Haustið 2022 mun 6 deilda leikskóli taka til starfa við Kauptún í Garðabæ í húseiningum sem verða reistar á staðnum. Leikskólinn er undanfari nýs 6 deilda leikskóla fyrir allt að 120 börn við Holtsveg í Urriðaholti sem verður tekinn í notkun haustið 2023.
Garðabær auglýsti nýverið eftir áhugasömum aðilum til að taka að sér rekstur þessa nýja leikskóla.
Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar þar sem íbúðabyggð er í örum vexti. Hátt í 2500 manns búa nú í hverfinu og gert er ráð fyrir allt að 4500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt. Í uppbyggingu Urriðaholts hefur verið mikil áhersla á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring.
Bygging leikskólans við Holtsveg
Haldin var hönnunarsamkeppni árið 2021 um byggingu á nýjum leikskóla í Urriðaholti og byggingarframkvæmdir hefjast á þessu ári. Nýi leikskólinn verður staðsettur við Holtsveg, neðan götu þar sem lóð opnast út að grænu svæði sem liggur frá efri hluta holtsins niður í átt að Urriðavatni og Kauptúni. Við hönnun leikskólans er horft til þess að námsumhverfi barna sé tengt náttúru og umhverfi þar sem ræktun og sjálfbærni eru meðal áhersluþátta í skólastarfinu. Áætluð heildarstærð leikskólans er um 1.400 m² og stefnt er að því að byggingin verði vistvottuð.
Nýverið var auglýst eftir tilboðum í byggingu leikskólans sem verður við Holtsveg.