Nýr snjóbíll í Garðabæinn

Árið 2005 festi Hjálparsveit skáta í Garðabæ kaup á sínum fyrsta snjóbíl. Bílinn kom þá notaður frá sænska hernum og var framleiddur árið 1986.

,,Bíllinn, Hägglunds BV206, þurfti mikla umhyggju frá félögum sveitarinnar til þess að nýtast sem best, þar á meðal vélaskipti. Eftir vélaskiptin hefur snjóbíllinn fengið að sýna sig og sanna í starfinu en bíllinn er á gúmmí beltum og er því hægt að aka honum eftir götum bæjarins, öðrum slóðum eða yfir snæviþakta jökla. Bíllinn hefur þjónað sveitinni vel í gegn um árin en starf snjóbílahóps hefur þó einkennst að auknum viðgerðum og viðhaldi síðustu árin,” segir Eva Íris Eyjólfsdóttir félagi í Hjálparsveit skáta í Garðabæ og heldur áfram: ,,Bíllinn er nú kominn til ára sinna en hefur síðustu 17 ár sannað mikilvægi sitt í starfi sveitarinnar. Því hefur verið hafin vegferð að finna arftaka og voru allir sammála um að sambærilegur bíll á gúmmí beltum myndi nýtast sveitinni best. Eftir mikla hugmyndavinnu og leit af slíkum bíl er niðurstaðan að snjóbíll af sömu tegund er besti kosturinn í ljósi þess hve fjölhæfur hann er. Félagar sveitarinnar eru komnir í samband við fyrirtæki í Svíþjóð sem sérhæfir sig í slíkum bílum og er tilbúið til þess að gera upp bíl eftir þeim þörfum sem við þurfum að mæta.”

Með tilkomu nýja bílsins minnkar því viðbragðstíminn til muna ásamt því að áhöfnin getur sinnt störfum lengur þar sem aðbúnaður áhafnar og farþega er mun betri segir Eva Íris

Vonandi hægt að ganga frá kaupum snemma árs 2023

Sveitin er því að safna m.a. fyrir Hägglunds snjóbíl sem fær allsherjar yfirhalningu í Svíþjóð þar sem öllum slitflötum bílsins verður skipt út fyrir nýja, vél og sjálfskipting uppgerð ásamt því að grind og yfirbygging bílsins verður blásin og máluð. Vonast er til þess að hægt verði að ganga frá kaupum á bílnum snemma árs 2023 en hann yrði búinn nýmóðins vél sem er eyðslugrennri, umhverfisvænni og hljóðlátari en sú sem drifið hefur gamla snjóbíl sveitarinnar. ,,Ganghraði nýja bílsins er um tvöfalt meiri en í gamla bílnum og verður hann búinn því nýjasta í fjarskipta- og staðsetningartækni. Með tilkomu nýja bílsins minnkar því viðbragðstíminn til muna ásamt því að áhöfnin getur sinnt störfum lengur þar sem aðbúnaður áhafnar og farþega er mun betri.
Snjóbílahópur HSG getur því farið að einbeita sér að þjálfun áhafnar nýja bílsins í stað þess að standa í tímafrekum viðgerðum með auknum kostnaði fyrir sveitina,” segir Eva Íris að lokum, en hjálparsveitin safnar m.a. fyrir bílnum með flugeldasölu fyrir áramótin.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar