Ný undirgöng við Arnarneshæð formlega tekin í notkun

Ný undirgöng við Arnarneshæð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur voru formlega tekin í notkun sl. þriðjudag. Nemendur á miðstigi í Sjálandsskóla komu hjólandi frá skólanum sínum til að taka þátt í viðburðinum sem fór fram með pompi og prakt.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna og Hrannar Bragi Eyjólfsson, bæjarfulltrúi í Garðabæ og formaður íþrótta- og tómstundaráðs, héldu stutta tölu þar sem fram kom mikil ánægja með nýju göngin. Síðan var klippt á borða við hátíðlega athöfn, en auk þeirra þriggja klippti Ísabella Marín Ástráðsdóttir, nemandi í 6. bekk við Sjálandsskóla, á borðann. Skæraverðir voru Bryndís Thors og Anna María Jónsdóttir. Ásthildur Eva Sigurðardóttir, Hallveig Karen E. Ísleifsdóttir, Jón Oddur Heimisson og Daníel Arnar Guðmundsson héldu borðanum á lofti á meðan klippt var, en þau eru öll í 6. bekk í Sjálandsskóla.

Björt og stór undirgöng

Undirgöngin eru mikil samgöngubót en leiðin yfir Arnarnesið er ein af fjölförnustu stofnæðum fyrir hjólandi umferð á höfuðborgarsvæðinu, en þau tengja m.a. Reykjavík við Garðabæ og Hafnarfjörð. Með tilkomu þeirra þarf ekki lengur að þvera umferðargötu, svo umferðaröryggi eykst til muna.

Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá Höfuðborgarsvæði Vegagerðarinnar, hafði verkefnisstjórn með þessum framkvæmdum. „Undirgöngin eru hönnuð þannig að þau eru opin og björt og liggja vel í landinu. Mikið var lagt upp úr því að göngin væru aðlaðandi fyrir vegfarendur og þau eru stærri og bjartari en hefðbundin göng. Á þaki þeirra er stórt ljósop sem hleypir dagsbirtunni beint inn og auk þess er led-lýsing í göngunum,“ segir Katrín en göngin eru 7 metrar á breidd, 3 metrar á hæð og um 27 metrar að lengd.

Í gegnum þau eru aðskildar leiðir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sem tengjast inn á núverandi stígakerfi Garðabæjar. Katrín segir til standi aðskilja stíga fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sitt hvoru megin ganganna meðfram Hafnarfjarðarveginum frá Kópavogi og að Hafnarfirði. Undirbúningur fyrir það verkefni er þegar hafinn.

Vegagerðin og Garðabær unnu saman að þessum framkvæmdum, sem heyra undir Samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið með Samgöngusáttmálanum er m.a. að stuðla að greiðari samgöngum og fjölbreyttum ferðamátum á höfuðborgarsvæðinu, með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.

„Stígakerfið er hannað í samræmi við hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólreiðar frá árinu 2019. Markmiðið með hönnunarleiðbeiningum er að tryggja ákveðið verklag við hönnun og gæði á öllum stígum sem heyra undir Samgöngusáttmálann,“ segir Katrín.

Vinna við undirgöngin hófst í júní 2022 en Vegagerðin samdi við Bjössa ehf. um framkvæmdir. Úti Inni arkitektar, Landslag og VSB hönnuðu undirgöngin og eftirlit var í höndum Verkfræðistofu Bjarna Viðarssonar ehf.

Forsíðumynd: Klippt á borðann! F.v. Ísabella Marin Ástráðsdóttir nemandi í Sjálandsskóla, Davíð Þorláksson hjá Betri samgöngum, Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar.

Baldur Svavarsson, hjá Úti og Inni arkitektum og Hrannar Bragi, bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar