Örverur á heimilinu

Á morgun, föstudaginn 27. september kl 17:00 opnar ný sýning á Hönnunarsafni Ísland, Örverur á heimilum.

Þó heimur örvera sé að mestu hulinn augum okkar þá eigum við engu að síður í margskonar samstarfi við örverur innan sem utan líkamans. Talið er að meðalmanneskjan sé samsett úr um 30 billjónum mannlegra fruma en 38 billjónum örvera. Þannig má segja að mannslíkaminn sé afrakstur af samstarfi ólíkra tegunda. Samstarf okkar við örverur á sér líka stað utan líkamans og teygir sig meðal annars inn á heimili okkar, til dæmis í formi moltugerðar og súrdeigsbaksturs.

Örverur á heimilinu er hluti af sýningarröðinni Heimsókn á Hönnunarsafni Íslands. Hún leiðir okkur inn í samstarf mannfólks við þessar örsmáu félagsverur, sem er að finna í svo að segja öllum hornum heimilisins. Hún beinir kastljósinu að fjölbreyttri örveruflóru sem umlykur okkur og býr innra með okkur, því ólíka samstarfi sem við eigum við örverur í hversdeginum og er ætlað að hvetja fólk til frekara samstarfs við örverur dags daglega.

Örverur á heimilinu er ein af afurðum þverfaglega rannsóknarverkefnisins Samlífi manna og örvera í daglega lífinu undir stjórn dr. Valdimars Tr. Hafstein. Verkefnið, sem staðið hefur undanfarin þrjú ár, leiðir saman þjóðfræðinga, mannfræðinga, næringarfræðinga og líffræðinga frá Háskóla Íslands og Matís.

Sýningarstjóri er Ragnheiður Maísól Sturludóttir, en sýningarhönnun og textagerð er unnin í samstarfi við Elínu Örnu Kristjánsdóttur og Ingibjörgu Sædísi. Sýningin er einnig unnin í samstarfi við starfsfólk Hönnunarsafns Íslands, Melta, Biopol, Ístex, Textílmiðstöð Íslands, Elin Margot, Matís, Þjóðminjasafnið og Tæknisetrið.

Rannsakendur í Samlífi manna og örvera í daglega lífinu eru Áki G. Karlsson, Birna G. Ásbjörnsdóttir, Bryndís Eva Birgisdóttir, Eysteinn Ari Bragason, Helga Ögmundardóttir, Jón Þór Pétursson, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sandra Smáradóttir, Signý Guðmundsdóttir, Sigurlaug Skírnisdóttir, Valdimar Tr. Hafstein og Viggó Þór Marteinsson.

Sýningin er styrkt af Rannís, Nýsköpunarsjóði námsmanna og NordForsk.

Hönnunarsafn Íslands, Garðatorgi,  er opið alla daga frá 12-17 nema mánudaga.

Sýningin stendur til 17. nóvember.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar