Hagstofan birti á dögunum niðurstöður um landsmenn eftir menntunarstöðu 1. janúar 2021 og þar kom í ljós að hæst hlutfall háskólamenntaðra árið 2021 var í Seltjarnarnesbæ (54,2%) en Garðabær var með næst hæsta hlutfallið (47,%) og Reykjavíkurborg (41,5%). Í Garðabæ hækkaði þetta hlutfall á milli áranna 2011 og 2021 úr 38,4% árið 2011 í 47,1% árið 2021, svo hækkunin er nokkuð vegleg eða 8,7%
Hlutfall háskólamenntaðra hækkaði á meðan hlutfall starfsmenntaðra lækkaði
Hlutfall háskólamenntaðra í manntalinu 2021 hækkaði í nær öllum sveitarfélögum landsins frá síðasta manntali árið 2011. Öðru máli gegndi um starfsmenntun á framhaldsskólastigi og viðbótarstigi en hlutfall þeirra sem voru með starfsmenntun sem hæstu gráðu lækkaði í 37 af 69 sveitarfélögum.
Hlutfall háskólamenntaðra íbúa landsins 25 ára og eldri hækkaði frá síðasta manntali, var 27,7% árið 2011 en 34,6% í manntalinu 2021. Hlutfall með starfsmenntun á framhaldsskólastigi var hins vegar 24,6% árið 2011 en 22,4% árið 2021 og hafði því lækkað.
Í stærstu sveitarfélögunum lækkaði hlutfall íbúa með starfsmenntun mest í Seltjarnarnesbæ, um 6,5% en í Garðabæ lækkaði hún um 4,4%, fór úr 26,2% í 21,8%
Konur fleiri en karlar á meðal háskólamenntaðra fram til 65 ára aldurs
Alls voru 49.058 konur og 35.712 karlar 25 ára og eldri með háskólamenntun í manntalinu 2021. Flestir voru í aldurshópnum 35-44 ára og voru konur tæp 60% háskólamenntaðra í þessum aldursflokki. Konur voru talsvert fleiri í öllum aldursflokkum háskólamenntaðra fram til 65 ára aldurs.
Hagstofan bauð ekki upp á þann möguleika að sjá muninn á mill háskólamenntaðra kvenna og karla eftir sveitarfélögum.