Örninn og Broskallar fengu styrk frá Rótarýklúbbnum Görðum

Rótarýklúbburinn Görðum var stofnaður árið 1965 og er starfræktur í Garðabæ. Klúbburinn fundar reglulega yfir vetrarmánuðina og fær til sín góða fyrirlesara á fundi. Hluti af starfsemi klúbbsins er að láta gott af sér leiða og styrkir klúbburinn árlega góð málefni. Einnig hefur klúbburinn gefið bókagjafir til stelpu og stráks fyrir lífsleikni við útskrift 10. bekkjar í Garðaskóla.

Í ár veitti Rótarýklúbburinn Görðum tvo styrki. Við val á úthlutun styrkja var lögð áhersla á að velja verkefni sem styðja og efla börn og ungmenni. Annar styrkurinn fer í að efla börn og ungmenni á Íslandi til að vinna úr sorg við fráfall foreldris eða náins ástvinar og hinn styrkurinn fer í að efla bágstödd ungmenni í Kenía til menn-tunar.
Minningar- og styrktarsjóðurinn Örninn hlaut 500.000 króna styrk og Styrktarfélagið Broskallar hlaut jafnframt 500.000 kr. styrk.

Stella Stefánsdóttir forseti Rótarýklúbbsins Görðum og Anna Ýr Böðvarsdóttir, sem situr í stjórn Minningar- og styrktarsjóðs Arnarins, tók á móti styrknum. Börnin hennar Önnu hafa jafnframt notið góðs af fallegu starfi Arnarins eftir að þau misstu föður sinn

Minningar- og styrktarsjóðurinn Örninn

Minningar- og styrktarsjóðurinn Örninn er félag sem stofnað var árið 2018 af Heiðrúnu Jensdóttur og sr. Jónu Hrönn Bolladóttur fyrir börn sem hafa misst foreldri eða annan náin ástvin og fjölskyldur þeirra.

Frumkvæðið kom frá Heiðrúnu eftir að missti fullorðin son sinn. Sonurinn lét eftir sig 10 ára dóttur og Heiðrún fann að fá úrræði voru í boði fyrir 10 ára sonardóttur hennar sem var að syrgja föður sinn. Hún kynnti sér sorgarhópa erlendis og kom að máli við Jónu Hrönn varðandi það að stofna hér á landi sumarbúðir fyrir börn sem hefðu misst foreldri eða náinn ást-vin. Boltinn fór að rúlla og í dag hefur stór hópur af sjálfboðaliðum Arnarins farið sjö sinnum í helgarferðir með hóp af börnum og unglingum í Vindáshlíð og Vatnaskóg til þess að vinna með sorgina og hjálpa unga fólkinu að finna sorginni sinni heilbrigðan farveg.

Þar fyrir utan er boðið upp mánaðarlega samveru- og fræðslufundi yfir vetrarmánuðina. Á fundunum er áfram unnið í sorgarferlinu ásamt því að hafa gaman og njóta lífsins. Á fundum er einnig boðið upp á fræðslu og samtal fyrir eftirlifandi foreldra og aðstandendur enda eru þau mikilvægustu stuðningsaðilar barnanna.

Allt starfsfólk Arnarins gefur vinnu sína en sjálboðaliðar Arnarins koma úr hinum ýmsu áttum og eru m.a. sálfræðingar, prestar, guðfræðingar, myndmenntakennarar, námsráðgjafar og sjúkraþjálfarar. Fjölbreytt þekking sjálfboðaliða er notuð til að vinna með sorgina frá ólíkum hliðum því börn og unglingar hafa ekki sömu getu og fullorðnir til þess að setja tilfinningar sínar í orð og greina þannig sitt innra líf.

Börn hafa meiri þörf en fullorðnir til þess að vinna líka táknrænt úr sinni sorg og með annars konar tjáningu. Þess vegna er leitast við að mæta öllum þessum tjáningaformum með vinnu í listasmiðju, á minningastundum, með hreyfingu og slökun ásamt leik og gleði.

Einnig er boðið upp á úrvinnslufundi þar sem börnin ræða missinn og sorgina í litlum hópum þar sem sorgarráðgjafi stýrir umræðunni ásamt sjálfboðaliðum.

Markmiðið er að þjónustan standi til boða og að fjölskyldurnar þurfi ekki að standa straum af neinum kostnaði og þess vegna reiðir sjóðurinn sig á styrki.

Anna Ýr Böðvarsdóttir sem situr í stjórn Minningar- og styrktarsjóðs Arnarins tók á móti styrknum. Börnin hennar hafa jafnframt notið góðs af fallegu starfi Arnarins eftir að þau misstu föður sinn.

Gunnar Stefánsson og Anna Helga Jónsdóttir tóku á móti styrknum sem styrktarfélagið Broskallar fékk frá Rótarklúbbnum Görðum

Styrktarfélagið Broskallar

Styrktarfélagið Broskallar hverfist í kringum kennslukerfi í raunvísindum sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa þróað. Kerfið þróuðu Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild HÍ, og Anna Helga Jónsdóttir, dósent við sömu deild, í samstarfi við tölvunarfræðinga.

Markmið Styrktarfélagsins Broskalla er “að koma nemendum frá fátækrahverfum Afríku í háskólanám með hjálp nútímatækni”. Verkefnið hefur verið kallað „Menntun í ferðatöskU“

Unnið er með bókasöfnum, skólum og ýmsum samtökum í Afríku en mest í Kenía. Á þessum slóðum hefur stærð-fræði vafist fyrir mörgum og hafa aðstandendur verkefnisins sett saman 30 þúsund æfingar í framhaldsskólaefni í stærðfræði sem nemendur hafa aðgang að. Aðgangur að tölvum er ekki almennur í Kenía og hefur styrktarfélagið veitt nem- endum aðgang að kennsluefninu með því að gefa bókasöfnum spjaldtölvur.

Nemandi fær lánað spjald til að æfa sig og vinna sér þannig inn punkta, svo kallaða Broskalla, sem má nota til að kaupa smáhluti í bókasafninu, allt frá banana, dömubindi eða gagnamagni, upp í spjaldtölvuna sjálfa.
Broskallar starfa nú á ríflega 40 stöðum í Kenía, auk Eþíópíu, Burkina Fasó og Ghana. Um 3.000 nemendur hafa prófað kennslukerfið og rúmlega 500 hafa lokið öllum æfingasöfnum til stúdentsprófs.

Í þessum verkefnum hefur hlutfall stúlkna sem tekur þátt verið talsvert lægra en drengja. Það er því sérstakur áhugi á því að fjölga stúlkum sem ljúka verkefnum og Broskallar eru einnig að fikra sig áfram í flóttamannabúðir í Afríku.

Í Moyale, sem er fátækt og hrjóstrugt svæði við landamæri Eþíópíu, gripu bókasafnsverðir t.d. til íhlutunarverkefnis til að fjölga stúlkum. Kvenkyns bókavörður var ráðinn og hún tók að sér að ganga hús úr húsi til að útskýra fyrir foreldrum að dætrum þeirra væri óhætt að heimsækja bókasafnið. Við þetta fór hlutfall stúlkna úr 0 í 30%.

Nú þegar hafa 10 stúlknaskólar fengið spjaldtölvur og efni frá Brosköllum.

Markmiðið er að nota styrk frá Rótarýklúbbnum Görðum til að fjölga stúlkum sem nota kerfið og verður lögð áhersla á að styrkja starfsemina á þremur stöðum. Félagar í Rótarýklúbbnum Görðum munu áfram fylgjast með framgangi í þessa verkefnis.

Gunnar Stefánsson og Anna Helga Jónsdóttir tóku á móti styrknum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar