Okkar Kata

Katrín Jakobsdóttir hefur sýnt okkur að hún er leiðtogi, leiðtogi sem getur án vafa leitt þjóðina sem forseti. Hún er mörgum kostum gædd. Hún er vönduð, auðmjúk og réttsýn. Hennar mannkostir, reynsla og þekking gera hana að fyrirmyndar kosti til að setjast í stól forseta í sumar. Ég vona að okkur beri gæfa til þess að það gerist.

Katrín er laus við yfirlæti. Hún hlustar og gengur auðmjúk til samtals við ólíka hópa. Hún hefur marga fjöruna sopið og mun án vafa standa keik í þeim áskorunum sem á embættinu geta dunið og um leið vera okkur til sóma á gleðistundunum.

Katrín þekkir þjóðina og þjóðin þekkir Katrínu. Hún þekkir stjórnsýsluna, milliríkjasamskipti og hlutverk forseta í þaula. Katrín skilur okkar menningu, sögu og tungu.  Allt kostir sem skipta okkur máli þegar við veljum okkur forseta.

Undanfarin ár hef ég tekið þátt í þróun íslenskrar máltækni fyrir hönd stjórnvalda. Í þeirri vinnu hefur verið lögð áhersla á að vernda þurfi íslenska tungu í hinum stafræna heimi, með máltækniinnviði sem stjórnvöld fjármögnuðu að vopni. 

Fyrir nokkrum árum skipulögðum við okkar fyrstu veiðiferð til Bandaríkjanna undir forystu Guðna Th. Jóhannessonar forseta. Markmiðið þar var að sannfæra tæknirisana amerísku um að það sé auðvelt fyrir þau að nýta innviðina okkar svo íslenskan fái sess í þeirra lausnum.

Þar lék Guðni forseti á als oddi við að breiða út okkar íslensku-fagnaðarerindi með frábærum árangri, en eftir góðan fund með OpenAI varð íslenska annað opinbera tungumál ChatGPT á eftir ensku. Máltæknivegferðin heldur áfram á næstu árum og þar er þörf á sterku baklandi forseta. Því stendur mér nærri að máta frambjóðendur við  hlutverk íslensku-sendiherrans sem Guðni sinnti svo vel í forsetatíð sinni. Þar stendur Katrín framar öðrum. Hún hefur sýnt í verki ástríðu sína fyrir okkar verðmæta tungumáli og býr að auki yfir einstakri og yfirgripsmikilli reynslu og þekkingu sem mun sannarlega nýtast vel í þessu mikilvæga verkefni. 

Að tala máli íslenskunnar í útlöndum er auðvitað ekki veigamikill þáttur í starfi forseta. Hlutverk forseta sem talsmanns okkar í öllum mikilvægu málum skiptir þó miklu. Forseti þarf vissulega að tala fyrir íslenskunni en ekki síður fyrir íslensku atvinnulífi, menningu og íþróttum, náttúrunni og samfélaginu öllu. Forsetanum þarf að líða vel í þessu hlutverki og geta talað okkar máli af eldmóði og þekkingu. Hann þarf að vera geislandi sjarmatröll sem líður vel í návist fólks. Hann þarf einfaldlega að vera liðsstyrkur heima og heiman. Þetta er Katrín allt.

Ég veit að Katrín getur bæði hlustað á okkur og leitt okkur. Ég vona við sjáum Kötu á Bessastöðum í júní.

Björgvin Ingi Ólafsson, höfundur er hagfræðingur

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar