Ný menningardagskrá fyrir vetur og vor 2025 sem kemur fersk úr prentun rétt fyrir jólin er stútfull af skemmtilegum viðburðum fyrir Garðbæinga á öllum aldri. Blaðamaður ræddi við Ólöfu Breiðfjörð menningarfulltrúa um vorönnina sem framundan er. „Dagskráin einkennist af innihaldsríkum viðburðum fyrst og fremst. Við bjóðum aðeins uppá metnaðarfulla dagskrá hvort sem er fyrir yngstu kynslóðina eða þá eldri,“ segir hún.
Ég elska auðvitað að fá fjölskyldur til að skapa saman
Hvaða dagskráratriði skyldi menningarfulltrúin vera spenntust fyrir? ,,Ég elska auðvitað að fá fjölskyldur til að skapa saman hvort sem er á Bókasafni Garðabæjar eða í Hönnunarsafni Íslands. Árið byrjar mjög vel t.d. á bókasafninu en þann 18. janúar verður pöddusmiðja sem Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir leiðir en hún er myndhöfundur bókarinnar Stórkostlega sumarnámskeiðið sem kom út í haust. Í Hönnunarsafninu geta fjölskyldur svo til dæmis skapað eitthvað flott úr keramik með Hönnu Dís Whitehead hönnuði en sú smiðja fer fram 6. apríl,“ segir hún og heldur áfram: ,,Af viðburðum sem eru fremur ætlaðir fullorðnum eingöngu er ég spennt fyrir Tónlistarnæringu á vorönn en tónleikarnir eru fyrsta miðvikudag í mánuði í hádeginu og við fáum frábæra tónlistarmenn til liðs við okkur en eitt af því mest spennandi er frumflutningur á verkum eftir John Speight sem verður 5. febrúar.“
Bókasafnið alltaf með puttan á púlsinum
,,Bókasafnið er svo alltaf með puttann á púlsinum og í mars verður áhersla á málefni líðandi stundar alla fimmtudaga frá kl. 19. Það verður spennandi að sjá hvernig dagskráin verður en það er ekkert búið að ákveða enda vitum við ekki hvað mun brenna á fólki í mars!
Hönnunarsafnið er svo með fyrirlestra og sýningaropnanir og þar ætla ég að nefna sýninguna Fallegustu bækur í heimi sem er orðinn árlegur viðburður hjá okkur en að þessi sinni mun Jana Liebe, svissneskur hönnuður sem er höfundur bókarinnar sem vann titilinn á síðasta ári verða með námskeið og fyrirlestur hjá okkur í lok janúar. Ég er búin að sjá bókina og hún er alveg rosalega skemmtileg,“ segir Ólöf brosandi.
Splunkunýr viðburður í Hönnunardafni Íslands
Eru einhverjar nýjungar á döfinni? ,,Já, það verður mjög gaman að fylgjast með splunkunýjum viðburði í Hönnunarsafni Íslands sem nefnist Hádegishittingur með hönnuði. Við fáum til liðs við okkur flotta hönnuði þriðja miðvikudag í mánuði og áhugasömum er boðið að fræðast um hvað þessir hönnuðir eru að vinna að eða hafa unnið að. Meðal hönnuða er til dæmis Hringur Hafsteinsson sem mun segja frá vinnunni við hönnun á Minjagarðinum á Hofsstöðum og ungan grafískan hönnuð, Unu Maríu Magnúsdóttur, sem hefur nýlokið við að skrá ævistarf grafíska hönnuðarins Gísla B. Björnssonar sem fékk heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands í lok árs. Það verður boðið uppá notalega stund með kaffisopa og kleinum og vonandi mælist þetta vel fyrir,“ segir hún.
Áhugasamir geta fengið innsýn inn í starf fiðlugerðarmeistara
Garðapósturinn tók eftir að nafn bæjarlistamannsins Hans Jóhannssonar kemur fyrir í bæklingnum og Ólöf er spurð ú tí það. „Það er alveg frábært að Hans var tilbúinn til að vera t.d. með kynningu fyrir fjölskyldur í Hönnunarsafninu og þar geta áhugasamir krakkar með foreldrum eða öðrum forráðamönnum fengið innsýn inní starf fiðlugerðarmeistara. Hans er algjör snillingur og einn af bestu fiðlugerðarmeisturum heims í dag þannig þetta er frábært tækifæri fyrir samfélagið í Garðabæ. Hans ætlar svo líka að segja frá hönnun á „skrítnum“ hljóðfærum sem hann hefur hannað að smíðað á fyrirlestri og svo mun strengjakvartett leika á hljóðfærin hans á einni Tónlistarnæringunni. Marsmánuður verður svolítið undirlagður af Hansa en 2. mars er fjölskyldusmiðjan, 5. mars tónleikar og 16. mars fyrirlestur í Hönnunarsafninu.“
Spennandi hátíðir framundan
Hátíðum á vorönn er einnig gert góð skil í bæklingi en Safnanótt er fyrsta hátíðin og fer fram föstudaginn 7. febrúar, þá er það Barnamenningarhátíð í Garðabæ dagana 7. – 12. apríl að ógleymdu Jazzþorpinu sem stendur yfir 2-4. maí á Garðatorgi. „Ég hvet fólk til að fylgjast með, hengi dagskrána upp á ísskáp og setji í dagbókina það sem það vill alls ekki missa af.“
Dagskráin verður aðgengileg í pappírsformi á Bókasafni Garðabæjar, Hönnunarsafni Íslands og í þjónustuverinu á Garðatorgi 7 en einnig í rafrænu formi á vef Garðabæjar.