Miklu áorkað á tveimur árum

Í síðustu viku voru liðin tvö ár frá því að ég var ráðinn til starfa sem bæjarstjóri í Garðabæ. Það er óhætt að segja að tíminn hafi liðið hratt og verkefnin hafa verið og eru fjölmörg.

Mig langar til að deila með lesendum hluta af því sem hefur áunnist á þessum tíma. Mér finnst ánægjulegt að líta til baka. Við höfum náð mjög góðum árangri á ýmsum sviðum, bæði hvað varðar uppbyggingu stækkandi bæjar en einnig hvað varðar mikilvæga þætti sem efla mannlífið í bænum okkar og styrkja þjónustu við íbúa á öllum aldri.

Ég skrifa þennan pistil í sumarmánuðinum júní í norðan kalsa og gulri viðvörun. Það er kannski táknrænt fyrir eðli verkefnanna. Stundum hefur viðrað vel og allt verið í takt við það sem vænst var. Þá hefur verið skemmtilegra að lifa og verkefnin bera fljótt sýnilegan ávöxt. En það hafa líka verið krefjandi tímar, við höfum glímt við óvæntar aðstæður og þurft að bregðast við ýmsu. Þannig verður það alltaf. En bæði á góðum tímum og þeim sem eru meira krefjandi, finnum við taktinn í góðu samstarfi og samtali. Mér hefur þótt vænt um að eiga í góðu og beinu samtali við íbúa Garðbæjar og er þegar byrjaður að undirbúa haustið, íbúafundi og samtöl.

Ég læt myndir og myndatexta tala sínu máli. Um leið vil ég þakka fyrir gott og gefandi samstarf við fjölmarga íbúa, starfsfólk, bæjarfulltrúa og aðra. Ég hlakka til framhaldsins og veit að við eigum í vændum áframhaldandi uppbyggingu og verkefni sem efla og styrkja bæinn okkur.
Garðabær er gott samfélag!

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Forsíðumynd: Frá bæjarstjóra til bæjarstjóra, Gunnar Einarsson afhenti keflið til mín, í þessu tilfelli Sögu Garðabæjar.

Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar í júní 2022.
Urriðaból við Holtsveg opnaði í vor, einn glæsilegasti leikskóli landsins. Sá þriðji sem við opnum á kjörtímabilinu, en fyrst opnaði Urriðaból við Kauptún, svo leikskóladeild Sjálandsskóla.
Samstarf Garðabæjar og FEBG hefur verið mjög farsælt. Við höfum einnig umbylt aðstöðu fyrir félagsstarf eldra fólks í bænum og í haust verður opnunartími Jónshúss lengri.
Uppbyggingin í bænum gengur vel. Hér er ég í Hnoðraholti en lóðir þar voru afar vinsælar þegar þær fóru á sölu. Sömuleiðis gengur uppbygging hverfa á Álftanesi mjög vel.
Jazzþorpið er komið til að vera og eflist áfram. Menningarstarf Garðabæjar er sterkt og margar aðrar hátíðir mætti nefna.
Vinagarður í Urriðaholti, frábær bæjargarður sem var vígður sumarið 2023. Hér er ég með Bergljótu Hreinsdóttur, sem átti hugmyndina að nafni garðsins.
Vígsla Urriðaholtsskóla og sex ára afmæli. Nú er búið að taka annan áfanga í notkun og framkvæmdir við þann þriðja hefjast fljótlega.
Heimsókn bæjarráðs í endurbætt húsnæði Álftanesskóla.
Við höfum haldið fjölmarga íbúafundi á síðustu tveimur árum, einna fjölmennastur og fjörugastur var þó fræðslufundur um máva í landi Garðabæjar. Íbúar hafa tekið höndum saman og sinnt sínu hlutverki vel í baráttunni við mávana.
Garðbæingurinn okkar var útnefndur í fyrsta sinn í byrjun ársins, Páll Ásgrímur Jónsson er vel að þeirri nafnbót kominn.
Á dögunum voru ný undirgöng á Arnarnesi vígð, en krakkar í Sjálandsskóla gerðu það á hjólunum sínum. Fjölmargar göngu og hjólaleiðir hafa verið teknar í gagnið undanfarin tvö ár.
Hér er ég með gott útsýni úr nýjum rafvagni Strætó, en ég hef einnig haft það fyrir sið að hlaupa um bæinn og fylgjast með framkvæmdum okkar og uppbyggingunni sem er á mikilli siglingu.
Þegar ég flakkaði um Garðabæ fékk ég tækifæri til að ræða málefni bæjarins við íbúa, milliliðalaust. Hér er ég með Hafliða Kristinssyni, formanni íbúasamtaka Urriðaholts.
Ég laumaði mér inn á ungmennaþing í Ásgarði þar sem 100 ungmenni ræddu málefni bæjarins og lögðu línurnar. Ungmennaráð Garðabæjar og ÍTG vinna úr hugmyndum þeirra og koma í framkvæmd.
Mikil orka og áhersla hefur farið í endurbætur skólahúsnæðis í Garðabæ á síðustu tveimur árum. Við teljum okkur vera á góðum stað, en umfangsmiklar framkvæmdir eru í gangi í Garðaskóla.
Þetta hefur verið skemmtilegur tími, einna skemmtilegast hefur samtalið við ungu kynslóð bæjarins verið. Þessir krakkar innsigluðu samning við Stjörnuna með fimmu!
Friðlýsing Bessastaðaness var góður áfangi. Nýverið friðlýstum við einnig Urriðakotshraun.
Loftgæðamælirinn okkar á Garðahrauni er byrjaður að mæla.
Vorið 2023 römpuðum við upp Garðatorg. Rampur númer 450 á Íslandi er við Rakarastofu Garðabæjar.
Árlega hittist hópur starfsmanna Garðabæjar sem kominn er á eftirlaun og við höldum veislu með þeim. Þar hitti ég mömmu, Ölmu Hákonardóttur, sem vann á bæjarskrifstofunni.
Fulltrúar í bæjarráði og fyrrverandi Bæjarritari rýna tilboð í byggingarrétt lóða í Hnoðraholti.
Plokkað á Álftanesi
Skóflustunga fyrir búsetukjarna í Brekkuási 2. Hann opnaði haustið 2023 við mikla gleði.
Miðgarður er frábært fjölnota íþróttahús. Á sumardaginn fyrsta var þar mikið um að vera og við gerðum samstarfssamning við Skátana. Við höfum lagt áherslu á gott samstarf við frjálsu félagasamtökin í bænum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar