Neyðarkall til þín!

Dagana 3. til 6. nóvember er komið að sölu Neyðarkalls Hjálparsveitanna. En sala Neyðarkallsins er orðin ein af mikilvægustu fjáröflunum Hjálparsveitar skáta Garðabæ.

Íris Dögg

„Stuðningurinn sem hlýst af sölu Neyðarkallsins nýtist í þjálfun björgunarsveitarfólks, æfingar og að tryggja að við séum búin réttum útbúnaði til þess að geta brugðist sem best við þegar neyðarkallið kemur,“ segir Íris Dögg Sigurðardóttir formaður Hjálparseitar skáta Garðabæ.

Garðarbæjarsveitin eins og kunnugir kalla hana hefur um skeið verið ein af öflugri sveitum á landinu og fer að meðaltali í fjölda útkalla á ári til þess að aðstoða fólk í neyð.

,,Við munum ganga í eins mörg hús í Garðabæ og við komumst yfir, fimmtudaginn 3. nóvember og bjóða bæjarbúum að tryggja sér Neyðarkallinn 2022. Við biðlum til bæjarbúa að taka vel á móti okkar fólki þegar það bankar á dyrnar,“ segir Helga Linnet björgunarsveitakona og umsjónamaður sölunnar fyrir sveitina í ár.

„Einnig verður hægt að ná sér í eintak á sölustöðum okkar í Garðabæ við Hagkaup, IKEA, Krónuna, Bónus og Costco,“ bætir hún við.

Fyrirtækjum og einstaklingum býðst einnig að kaupa stóra Neyðarkallinn og styðja þar með einkar veglega við Hjálparsveitina í bæjarfélaginu. „Fyrir frekari upplýsingar um stóra kallinn er hægt að hafa samband við okkur á [email protected] og við komum honum á réttan stað,“ segir Íris að lokum.

Helga Linnet

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar