Ók á beltagröfu inn á golfvöll Golfklúbbs Álftaness

Í gærmorgun ók verktaki inná golfvöll Golfklúbbs Álftaness á beltagröfu til að moka prufuholur vegna framkvæmda, sem eru fyrirhugaðar á svæðinu og olli töluverðum skemmdum á vellinum.

,,Þetta kom stjórn GÁ í opna skjöldu en með fljótum viðbrögðum stjórnarmanna náðist að stöðva þessa framkvæmd. Við náðum því miður ekki að stöðva þetta nógu snemma því eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þá hafði verktakinn valdið miklum skemmdum á vellinum,“ segir Björn Halldórsson, formaður GÁ á fésbókarsíðu klúbbsins. ,,Helst er að nefna flatirnar á 2, 3 og fjórðu. Hann ók þvert yfir þær. Einnig var ekið niður 4 braut og sporin í viðkvæmum vellinum eru mjög djúp. Við höfum þegar átt samtal við Garðabæ og í þeim samtölum höfum við farið fram á að bærinn lagi þessar skemmdir um leið og hægt verði að fara með vélar inn á völlinn. Þrátt fyrir það verður öllum að vera ljóst að opnun vallarins verður ekki eins falleg og við vonuðumst eftir. Ekki fengust neinar aðrar skýringar en þær að samskiptaleysi hafi verið á milli starfsmanna Garðabæjar. Verið er að senda út greiðsluseðla fyrir árið 2022 þessa dagana og verður fólk að meta það sjálft hvort það hafi þolinmæði í að spila völlinn í þessu ástandi en stjórn GÁ mun reyna allt til þess að raskið verði sem minnst,“ segir Björn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar