Í síðustu viku voru liðin tvö ár frá því að ég var ráðinn til starfa sem bæjarstjóri í Garðabæ. Það er óhætt að segja að tíminn hafi liðið hratt og verkefnin hafa verið og eru fjölmörg.
Mig langar til að deila með lesendum hluta af því sem hefur áunnist á þessum tíma. Mér finnst ánægjulegt að líta til baka. Við höfum náð mjög góðum árangri á ýmsum sviðum, bæði hvað varðar uppbyggingu stækkandi bæjar en einnig hvað varðar mikilvæga þætti sem efla mannlífið í bænum okkar og styrkja þjónustu við íbúa á öllum aldri.
Ég skrifa þennan pistil í sumarmánuðinum júní í norðan kalsa og gulri viðvörun. Það er kannski táknrænt fyrir eðli verkefnanna. Stundum hefur viðrað vel og allt verið í takt við það sem vænst var. Þá hefur verið skemmtilegra að lifa og verkefnin bera fljótt sýnilegan ávöxt. En það hafa líka verið krefjandi tímar, við höfum glímt við óvæntar aðstæður og þurft að bregðast við ýmsu. Þannig verður það alltaf. En bæði á góðum tímum og þeim sem eru meira krefjandi, finnum við taktinn í góðu samstarfi og samtali. Mér hefur þótt vænt um að eiga í góðu og beinu samtali við íbúa Garðbæjar og er þegar byrjaður að undirbúa haustið, íbúafundi og samtöl.
Ég læt myndir og myndatexta tala sínu máli. Um leið vil ég þakka fyrir gott og gefandi samstarf við fjölmarga íbúa, starfsfólk, bæjarfulltrúa og aðra. Ég hlakka til framhaldsins og veit að við eigum í vændum áframhaldandi uppbyggingu og verkefni sem efla og styrkja bæinn okkur.
Garðabær er gott samfélag!
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Forsíðumynd: Frá bæjarstjóra til bæjarstjóra, Gunnar Einarsson afhenti keflið til mín, í þessu tilfelli Sögu Garðabæjar.























