Garðbæingarnir Anna María Guðmundsdóttir og eiginmaður hennar Ásmundur Skeggjason eiga og reka fyrirtækið Skógálfar, en starfsemi félagsins snýr að skógrækt til kolefnisbindingar. Skógræktarverkefnið, sem þau nefna Álfabrekka, hlaut nýlega vottun frá alþjóðlegu faggiltu vottunarstofunni Enviance Services Private Limited (ICR).
Verkefnið stenst alþjóðlegar kröfur
Þau hjón fjárfestu í landi í Grímsnes- og Grafningshreppi fyrir nokkrum árum í því skyni að rækta skóg til bindingar kolefnis og var stefnan samhliða því að ná öðrum lögbundnum og ólögbundnum markmiðum skógræktar. Um er að ræða fjölnytjaskóg með áherslu á alþjóð- lega vottaða kolefnisbindingu, jarðvegsvernd, útivist, timburframleiðslu og aðra vistkerfisþjónustu. ,,Við erum búin að planta 960 þúsund plöntum á um 450 hektara landi og stefnum á að klára milljón plöntur í vor og þá erum við búin að planta í allt okkar land,” segir Anna María, en verkefnið þeirra hefur hlotið vottun frá Enviance. ,,Þetta er fyrsta verkefnið sem er skipulagt samkvæmt kröfusettinu Skógarkolefni sem hlýtur slíka alþjóðlega vottun. Með þessu hefur verið staðfest að verkefnið uppfyllir kröfur ISO 14064-2:2019 og er þar með í samræmi við helstu alþjóðlega staðla fyrir loftslagsverkefni,” segir Ásmundur.

Þá eru þau búin að planta allt landið sem þau hafa til umráða
Binda um 220 þúsund tonn af koltvísýringi á næstu fimmtíu árum
,,Það er áætlað að a.m.k. 220 þúsund tonn af koltvísýringi bindist á næstu fimmtíu árum í þeim verkefnum sem við erum að klára nú,” segir Ásmundur, en með vottuninni er staðfest að íslensk loftslagsverkefni geta staðist strangar alþjóðlegar kröfur, auk þess að stuðla að sjálfbærri landnotkun og styðja við samfélagið á viðkomandi svæði,” segir hann.

Höfum örugglega dottið fast á hausinn og verið með heilahristing
En hvernig kom það til að hjónin úr Garðabæ ákváðu að leggja af stað í þetta verkefni og kaupa land í Grímsnes- og Grafningshreppi til að planta trjám – duttuð þið á hausinn eða eruð þið mikið áhugafólk um trjárækt? ,,Við höfum örugglega dottið fast á hausinn og verið með heilahristing þegar við ákváðum að ráðast í þetta verkefni,” segir Ásmundur brosandi: ,,En að öllu gamni slepptu trúum við á að framtíð sé í skógrækt með áherslu á vottaða kolefnisbindingu.”
Gefandi fyrir sál og líkama
Þið stefnið á að planta milljónasta trénu í vor, það hlýtur að hafa farið mikill tími í þetta og varla hafið þið plantað öllum þessum trjám ein? ,,Undanfarin sumur hafa farið í þessa vinnu sem er mjög gef- andi fyrir sál og líkama. Við byjuðum að gróðursetja í fyrsta verkefnið 2022 og höfum bæði verið að planta á vorin og haustin. Við höfum svo verið með fólk í vinnu á vorin og haustin við að hjálpa okkur við þetta. Við miðum við að planta að minnsta kosti 2500 trjám á hvern hektara,” segir Anna María.
Fá eingöngu styrk frá almættinu
Þetta er metnaðarfullt og fagurt verkefni hjá ykkur unnið af mikilli hugsjón – en þetta hlýtur að kosta sitt, hafið þið fengið einhverja styrki fyrir þessu mikla verkefni? ,,Við höfum ekki fengið neina styrki fyrir þessum verkefnum nema frá almættinu sem hefur styrkt okkur mikið við þessi verkefni,” segir hún brosandi.

En hvaða þýðingu hefur það síðan fyrir ykkur og verkefnið Álfabrekku að fá þessa alþjóðlega vottun frá ICR? ,,Með vottun Álfabrekkuverkefnisins má segja að Ísland sé komið á hinn alþjóðlega kolefnismarkað sem varðar leiðina fyrir fleiri loftslagsverkefni sem heyra undir ICR og að að verkefnið sé í samræmi við alþjóðlega staðalinn ISO 14064-2:2019,” segir Ásmundur og bætir við: ,,Við fáum gefnar út vottaðar rafrænar kolefniseiningar eftir því sem trén vaxa og binda kolefni í jarðveginum,en ein kolefnis eining jafngildir einu tonni sem skógurinn bindur af Co2. Mælingar á bindingunni og úttektir verða svo gerðar af þriðja aðila eftir því sem fram líða stundir og eftir því sem skógurinn vex. Einingarnar okkar verða skráðar hjá ICR, loftslagsskrá með sérstakri bjálkakeðjutækni. Kolefniseiningarnar munu nýtast vel í framtíðinni sem mótvægi á móti losun Co2 og þær geta gengið kaupum og sölum. Það er mikil og góð eftirspurn eftir alþjóðlega vottuðum einingum eins og okkar. Það er að okkar mati skiljanlegt að fyrirtæki og fjárfestar vilji fjárfesta í kolefniseiningum núna í ljósi þess sem er að gerast í heiminum í dag. Við teljum að eftirspurnin eigi eftir að aukast mjög mikið á næstunni og við finnum fyrir miklum meðbyr og jákvæðri orku í því sem við erum að gera. Allir sem vilja eru velkomnir og líka þeir sem kaupa af okkur kolefniseiningar geta labbað um skóginn og þannig fylgst með því hvernig hann vex og dafnar.”

Lítum frekar á okkur sem farþega í rútu sem við fórum um borð í heldur en frumkvöðla
Og má ekki segja að þið séuð hálfgerðir frumkvöðlar með þessu verkefni því með vottun Álfabrekkuverkefnisins er eins og þú nefnir Ísland komið á hinn alþjóðlega kolefnismarkað sem varðar leiðina fyrir fleiri loftslagsverkefni sem heyra undir ICR: „þar á meðal nýstárlegar aðferðir eins og endurheimt votlendis, sem nú eru þegar í þróun,” eins og segir orðrétt í frétt ICR er þið fenguð vottunina? ,,Við lítum frekar á okkur sem farþega í rútu sem við fórum um borð í heldur en frumkvöðla. Við höfum verið svo gæfusöm og erum þakklát fyrir það. Við viljum koma á framfæri miklu þakklæti til starfsfólks hjá Land og Skógi, þessi alþjóðlega vottun er viðurkenning á því frábæra starfi sem þar hefur verið unnið og á skógar kolefnis staðlinum sem við förum eftir,” segir hann.
Skiptir miklu máli að vanda sig við gróðursetninguna
Og fyrir áhugasama, er vandasamt að planta hverri plöntu? ,,Það skiptir miklu máli að vanda sig við gróðursetninguna. Við höfum búið til rásir í landið fyrir trén og þær eru þvert á ríkjandi vindátt. Plönturnar fá þannig skjól, aukið súrefni og meiri hiti myndast í jarðveginum. Við höfum verið að planta Furu, Grenitrjám, Birki, Ösp, Reynitrjám og Elri. Hver planta fær 10 grömm af áburði einu sinni strax eftir gróðursetningu. Við notum norskan plöntu áburð frá Yara sem við höfum keypt frá SS. Yara hefur skuldbundið sig til að gera opinberar upp- lýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda við áburðarframleiðslu,” segir Ásmundur.

Um 15% afföll
En hvernig er það, verða ekki alltaf einhver afföll, ekki lifa öll trén sem þið setjið niður og verður þá endurgróðursett á þeim stöðum innan ákveðins tíma? ,,Alveg rétt, það eru afföll. Við erum að sjá um 15 % afföll af því sem við gróðursetjum. Við höfum verið með íbætur fyrir þau sem ekki lifa, sem er þá mögulega plantað ári eftir að þau eru sett niður eða þegar þess þarf,” segir Anna María.
Það gerist lítið fyrstu fimm árin svo ríkur þetta upp
Hvað tekur það svo sirka langan tíma fyrir trén að verða fullvaxta og að þetta verði fallegur skógur? ,,Það er almannarómur að ef þú villist í skógi á Íslandi þá eigir þú að standa upp. Við sjáum mikinn mun á milli ára. Gerist lítið fyrstu fimm árin svo ríkur þetta upp eftir það. Við erum með 25 hektara skóg sem er frá 2008 og þar eru mörg tré orðin 4 metra há. Sá skógur er við hlið þessa verkefnis og heitir landið Álfhóll. Þar sést vel hversu gott land þetta er fyrir skógrækt,” segir hún.

Ætlum að leyfa straumnum að taka okkur og reyna að vera í góðu flæði
Þið eruð á þessum tímapunkti búin að planta 960 þúsund trjám og er milljónasta plantan fer niður í vor og þá verðið þið búin að fullnýta landið ykkar – hvað tekur þá við – stefnið þið á frekari landakaup og trjárækt eða búin að skila ykkar? ,,Við ætlum að leyfa straumnum að taka okkur og reyna að vera í góðu flæði. Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér en okkur finnst gott að geta haft jákvæð áhrif á umhverfið okkar í framtíðinni með því sem við gerum í dag, til dæmis með því að gróðusetja tré. Talsverð vinna er að viðhalda skógi, íbætur, grisjun, stíga- gerð, girðingavinna og fleira sem þarf að sinna,” segir Ásmundur.
Mikið af lausum sætum í rútunni
Pankaj Kumar, framkvæmdastjóri Enviance sagði þegar vottunin var staðfest að þetta sýni getu íslenskrar skógræktar að leggja raunverulegt framlag til loftslagsmála. Íslendingar geta því haft mikil áhrif þegar kemur að framlagi til loftslagsmála með verkefnum eins og ykkar – þið hljótið að vera stolt af þessu? ,,Manstu! Við erum farþegar í rútu og erum þakklát fyrir að hafa þorað að fara um borð í hana. Það er mikið af lausum sætum í þessari rútu og við vonum að fleiri farþegar komi um borð í hana sem allra fyrst því að rútan er að fara og við getum ekki gert ekki neitt endalaust,” segir hann.
Fengum verðlaun fyrir garðinn sinn árið 2018
Og svona að lokum, þið eruð búsett í Garðabæ, eru þið dugleg við að rækta garðinn ykkar, er hann fullur af trjám og fallegum gróðri eða vinnst enginn tími til að hugsa um hann meðfram Álfabrekkuverkefninu? ,,Við tókum við góðu búi í Blikanesi 6 þegar að við fluttum þangað 2017. Fengum mjög fallegan garð með húsinu sem við fengum verðlaun fyrir 2018. Höfum reynt að sinna honum vel og erum þakklát fyrir að fá að njóta hans,” segir Anna María.

Vitum að trén vaxa ekki nema að við setjum þau niður
Þið eruð sannarlega hjón með græna fingur, jafnvel grænustu fingur landsins eða hvað? ,,Við vitum það nú ekki en við trúum því að þessi verkefni skili sér margfalt til baka í framtíðinni, vitum bara ekki alveg hvenær, en það er allt í lagi,” segja þau brosandi og bæta við að lokum: ,,Við höfum óbilandi trú á framtíð skógræktar á Íslandi sem atvinnugrein, við sjáum það út um allan heim, hvers vegna ekki hér? Það hafa allir í fjölskyldunni lagt hönd á plóg sem hefur verið mjög gaman. Við erum með 15 fermetra kofa með klósetti í og eldhúskrók á staðnum, höfum sett allt púðrið okkar í trén því að við vitum að þau vaxa ekki nema að við setjum þau niður.”
Forsíðumynd: Hjónin Ásmundur og Anna María að störfum í landi sínu í Grímsnes- og Grafningshrepps, en þau munu planta milljónustu plöntunni í vor.




