Ómar lýkur tónleikaferðalagi í Garðabæ

Garðbæingurinn og tónlistarmaðurinn Ómar Guðjónsson gaf nýlega út sína fimmtu sólóplötu, Ómar fortíðar. Af því tilefni heldur hann tónleika í sal tónlistarskólans í Garðabæ, sunnudaginnn 9. október nk. kl.20.00. Frítt verður inn á tónleikana en Menningar-og safnanefnd Garðbæjar býður bæjarbúum upp á þennan menningarviðburð og hvetja því sem flesta til að mæta og njóta. Öll eru velkomin á meðan húsrúm í sal Tónlistarskólans leyfir.

Ómar fortíðar

Á plötunni flytur Ómar þekkt lög frá árunum 1930 til 1960 á hljóðfærið fetilgítar.

Hvers vegna fetilgítar?

Ómar segir að hann hafi fallið fyrir hljóðfærinu fyrir um það bil 5 árum síðan og varð sér út um eitt slíkt. Covid tíminn nýttist honum einnig vel þar sem hann gat æft sig mikið þar sem nánast öll hans atvinna lá niðri og mikill tími myndaðist til æfinga. Hljóðfærið er mjög ólíkt gítarnum að öllu leyti nema að það hefur strengi. Það er að mestu leyti stjórnað með fótunum og svo stálsívaling sem haldið er á vinstri hendi. Einnig eru sérstakar stálneglur sem settar eru á fingurnar á hægri hendi.

Hvers vegna þessi gömlu íslensku lög? ,,Á einu að æfingatímabilinu mínu á hljóðfærið fór ég að skoða gamla íslenska dægurlagasöngvara líkt og Stefán Ísland, Einar Kristjáns, söngkvartettina Leikbræður og MA Kvartettinn, þá fann ég að þessi lög sem þeir voru að syngja áttu einstaklega vel við hljóðfærið og tengdi einnig vel við þessa tónlist sem er alveg einstaklega vel samin.“

Hvaða lög eru þetta? ,,Þetta eru t.d Söngur villiandarinnar, Í fjarlægð, Nóttin hans Árna Thorsteins og fleiri.“

Hverjir spila með þér? ,,Matthías Hemstock leikur á slagverk og Tómas Jónsson á píanó og hljómborð en þeir munu einnig leika með mér á tónleikunum hér í Garðabæ.“

Ómar og félagar eru á tónleikaferð í kringum landið þar sem þeir flytja plötuna Ómar fortíðar og munu loka hringferðinni hér í Garðabæ á sunnudaginn nk. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar