Nýr búsetukjarni við Brekkuás tekur til starfa

Nýr búsetukjarni við Brekkuás hefur verið opnaður. Um er að ræða búsetukjarna með sjö einstaklingsíbúðum fyrir fatlað fólk.
 
Búið er að úthluta í allar 7 íbúðirnar í Brekkuási og íbúar tóku á móti fjölskyldu, vinum og fulltrúum fjölskylduráðs og bæjarstjórnar Garðabæjar við opnunina. Fyrsti íbúinn var þegar byrjaður að flytja inn við opnunina og fleiri munu bætast við á næstu vikum.  
 
Gunnar Valur Gíslason, formaður fjölskylduráðs, Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Þóra Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags ávörpuðu gesti og buðu þau hjartanlega velkomin í Brekkuás, bæði íbúa og gesti. 

Garðabær gerði samning við Ás styrktarfélag sem mun reka sértæka búsetuþjónustu fyrir fatlað fólk í húsinu Ás styrktarfélag lítur til ríkjandi hugmyndafræði í samfélaginu hvað varðar útfærslur á rekstri, þjónustu og öðrum verkefnum.
 
Lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu sem stuðlar að sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Bygging búsetukjarnans er hluti af stefnu bæjarins um áframhaldandi uppbyggingu búsetukjarna fyrir fatlað fólk samhliða fjölgun annarra búsetuúrræða og fækkun herbergjasambýla. Rúmt ár er síðan fyrsta skóflustungan var tekin að þessum nýja kjarna, en Hönnuður hússins er Anna Margrét Hauksdóttir, AMH arkitektar og Gunnar Bjarnason ehf sá um byggingu hússins sem er talið einstaklega vel byggt.

Sturla Þorsteinsson, Björg Fenger, Pála Marie Einarsdóttir, Almar Guðmundsson, Breki Björnsson, fyrsti íbúinn í nýja íbúðakjarnanum og Anna Kristin Daníelsdóttir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar