Möguleikarnir á bókasafninu

Bókasöfn nútímans hafa svo miklu meira að geyma en einungis bækur. Þetta ættu flestir að vera farnir að vita en eflaust gæti það samt komið mörgum á óvart hvað almenningssafnið þeirra býður upp á.
Bókasöfn hafa þróast og vaxið og þjóna núna margvíslegum hlutverkum í samfélaginu. Þau eru gagnvirk fræðslusetur, miðstöð viðburða, aðgengileg dægradvöl, aðsetur fyrir hópa til að hittast, sköpunarrými og yfir í að vera hin klassísku gagnasöfn. Einnig má segja að bókasöfnin séu einskonar heimili að heiman. En þar er hægt að finna sér afdrep til að lesa, læra, skapa og leika eða bara til þess að finna frið.

Margur er knár þó hann sé smár, eins og sagt er – og á það vel við um Bókasafn Garðabæjar. En innan um skáldsögur, ljóða – og fræðibækur á almenningssafni Garðbæinga kennir ýmissa grasa, þar má meðal annars fá kökuform og borðspil til útláns. Einnig er viðburðardagatal bókasafnsins fullt af spennandi erindum og námskeiðum sem eru í boði fyrir börn og fullorðna allt árið. Reynt er að hafa dagskrána fjölbreytta og ókeypis. Núna nýlega hefur bókasafnið einnig fengið til sín glæsilega saumavél, gestum til afnota, þar sem hægt er að koma og bæta föt, stytta gardínur eða sauma öskudagsbúninginn. Einnig er þar að finna þrívíddarprentara og vínylprentara sem eru nýlega farnir í notkun fyrir gesti safnsins. Bókasafnið reynir eftir fremsta megni að þjónusta samfélagið sitt eftir þörfum þess hverju sinni. Þróun er nauðsynleg.

Bókasöfn eru fyrst og fremst fyrir fólk. Þau eru íverustaður og verkfærakassi einstaklinga og hópa. Þau eru mikilvæg þungamiðja og kjarninn í hverju samfélagi.

Díana Sjöfn Jóhannsdóttir
Höfundur pistils er viðburðarstjóri Bókasafns Garðabæjar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar