Ólst upp innan um berklasjúklinga á Vífilsstöðum

Ein af jólabókunum er ævisaga Ingvars Viktorssonar og ber hún sama heiti og sést hér í fyrirsögninni. Hann ólst upp innan um berklasjúklinga á Vífilsstöðum og vann síðar hin margvíslegu störf; fékkst lengi við kennslu, var bæjarfulltrúi og bæjarstjóri í Hafnarfirði, sótti Norðursjóinn í mörg sumur og var lengi í forystu FH bæði í handknattleik og knattspyrnu, sem og hjá HSÍ. 

Ingvar er gríðarlega góður sögumaður og hér grípum við niður í ævisögu hans og stöldrum við á Vífilsstöðum. 

Sofið í skáp

Ég fæddist í yfirlæknisbústaðnum á Vífilsstöðum 9. apríl 1942, og tók Helgi Ingvarsson, ömmubróðir minn og aðstoðar- og síðar yfirlæknir á Hælinu frá 1922 til 1967, á móti mér. Hann hafði sjálfur glímt við berkla og orðið að hverfa frá frekara læknisnámi í Kaupmannahöfn vegna veikindanna, en náði aftur ágætri heilsu og réði sig í kjölfarið að Vífilsstaðahælinu. Verður hans lengi minnst vegna starfa sinna þar.

Fæðingu mína bar annars að garði aðeins níu dögum eftir að foreldrar mínir, Viktor Þorvaldsson og Guðrún Ingvarsdóttir, settust þarna að vegna vinnu sem föður mínum bauðst þar. Ég er fyrsta barn þeirra, en þau fluttu þangað frá Borgarfirði eystra og bjuggu fyrstu vikurnar hjá Helga, frænda mínum og fjölskyldu hans, því ekkert húsnæði var þá laust á staðnum. Síðan fengu þau eitt herbergi til umráða í starfsmannahúsinu Davíðsborg og deildu enn fremur eldhúsi og baðherbergi með öðrum íbúum hússins, yfirleitt fimm til sex. 

Það var skammt á milli okkar, elstu systkinanna. Árið 1943 bættist Guðmunda Inga í hópinn og Ingunn Elísabet meldaði sig í heiminn ári síðar, lýðveldisárið 1944.  Þrjú börn á þremur árum og móðir okkar var aðeins 22 ára!

Fyrst um sinn sváfum við börnin í skáp, en pabbi hafði útbúið rúm í hillunum og sett svo á þær merar til þess að við yltum ekki fram úr. Seinna fengum við koju. Ég svaf þá í þeirri efri, en stelpurnar saman í neðri. Ég datt oft niður á gólf og aðdragandinn að því var alltaf sá sami. Mig dreymdi að tröllskessa væri að elta mig og að ég væri kominn í sjálfheldu á bjargbrún. Ég komst undan þessari risavöxnu þjóðsagnaveru með því að kasta mér fram af brúninni og … BANG! Þetta þýddi bara eitt. Ég vaknaði háskælandi á gólfinu og var óhuggandi lengi á eftir. Upp frá þessu hefur mér alltaf verið meinilla við tröllskessur!

Teikning af Vífilsstaðaspítala

Með leigubíl í skólann

Á fyrstu árum Vífilsstaðahælis var rekinn þar barnaskóli, því ekki máttu börn með berkla fara í almenna skóla. Svo lagðist hann af og þegar kom að skólagöngu minni var enginn skóli í Garðahreppi. Því var okkur, krökkunum á Vífilsstöðum, ekið í skóla í Hafnarfirði, fyrst í Barnaskóla Hafnarfjarðar og síðan í Flensborg.  Lengi vel sá Nýja bílastöðin um aksturinn og það þýddi bara eitt: Við komum í skólann á leigubílum á meðan heimabörn í Hafnarfirði þurftu kannski að berjast þangað gangandi í úrhellisrigningu eða snjóstormi! Við vorum mjög öfunduð af þessu. 

Þetta gilti auðvitað bara um skóla„gönguna“. Þegar ég fór að æfa íþróttir með FH þurfti ég að koma mér sjálfur niður í Fjörð og fór þá ýmist hjólandi, labbandi eða hlaupandi niður á Hafnarfjarðarveg til að taka strætó. Það tíðkaðist ekki um miðbik síðustu aldar að foreldrar keyrðu börnunum sínum á æfingar!

Minnisstæðir karakterar á Vífilsstöðum

Skúli Jensson (1920-2002)

Skúli Jensson var einn af þekktustu sjúklingum Vífilsstaðahælis. Hann var frá Bolungarvík og 15 ára gamall veiktist hann alvarlega af lömunarveiki og gat í fyrstu aðeins hreyft höfuðið, nokkra fingur og setið í stól. Síðan fékk hann takmarkaðan mátt í hendurnar, en stóð aldrei aftur upp af eigin rammleik. 

Árið 1956 fékk Skúli berkla og fluttist þá á Vífilsstaðahælið sem varð síðan heimili alla tíð, þótt hann ynni sigur á berklunum. Hann hafði þá lokið lagaprófi frá Háskóla Íslands, en lögfræðina las hann utan skóla og kom þangað ekki nema til að taka prófin.  Það stoppaði ekkert Skúla. Gáfur hans og jákvæðni fleyttu honum yfir hverja hindrunina af annarri.

Á Hælinu sat Skúli ekki auðum höndum og allra síst eftir að hann var laus við berklana. Hann sinnti þar skrifstofustörfum og símavörslu, sá um skattaskýrslur flestra sjúklinga og starfsmanna og var enn fremur fjárhaldsmaður margra vistmanna. Það treystu honum allir. Þá var hann mikilvirkur þýðandi og þýddi rúmlega 200 bækur eftir ýmsa höfunda, svo sem Margit Söderholm, Bodil Forsberg, Francis Clifford, Victoriu Holt, Ian Fleming, Per Hanson og fleiri. Meðal vinsælla bóka sem hann þýddi voru ævintýri Tom Swift sem miðaldra fólk og þaðan af eldra kannast örugglega við.

Þrátt fyrir að Skúli væri lamaður var hann góður sundmaður og það var sundið sem leiddi hann og Albert Guðmundsson, þá knattspyrnukappa, saman. Þeir kynntust í Sundhöllinni þar sem Skúli þreytti sund á morgnana og Albert var um tíma sundhallarvörður. Með þeim tókust góð kynni og þótt leiðir þeirra skildi og hinn síðarnefndi færi út í heim til að stunda íþrótt sína í veröld atvinnumanna í greininni gleymdi hann ekki vini sínum. Alltaf þegar hann kom heim til Íslands í fríum leit hann við í Sundhöllinni á morgnana til að heilsa upp á sundkappann vestfirska. 

Svo var það eitt sinn í slíkri heimsókn, árið 1951, að Albert býður Skúla til Frakklands. Knattspyrnukappinn var þá leikmaður Racing Club í París og vildi ólmur fá hann til sín og sýna honum stórborgina. Þetta var eina utanlandsferð Skúla og hún varð honum ógleymanleg.

Þegar halla tók á efri ár Skúla átti hann orðið í miklum erfiðleikum með að lyfta höndunum upp á ritvélina sem hann notaði við þýðingarnar. Hann dó þó ekki ráðalaus, frekar en áður, heldur hallaði hann sér fram og beit í fingur sér þegar höfuðið var komið nógu neðarlega til þess að það mætti takast. Rétti svo aftur úr höfðinu með fingurinn á milli tannanna.  Með þessu móti togaði hann hendurnar upp á takkaraðirnar. Eftir það voru honum allir vegir færir við vélritunina.

Gunna á Stöng

Gunna á Stöng var hún kölluð. Ég veit ekkert um fullt nafn hennar, né fæðingar- og dánardag, en hún var lengi á Vífilsstaðahælinu – mun lengur heldur en leit út fyrir um tíma. Hún var nokkuð fyrir sopann, blessunin, því kalt vetrarkvöld eitt fannst hún liggjandi og gjörsamlega hreyfingarlaus í snjóskafli úti við hliðið að Vífilsstöðum, greinilega á heimleið úr bæjarferð. Var ekki að sjá neitt lífsmark með henni og því var hún borin inn í líkhúsið á staðnum og lögð þar til. 

Morguninn eftir varð mönnum nokkuð brugðið. Frá líkhúsinu heyrðust hróp og köll og barsmíðar. Slíkt hafði aldrei gerst áður! Þarna hafði til þessa ríkt þögnin ein, eðli málsins samkvæmt.

Þeir allra huguðustu áræddu að athuga hverju þetta sætti og höfðu ekki fyrr opnað dyrnar á líkhúsinu þegar Gunna á Stöng stökk þaðan út – sprelllifandi! Hún hafði þá bara verið áfengisdauð, en var ekki komin yfir móðuna miklu.

Haukur pressari (1916-1969)

Einn af þekktustu vistmönnunum á Vífilsstaðahæli var örugglega Haukur Guðmundsson, eða Haukur pressari eins og hann var alltaf kallaður. Ég hef aldrei fengið það á hreint hvort hann hafi verið berklasjúklingur, en alla vega var hann vistmaður þar.  Hann var drykkfelldur og kom þangað eiginlega úr strætinu. Ég man eftir honum vel fullum að koma úr rútunni, en sennilega var hann hættur öllu sulli síðustu árin.

Haukur pressari kom eitt sinn sem oftar heim til Alfreðs heitins Elíassonar, forstjóra Loftleiða, til að pressa sunnudagsfötin hans. 

Haukur var óvenju forvitinn maður og átti það til að hnýsast eitthvað og snuðra á meðan hann pressaði sunnudagsfötin. Í eitt skiptið brá hann sér frá drykklanga stund og gleymdi heitum strauboltanum ofan á annarri skálminni á buxum Alfreðs. Þegar ptressarinn kom til baka logaði glatt í buxum forstjórans og var stór hluti af skálminni brunnin til ösku.

Haukur pressari slökkti eldinn og gekk þegar í stað frá rjúkandi fötunum á sínum stað í fataskápnum. Pakkaði síðan saman sínu hafurtaski og kvaddi húsráðendur, Alfreð og konu hans, Kristjönu Millu Thorsteinsson, með hraði. Sagði svo um leið og hann skundaði á dyr: „Það þarf ekkert að borga í dag!“

Einu sinni kom Haukur seint heim á Hælið og sennilega var eitthvað í stóru tánni á honum. Þá datt sjúklingunum á ganginum í hug að stríða karlinum og sögðu:
„Hann Jónas er dáinn og liggur í rúminu sínu.“

Haukur fór inn á stofuna, en hinir læddust á eftir og lögðu eyru á stofuhurðina. Heyra þá að Jónas rumskar og segir eitthvað við Hauk, sem svarar að bragði ansi önugur: „Þegi þú, Jónas, þú ert dauður.“

Einn af þekktustu vistmönnunum á Vífilsstaðahæli var örugglega Haukur Guðmundsson, eða Haukur pressari eins og hann var alltaf kallaður

Og svo í lokin óborganleg saga af móður Ingvars:

Mikið þurfti til að koma mömmu úr jafnvægi og kannski var það ekki hægt. Hún greindist þrisvar með krabbamein og í eitt skiptið sagði læknirinn við hana, að hún myndi missa hárið í meðferðinni, en það kæmi þó aftur. Mamma kippti sér ekkert upp við þessi tíðindi, leit góðlega á lækninn og spurði í sínum gamansama tóni: „Fæ ég þá að ráða litnum?“

Forsíðumynd: Ingvar Viktorsson ásamt Skúla Jenssyni, sem var einn af þekktustu sjúklingum Vífilsstaðahælis

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar