Ný fræðsluskilti um herminjar í Garðabæ

Ný fræðsluskilti um herminjar í Garðabæ voru afhjúpuð á Garðaholti ofarlega á holtinu austan megin við Garðaholtsveg og í hverfinu Urriðaholti efst á holtinu við Lindastræti á horninu syðst við bílastæði Urriðaholtsskóla sl. fimmtudag.
Á Garðaholti og beggja vegna Garðaholtsvegar, sem breski herinn lagði upphaflega, má sjá ummerki eftir hersetuna, s.s. leifar af loftvarnarbyssuvígjum ásamt varnarvirkjum frá stríðsárunum. Í landi Urriðakots og Vífilsstaða er víða að finna minjar um hernaðarumsvif í seinni heimsstyrjöld.
Í fyrra voru 80 ár frá því að Ísland var hernumið þegar breskur her steig á land 10. maí 1940.

Fræðsluskiltin um herminjarnar hlutu kosningu í Betri Garðabæ

Fræðsluskiltin hlutu brautargengi og voru meðal verkefna sem voru kosin áfram til framkvæmda í fyrstu íbúakosningum lýðræðisverkefnisins Betri Garðabæjar árið 2019. Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur, sá um textagerð og minjaskráningu sem kemur fram á skiltunum, hönnun og kortagerð var í umsjón Árna Tryggvasonar og ljósmyndir á skiltunum eru fengnar úr safni Friðþórs Eydal sem einnig aðstoðaði við heimildaöflun. Fræðsluskiltin á Garðaholti og Urriðaholti eru hluti af fjölmörgum skiltum sem hafa verið sett upp á undanförnum árum við útivistarstaði og menningarminjar í Garðabæ.

Camp Gardar og Camp Tilloi á Garðaholti

Sumarið 1940, í beinu framhaldi af hertöku landsins, hóf breski herinn varnarviðbúnað með ströndinni frá Kjalarnesi og suður á Hvaleyri í Hafnarfirði og einnig á helstu hæðum á höfuðborgarsvæðinu og austan þess. Fótgöngulið sem gætti strandlengjunnar á Álftanesi, kom sér fyrir á austanverðu Garðaholti og stórskotaflokkur setti þar upp tvær stórar loftvarnarbyssur.
Herflokkarnir bresku reistu tvennar herbúðir ,,Camp Gardar“ og ,,Camp Tilloi“ á Garðaholti. Að jafnaði höfðu 300 til 340 hermenn aðsetur í báðum búðun-um. Bandarískt herfylki leysti breska herflokkinn af hólmi í búðunum á meðan á stríðinu stóð og gættu loftvarnarvirkisins í Tilloi fram til ársins 1944 þegar þeir fluttu til Keflavíkur.

Camp Russel á Urriðaholti

Stórar herbúðir stóðu sunnan megin á Urriðaholti og voru varðstöðvar víða í hlíðunum. Búðirnar voru um skeið aðsetur símalagningarmanna bandaríska setuliðsins og nefndust ,,Camp Russel“ eftir Edgari A. Russel hershöfðingja sem farið hafði fyrir fjarskiptasveitum Bandaríkjahers í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöld. Alls er áætlað að um 80 bandarískir braggar hafi staðið í búðunum og vorið 1943 bjuggu þar alls um 500 hermenn.

Hér og þar má sjá leifar af búðunum, s.s. steinsteyptan vatnsgeymi, arinhleðslu og húsgrunna rétt norðan við Flóttamannaveginn (Setuliðsveg). Veginn lögðu Bandaríkjamenn á stríðsárunum en Íslendingar tóku að nefna hann flóttamannaveg löngu síðar.

Camp Brighton á Álftanesi

Í bígerð er að setja upp þriðja fræðsluskiltið tengt herminjum á Álftanesi þar sem fjallað er um Brighton herbúðirnar sem reistar voru í landi Breiðabólsstaða sumarið 1941. Þar er að finna margar minjar frá setuliðinu m.a. leifar af steinsteyptum varðskála og hálfniðurgrafið hús sem var stjórnstöð fyrir loftvarnarbyssur.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar