Ný húsnæðisáætlun Garðabæjar endurspeglar metnaðfulla íbúðauppbyggingu í bænum

Á fundi bæjarstjórnar sl. fimmtudag fylgdi Almar Guðmundsson, bæjarstjóri úr hlaði uppfærslu húsnæðis- áætlunar Garðabæjar til 10 ára, en áherslur flokkanna í bæjarstjórn Garðabæjar eru ekki allar eins þótt góður samhljómur sé í þeim.

Í húsnæðisáætlun er þörfum hinna ýmsu hópa fyrir hagkvæmar íbúðir mætt, m.a. með leiguúrræðum

Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði að uppfærð húsnæðisáætlun Garðabæjar fyrir árið 2023 endurspegli metnaðarfulla íbúðauppbyggingu Garðabæjar á næstu árum sem mun mæta brýnni þörf á húsnæðismarkaði. ,,Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að standa vörð um góða þjónustu við bæjarbúa, sem staðfest er í nýlegri íbúakönnun. Því þarf að tryggja að uppbyggingu innviða fylgi fjölgun íbúða og hverfa í bænum, hér eftir sem hingað til.
Í húsnæðisáætlun er lögð áhersla á fjölbreytni í íbúðagerð og að framboð af sérbýli aukist. Þá er það mjög mikilvæg áhersla að uppbygging í bænum skapi tækifæri fyrir ólíka hópa til að eignast húsnæði við hæfi, hvort sem um er að ræða fyrstu kaup eða tilfærslu yfir í stærra eða minna húsnæði eftir aðstæðum hvers og eins. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins standa þannig vörð um séreignarstefnu.
Í húsnæðisáætlun er þörfum hinna ýmsu hópa fyrir hagkvæmar íbúðir mætt, m.a. með leiguúrræðum. Þá er stefnt að umtalsverðri fækkun einstaklinga og fjölskyldna á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði,“ segir í bókun Gunnars Vals.

Vilja tryggja betur aukið framboð af fjölbreyttu almennu húsnæði en ekki síður í húsnæði sem telst til félagslegs húsnæðis í eigu Garðabæjar

Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Viðreisnar

„Við í Viðreisn fögnum því hve vel Garðabær mætir uppbyggingaþörf á húsnæðismarkaðinum almennt. Hins vegar teljum við í Viðreisn mikilvægt að rýna hvernig megi tryggja betur aukið framboð af fjölbreyttu almennu húsnæði en ekki síður í húsnæði sem telst til félagslegs húsnæðis í eigu Garðabæjar sem og í eigum óhagnaðadrifinna félaga í ljósi þess vaxtar sem á sér stað í sveitarfélaginu. Vaxtar sem lýsir sér í fjölbreyttari íbúasamsetningu en áður, aukningu í yngri íbúum sem sömuleiðis kallar á fjölbreyttari leiðir í vali á húsnæði, “ segir í bókun Söru Daggar Svanhildardóttur oddviti Viðreisnar, sem hún lagði fram á fundinum.

Garðabær verði að taka ábyrgð á ástandinu á húsnæðismarkaði til jafns við önnur sveitarfélög

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, oddviti Garðabæjarlistans

Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans ítrekuðu á fundinum þá skoðun sína að áætlanir um húsnæðisuppbyggingu ættu að gera ráð fyrir því að allt að 30% nýs húsnæðis í Garðabæ á næstu tíu árum verði hagkvæmt húsnæði, t.d. leiguhúsnæði á vegum óhagnaðardrifinna félaga og hlutdeildarlánaíbúðir, og þar af 5% félagslegar leiguíbúðir. ,,Í fyrirliggjandi húsnæðisáætlun er þetta hlutfall um 10%. Það er skoðun okkar að Garðabær verði að taka ábyrgð á ástandinu á húsnæðismarkaði til jafns við önnur sveitarfélög og bjóða upp á fjölbreyttari valkosti sem henta fleiri tekjuhópum. Við sitjum því hjá, með von um að áætlunin taki breytingum við næstu endurskoðun,“ segir í bókun fulltrúa Garðabæjarlistans.

Bæjarstjórn samþykkti með 9 atkvæðum uppfærslu húsnæðisáætlunar Garðabæjar til 10 ára í samræmi, en fulltrúar Garðabæjarlistans sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Forsíðumynd: Gunnar Valur Gíslason, formaður fjölskylduráðs Garðabæjar og bæjarfulltrúi Sjálfsæðistflokksins.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar