Mjög jákvæðir vaxtarverkir

Það eru stór tímamót hjá gullsmiðnum og Garðbæingnum Lovísu Halldórsdóttur Olesen, en í vikunni flutti hún verkstæði sitt í Vinastræti 16 í Urriðaholti auk þess sem hún opnar glæsilega skartgripaverslun í sama húsnæði við það tækifæri.

Lovísa hefur hannað skartgripi undir eigin merki, by lovisa skartgripir undanfarin fjögur ár. Hún hefur starfað sem gullsmiður undanfarin 14 ár, rekið verkstæði og litla verslun á Garðaflöt 25 frá 2018 auk þess sem vefverslun er að sjálfsögðu einnig starfrækt meðfram, á bylovisa.is.

Vildi halda fyrirtækinu innan Garðabæjar

En hvernig kom það til að hún ákvað að færa sig um set innan Garðabæjar, segja skilið við litla fallega verkstæðið og verslunina á Garðaflötinni og færa sig í hið ört vaxandi og vinsæla Urriðaholt? ,,Það kom til vegna vaxtaverkja í rauninni, eins gott, skemmtilegt og persónu-legt það hefur verið að reka verkstæðið og verslunina að heiman frá Garðaflötinni var þetta orðið of lítið fyrir mig, sem eru mjög jákvæðir vaxtarverkir. Ekki bara vegna aukinnar umferðar til mín, heldur líka til frábæru endursöluaðilanna minna sem eru staðsettir um allt land. Það kom svo varla annað til greina en að halda fyrirtækinu innan Garðabæjar og tók það sinn tíma að finna staðsetningu sem ég féll fyrir, en það gerðist þegar ég labbaði inn í Vinastrætið í Urriðaholtinu, mér á eftir að líða vel þar og vonandi viðskiptavinum líka sem koma þangað,” segir Lovísa.

,,Þetta er vissulega stórt skref fyrir mig og var auðvitað alltaf í framtíðarsýninni,“ segir Lovísa um nýju skartgripaverslunina og verkstæðið í Urriðaholti

Vissulega stórt skref

Hvaða þýðingu hafa þessar breytingar fyrir þig og mun vöruframboðið aukast með nýrri og stærri verslun? ,,Þetta er vissulega stórt skref fyrir mig og var auðvitað alltaf í framtíðarsýninni, nú hef ég náð þessari vörðu í átt minni að stærri markmiðum og framtíð, ég stefni því áfram veginn. Samhliða því fylgja nýjar vörur þar sem ég er mikið í skapandi hugsun alla daga, og nú hef ég loks umhverfið með mér til þess að gefa sköpunargleðinni svolítið lausan tauminn. Þetta eru miklar breytingar en nú verður opið hjá mér alla daga og á laugardögum en á Garða-flötinni var ég bara með opið tvisvar í viku.”

Það er hægt að dressa skartgripina upp og niður

Og hvers konar skartgripi ertu að hanna og smíða og fyrir hverja? ,,Ég nota eingöngu eðalmálma, sem sagt gull eða silfur í mína hönnun þar sem silfrið vegur þyngra í línunum mínum þú gullskartgripum frá mér fjölgi líka. En hvers konar skartgripi ég hann, já besta lýsingin er líklegast sú að ég legg mig fram við að hanna tímalausa, margbreytilega skartgripi. Það sem ég á við með margbreytilega er að þegar ég er að skapa og hanna huga ég að því að línurnar mínar passi vel saman sem og með öðrum skartgripum. Ég hugsa um skartgripi sem einskonar tól eða verkfæri sem við getum notað til þess að auðkenna okkur sjálf. Svo að hægt er að raða línunum mínum saman, setja saman fallegar, töff samsetningar sem hjápar þér að tjá þig sem manneskju. Það er svo hægt að dressa skartgripina upp og niður og leika sér svolítið með línurnar.”

Söng og leikonan Salka Sól með skartgripi sem að Lovísa hannaði

Kom með þrjár nýjar skartgripalínur í júní

Þú hefur verið dugleg að koma með nýjar línur í gegnum árin og í fyrra varð Tails skartgripalínan til. Hvernig gekk hún og ertu með eitthvað nýtt og spennandi fyrir jólin? ,,Já, ég hef tamið mér það að koma með nýjar línur einu sinni á ári, en breytti þó aðeins til og kom með þrjár nýjar línur núna í júní, sem er ekki þessi týpíski tími að koma með nýja skartgripalínu. Það voru línurnar HRYGG, FROST og STARI, þær gengu vel og komu sterkar inn í útskriftirnar í sumar. Og eins og áður segir, falla vel að öðrum línum sem fyrir voru. STARI t.d. er virkilega glæsileg og sparileg lína ein og sér, en þegar hálsmenið er sem dæmi notað með HRYGG eða FISKIFLÉTTU er búið að dressa það aðeins „niður“ og orðið meira hversdags ef maður ætti að orða sem svo.”

Karlmenn vilja margir hverjir nota skartgripi

Og þú hannar ekki skartgripi eingöngu fyrir konur því í fyrra leit dagsljósið fyrsta karlalínan sem þú hannar og ber nafnið Kaðall – hvernig kom það til að þú fórst að hanna fyrir karla og eftir hverju sækjast þeir helst?
,,Karlmenn vilja margir hverjir nota skartgripi og hefur tískan verið að færast líka meira í þá áttina síðustu ár. Fyrir er auðvitað stafa- og stjörnumerkjamenin sem eru meðal vinsælustu grunnmenanna hjá mér en karlmenn og yngri strákar vilja flestir fá þau á aðeins grófari keðju en annars. Ég ákvað svo vegna eftirspurnar sem ég fann fyrir frá viðskiptavinum mínum, að koma með grófari keðju handa karlmönnum sem þó passar fyrir bæði kyn, það er auðvitað smekksatriði, en ég var með karlmanninn í huga þegar ég skapaði UNISEX kaðalinn. Hann er grófur, glæsilegur og úr silfri en hægt er að fá hann líka gylltan eða rhodium svartan, bæði sem hálskeðju og armband. Þetta féll karlmönnum vel í geð svo ég er byrjuð að huga að næstu línu handa karlmönnum.”

Fallegir hringar eftir Lovísu

Íslenska stafrófið er skyldueign

En eftir hverju hafa konur helst verið að leita hjá þér – hvað hefur verið vinsælast hjá þér í gegnum árin?
,,Konur eru mikið að leita eftir skartgripum til þess að ganga með dagsdaglega sem fellur að þeirra stíl, og eru vissar samsetningar vinsælli en aðrar. Flétturnar mínar, FISKIFLÉTTA og FOSSFLÉTTA hafa þó verið allra vinsælastar, en það eru silfurkeðjur sem fléttast svo fallega, koma silfurlitaðar, gylltar og svo rhodium svartar, bæði í hálsmen og armbönd. Það sem gerir þær líka svona vinsælar er að þær eru líka fullkomnar með öðrum menum eða armböndum, poppa upp aðra skartgripi og setja oft punktinn yfir i-ið. Tails hefur svo líka verið mjög vinsælt hjá mér, þá sérstaklega eyrnalokkarnir sem koma í nokkrum útfærslum og svo hringarnir, en þeir eru hinu fullkomnu stafl-hringir, þ.e.a.s. að hafa tvo eða fleiri saman á einum fingri, með eða án steins eða raða á nokkra fingur – það er endalaust hægt að leika sér með þá. Auðvitað er svo íslenska stafrófið einskonar „skyldueign“ eins og „the little black dress“ sem og stjörnumerkin, það er klassík sem fer með öll-um öðrum menum frá mér og er oft grunnurinn að hversdags skartgripunum sem maður setur á sig.”

Opnar 17.11.2021 kl. 16

Og þú ert spennt fyrir nýju verkstæði og verslun í Urriðaholti og býður alla Garðbæinga velkomna enda fullt af fallegum og spennandi gjöfum fyrir dömur og herra?
,,Hvort ég er spennt, þetta hefur verið í bígerð núna í marga mánuði. Ég opna dyrnar kl 16 í dag 17.11 og loka kl 21, verð með léttar veigar í boði handa gestum og gangandi ásamt 15% afslætti af öllum vörum nema 10% af gullinu, auðvitað frábært tækifæri til að kaupa jólagjöf eða tvær og smá handa sér sjálfum, það er mikilvægt líka. Ég auðvitað vonast til að sjá sem allra flesta í dag og munum við taka vel á móti öllum,” segir Lovísa full tilhlökkunar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar