Ferðaskrifstofan Úrval Úrsýn býður upp á fjölbreytt úrval af spennandi sérferðum allan ársins hring. Ein slík ferð er til Punta Cana, sem er stórt hótelsvæði á austurhluta Dóminíska lýðveldisins þar sem Karabía- og Atlantshafið mætast. Ferðin til Dóminíska lýðveldisins verður farin í upphafi nýs árs, 6.-14. janúar 2024, en Punta Cana svæðið er kannski einna þekktast fyrir 100km langa sandströnd og þar á meðal sólstrandir sem veljast sem topp tíu bestu sólstrendur í heiminum.
Farastjóri ferðarinnar er Helga Thorberg, sem er menntuð leikkona og garðyrkjufræðingur, en hún hefur starfað við leiklist sem höfundur og þáttagerðarkona auk þess hefur hún langa reynslu sem fararstjóri um allan heim. Konfektmolinn í þessu öllu saman er að Helga hefur meðal annars búið í Dóminíska lýðveldinu, skrifað bók um dvöl sína þar og þekkir því hvern krók og kima.
Þroskandi að stíga út fyrir þægindarammann
Garðapósturinn/Kópavogspósturinn settist niður með Helgu til að forvitnast nánar um ferðina, en þó lá beinast við að byrja að spyrja hvernig það hafi komið til að hún fluttist tímabundið til Dominíska lýðveldisins? ,,Ástæðuna má rekja til „Guðs blessaða hrunsins“ ! Þá stóð ég eins og fleiri á tímamótum. Ég var búin að selja blómabúðina sem ég hafði rekið í 15 ár og ég var því frí og frjáls. Framtíðin á Íslandi var ekki björt og þá var kjörið að standa upp úr sófanum og koma sér á nýjan stað. Það er þroskandi að stíga út fyrir þægind- arammann og takast á við nýjan veruleika. Tilviljun réði því að stuttu eftir hrun var ég komin í strápils dansandi á ströndinni í Dóminíska lýðveldinu,” segir Helga.
Og þú ákvaðst að skrifa bók um dvölina þína þar? ,,Ég byrjaði á að senda vinum og vandamönnum tölvupósta með fréttapistlum um ævintýrin sem ég var að upplifa. Þeim var mjög vel tekið og það varð kveikjan að því að ég ákvað að skrifa bók. Þetta var áður en samfélagsmiðlar urðu eins útbreiddir og í dag – ætli ég væri ekki áhrifavaldur ef þetta ævintýri stæði yfir núna.”
Nú er tækifærið til að láta þann draum rætast
Og þú ert væntanlega spennt að endurnýja kynnin og snúa til baka til Dóminíska lýðveldisins með góðum hópi Íslendinga í byrjun árs, en hvað er það helsta sem dregur ferðafólk til Punta Cana? ,,Þetta er reyndar þriðja ferðin sem Úrval Útsýn er að bjóða upp á til Dóminska lýðveldisins. Það voru farnar tvær ferðir í fyrra, sem báðar heppnuðust mjög vel. Fólk var feykilega ánægt með land og þjóð! Það er reyndar ekki erfitt að vera hæstánægður með ferð til þessarar dásamlegu eyju. Þetta er vinsælasti ferðamannastaðurinn af öllum í Karabíska hafinu. Náttúrufegurðin er mikil, veðrið er himnest, strendurnar hvítar og tandurhreinar, sjórinn sægrænn og himininn fagurblár. Margir eiga sér þann draum að heimsækja Karabíska hafið og upplifa þennan sælureit á jörðinni. Nú er tækifærið til að láta þann draum rætast. Gistingarnar sem eru í boði eru í mjög háum gæðaflokki, allt fæði og drykkir eru innifaldir í verðinu svo það er bara að njóta.”
Bara þú, ströndin endalausa, kyrrð og pálmatré sem vinka þér
Verður þú með einhverjar skipulagðar ferðir á meðan dvöl ykkar stendur? ,,Já, það er boðið upp á þrjár skoðunarferðir. Ein er til hinnar dásamlegu Saona Islandeyju fyrir utan austurströndina. Eyjan er hluti af þjóðgarði og þar eru engar manngerðar byggingar, bara þú, ströndin endalausa, kyrrð og pálmatré sem vinka þér. Það er einstök upplifun að eyða deginum þar og á leiðinni þangað er öllum boðið á „barinn“ í Bláa lóninu þeirra. Ferð sem ég get ekki dásamað nógsamlega,” segir hún og heldur áfram: Einnig er boðið upp á ferð sem ég kýs að kalla „Uppsveitir Punta Cana“. Þá er farið um nærumhverfi Punta Cana, heilsað upp á heimamenn og við fáum að bragða á ýmsu sem bændur eru að framleiða, þar á meðal súkkulaði og romm. Dómkirkjan í Higüey, sem er stærsta borgin á austurströndinni er skoðuð og við heimsækjum barnaskóla í sveitinni. Í þessari ferð fáum við innsýn inn í líf og störf heimamanna, auk þess að aka upp um fjöll og hæðir og njóta náttúrufegurðarinnar á þessari gróðursælu eyju.
Þá er boðið upp á „Partýbáts siglingu“ þar sem við njótum þess að skoða hina fallegu Bavaro standlengju frá sjónum. Fólk getur snorklað og skoðað lífríki sjávars og baðað sig í náttúrulaug. Síðan er dansað upp á dekki undir dynjandi tónlist heimamanna og siglt heim á leið. Fólk veit ekki hvað suðrænt stuð er fyrr en það hefur farið með í þessa patrýbátsferð.”
En ferðalangar stjórna samt sinni ferð sjálfir, hvort þeir vilji slaka á við strendur Punta Cana eða stökkva í kynnisferðir um svæðið? ,,Jú, að sjálfsögðu gerir fólk það sem það vill. Margir eru að fara í sína bestu golfferð, því í Dóminíska lýðveldinu eru margir verðlaunaðir golfvellir. Hótelin leggja mörg áherslu á Spa- meðferðir og bjóða upp á heilsutengda ferðamennsku, nudd og alls konar líkamsræktarstöðvar eru í boði. Á hótelunum eru margir veitingastaðir, kaffihús og/eða ísbarir til að velja um. Allt hráefni er af miklum gæðum og landbúnaður er mikilvæg atvinnugrein í landinu. Ávextir og grænmeti er allt ræktað í nærumhverfinu og fyrir utan strendurnar eru fengsæl fiskimið. Aðrir fara til að njóta strandlífsins og sólarinnar. Hótelin eru með skemmtidagskrá bæði á daginn og á kvöldin og flest eru með dagskrá fyrir börn og unglinga líka. Skemmtidagskráin, matur og drykkur, allt er innifalið í verðinu á ferðinni. Fólk þarf varla að taka upp veskið alla ferðina,” segir Helga.
Dásamleg ferð til yndislegrar eyju
Þannig að ferðalangar eiga von á spennandi ferð? ,,Já, þeir geta átt von á dásamlegri ferð til þessarar yndislegu fallegu eyju sem hefur allt það upp á að bjóða, sem svo margir eru að leita að. Náttúrufegurð, frábæra gistingu, góðan mat og drykk, sól, hvítar strendur og pálmatré og það í myrkasta skammdeginu – í janúar,” segir Helga að lokum.
Ævintýraferðin er 6.-14. janúar 2024
Eins og áður segir er ferðin 6. til 14. janúar, en flogið er beint til Dominíska lýðveldisins með NEOS og innifalið í verði er ferðataska og handfarangur, 8 nætur á 4–5 stjörnu gistingu með öllu inniföldu, íslensk fararstjórn, akstur til og frá flugvelli, og 1 x 20 kg ferðataska og 8 kg handfarangur. Verðið er frá 299.900 kr per farþega.