Nemendur í 3. bekk Sjálandsskóla tóku þátt í Friðarhlaupi Chinmoy á dögunum. Fulltrúar félagsins komu með friðarkyndil og fengu nemendur að hlaupa með kyndilinn í íþróttasalnum.
Allir fengu vegabréf og stimpla frá öllum heimsálfum, sem tákn um að vera orðinn þátttakandi í alþjóðlegu friðarhlaupi.
Sri Chinmoy heimseiningar friðarhlaupið er hnattrænt kyndilboðhlaup sem sameinar fólk af öllum heimshornum í leitinni að friði. Tilgangur hlaupsins er s.s. að efla frið, vináttu og skilning manna og menningarheima á milli. Sem tákn um þessa viðleitni bera hlaupararnir logandi kyndil, sem berst manna á milli í þúsundum byggðarlaga í yfir hundrað löndum.
Á hverju ári heimsækir Friðarhlaupið ótölulegan fjölda skóla í yfir 100 löndum. Öll börn sem hlaupið heimsækir fá að halda á Friðarkyndlinum og verða þar með fullgildir meðlimir í Friðarhlaupsliðinu.
Friðarhlaupið hefur, frá því það hófst árið 1987, heimsótt nánast hvert einasta land heimsins, eða 150 lönd og sjálfsstjórnarsvæði í allt, og komið við líf milljóna manna.



