og megi nýtt ár verða þér hamingjuríkt!

Næsta Pæling birtist í janúar 2022.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, MBA, MA, eigandi SHJ ráðgjafar, www.shjradgjof.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar