Nýársávarp – Þakklæti

Ágætu Garðbæingar

Í vor læt ég af starfi sem bæjarstjóri Garðabæjar eftir 17 ár í því embætti. Á þessum langa tíma hef ég átt þess kost að þjóna því góða samfélagi sem við búum í hér í Garðabæ. Ég er þakklátur fyrir það tækifæri sem ég hef fengið til að hafa áhrif á málefni tengd bænum okkar og velferð bæjarbúa. Vegferðin hefur verið skemmtileg og gefandi. Eitt af góðum gildum í lífinu er að mínu mati að sýna þakklæti og að gefa af sér af heilum hug. Að kunna að gefa og þiggja er farsælt veganesti í leit að hamingju. Þakklæti mitt beinist ekki síst að þeim samskiptum sem ég hef átt við samstarfsmenn mína og ykkur kæru Garðbæingar. Þau samskipti hafa verið afar dýrmæt, gefandi og eru svo sannarlega þakkarverð. Já ég lít yfir farinn veg með þakkaraugum, þakkaraugum til gefandans sem er Garðabær, svo margfalt fleiri hafa hans gjafir verið í samanburði við það sem ég og mitt samstarfsfólk höfum reynt að færa okkar góða samfélagi.

Margir hafa spurt hvers vegna að hætta nú þegar svo margt er að ganga vel? Þar kemur margt til svo sem; aldur, stór hópur barnabarna sem ég vil sinna betur, góð staða bæjarfélagsins og trú mín á að aðrir geti gert betur, það er alltaf hægt. Auk þessara þátta er ég þeirrar skoðunar að mikilvægt er að kunna og hafa hugrekki til að sleppa, vera ekki of háður ytri veraldlegum gildum svo sem völdum og/eða titlum. Sjálfstraustið má ekki byggjast á því. Annað sem fór líka í gegnum huga minn við ákvörðunina er nægjusemin. Hvenær er komið nóg? Nægjusemi er eins og Gunnar Hersveinn orðar það svo ágætlega í bók sinni Orðspor-gildin í samfélaginu ,,…lofsverð dyggð, látlaus og forðast æði til mótvægis við græðgina sem á stundum æðir um eins og öskrandi ljón“. Þegar ég og fjölskyldan vorum búin að leggja allt þetta saman er niðurstaðan eins og raun ber vitni.

Þar sem þetta er síðasta nýársávarpið mitt til ykkar góðir Garðbæingar vil ég enn og aftur nota tækifærið að þakka ykkur fyrir samfylgdina þau rúmlega 40 ár sem ég hef starfað í ykkar þjónustu.

Með von um gott og gæfuríkt nýtt ár í anda þakklætis og nægjusemi.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar