Óska eftir flýtimeðferð

Stjórn íbúasamtaka Urriðhaolts skora á bæjaryfirvöld í Garðabæ

Stjórn íbúasamtaka Urriðaholts hafa sent bæjarráði Garðabæjar erindi, þar sem skorað er á bæjaryfirvöld i bænum að setja í forgang og hraða sem mest má nokkrum þáttum í uppbyggingu Urriðaholts, nú þegar hverfið er að verða fullbyggt.

Vilja sundlaug til almenningsnota
Íbúasamtökin leggja áherslu á að lokið verði við byggingu skólans og sundlaugar til almenningsnota. ,,Mikill fjöldi barna hefur þegar flutt í hverfið og fleiri munu flytja á næstu misserum. Hverfið mun telja hátt í fimm þúsund manns þegar það er fullbyggt og hóflega byggð sundlaug er hluti af gæðum þessa góða hverfis. Afar mikilvægt er að ljúka framkvæmdum á skólalóðinni allri.“

Vilja fleiri leikvelli
Samtökin vilja að reistur verði leikvöllur/leikvellir með fjölbreyttum leiktækjum fyrir dreifða aldurshópa sem allar fyrst. ,,Eins ánægðir og og íbúar eru með þessi fjögur leiksvæði sem er verið að setja niður núna í vor, þá hafa margir lýst vonbrigðum með hversu lítil þau eru og finnst erfitt að þurfa að fara í önnur hverfi til að finna leikvelli fyrir börnin, sérstaklega í ljós þess að leksólinn verður opinn í allt sumar og aðstaðan þar ekki opin fyrir almenning yfir daginn. Íbúasamtökin vilja gjarnan vera í samvinnu við bæjaryfirvöld um úrvinnslu þessara hugmynda. Við teljum að framkvæmdir við Miðgarð gæru verið góð leið til að leysa mörg þessara mála og óskum við eftir auknum krafti í þá vinnu.“

Betri tengingar inn og út úr hverfinu
Þá óska samtökin eftir betri tengingum inn og út úr hverfinu, bæði fyrir gangandi, hjólandi og akandi, verði tryggð sem allra fyrst. ,,Við óskum eftir flýtimeðferð á tengingu gangandi og hjólandi við nýja íþróttamiðstöð í Vetrarmýri með stíg austan Reykjanesbrautar og undirgöng undir Vífilsstaðaveg. Einnig finnst okkur með ólíkindum að ekki skuli vera komin áætlun og eða framkvæmdir hafnar við ónýtan Flóttamannaveg þegar austurhluti Urriðaholts er að komast á lokastig og opnun tveggja umferðaræða út úr hverfinu að sunnanverðu liggur fyrir dyrum. Við förum fram á að kraftur verðir settur í þessa vinnu með Vegagerðinni og örugg tenging verði tryggð sem allra fyrst. Við höfum margoft lýst áhyggjum okkar af ferðalögum gangandi og hjólandi yfir Reykjanesbrautina og þeim gríðarlega umferðarþunga sem liggur um gatnamótin við Kauptún og ítrekum enn þennan sterka vilja íbúa að öryggi þeirra verði tryggt enn frekar á þessari tengingu við önnur hverfi Garðabæjar.“

Eiga þátt í góðri fjárhagsstöðu Garðabæjar
Og íbúasamtökin eru ánægð með góð samskipti við bæjaryfirvöld. ,,Við lýsum ánægju okkar með góð samskipti við bæjaryfirvöld og fyrir góðan framkvæmdahraða á mörgum þáttum uppbyggingar í hverfinu. Við treystum því að þessi atriði hér að ofan fái þann forgang sem okkur finnst eðlilegur í ljósi þess að hverfið er að verað fullbyggt og að þessir þættir snúa að sjálfsögðum innviðum hverfisins. Einnig viljum við minna bæjaryfirvöld á að íbúar Urriðaholts hafa greitt auka innviðagjald og við teljum að góða fjárhagsstöðu bæjarins megi að einhverju leyti þakka uppbyggingunni í Urriðaholti og þeirri fólksfjölgun sem hverfið hefur skapað bæjarfélaginu.“

Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar