Sunnudagurinn 3. október var stór dagur í Garðasókn. Vídalínskirkja fylltist út úr dyrum í fjölskyldumessunni, eins og fram kemur annarsstaðar í blaðinu, vel sótt batamessa var í Garðakirkju og síðast en ekki síst vígði biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, æsku-lýsfulltrúa sóknarinnar, Matthildi Bjarnadóttur, sem æskulýðsprest Garðasóknar og Arnarins. Athöfnin fór fram í Dómkirkjunni í Reykjavík og voru fjölmargir Garðbæingar viðstaddir.
Eins og áður sagði annaðist biskup Íslands vígsluna en fyrir altari þjónaði Dómkirkjupresturinn sr. Sveinn Valgeirsson. Vígsluvottar voru foreldrarnir, sr. Jóna Hrönn Bolladóttir og sr. Bjarni Karlsson, móðursystkinin sr. Hildur Eir Bolladóttir og sr. Bolli Pétur Bollason og eiginkona Bolla Péturs, sr. Sunna Dóra Möller, og síðast en ekki síst vinnufélaginn sr. Henning Emil Magnússon prestur í Garðasókn.
Hefur starfað í Garðasókn frá 2008
Sr. Matthildur er 33 ára gömul og er öllum hnútum kunnug í Garðasókn. Hún lauk mag. theol.-prófi frá guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands 2020. Áður hafði hún stundað meistaranám í samskiptum trúarbragða í Evrópu við Kaupmannahafnarháskóla frá 2013-2015. Veturinn 2020-21 lauk Matthildur diplómanámi í sálgæslu á meistarastigi á vegum Endurmenntunar H.Í. Matthildur hefur starfað að barna- og æskulýðsmálum í Garðasókn allt frá árinu 2008.
Hún hefur sinnt sunnudagaskóla, fermingarfræðslu, barnastarfi og sungið í Gospelkór Jóns Vídalíns. Matthildur hefur verið í fullri stöðu æskulýðsfulltrúa kirkjunnar frá því í fyrra. Þá tók hún við verkefnastjórastöðu hjá Erninum, minningar- og styrktarsjóði, haustið 2020, og er sálgætir fyrir bæði börn og unglinga í Garðabæ og þau börn sem Örninn þjónar. Eiginmaður Matthildar er Daði Guðjónsson, kennari, og eiga þau tvö börn.
Á forsíðumynd: Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir og Matthildur Bjarnadóttir, nývígður æskulýðsprestur Garðasóknar