Miklar tilfinningar í gangi

Eftir óvænt þjálfaraskipti þá þreytir Þorvaldur Örlygsson frumraun sína sem aðalþjálfari Stjörnunnar í kvöld er liðið mætir Kelfavík í Pepsí-Max deild karla á Nettóvellinum í Keflavík. Leikurinn hefst kl. 19:15.

Það kom öllum á óvart þegar Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar, steig óvænt frá borði sl. miðvikudag og sagði starfi sínu lausu. Þorvaldur, sem var aðstoðarmaður Rúnars Páls, tók við liðinu eftir að hafa hugsað málin vel og farið yfir hlutina með Rúnari Páli sem hvatti hann til að taka við liðinu.

Ekki hægt að sjá í spádómskúlunni

En Þorvaldur hefur varla reiknað með því, þegar hann tók  að sér stöðu aðstoðarþjálfar Stjörnunnar  sl. haust, að hann værir orðinn aðalþjálfari liðsins fyrir 2. umferð Pepsí-Max deildar karla?  ,,Nei, þetta var ekki hægt að sjá í spádómskúlunni. Planið var alltaf að vera með Rúnari og styðja hann í því góða starfi sem hann hefur unnið hjá félaginu í gegnum árin. Þetta var sannarleg aldrei í kortunum, „sagði Þorvaldur eftir síðustu æfingu liðsins fyrir leikinn á móti Keflavík.

Þorvaldur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar segir verkefni verðugt í Keflavík í kvöld

Svona hlutir eiga kannski ekki alltaf að koma á óvart

Það hefur því væntanlega komið jafn mikið á óvart  og öðrum þegar Rúnar ákvað að hætta – ekkert sem benti til þess að hann vildi láta af störfum eða hvað? ,,Já, þetta kom mjög óvænt upp, en svona þegar maður horfir til baka og metur stöðuna þá var hann búinn að vera lengi hjá félaginu og það getur stundum komið þreyta eftir langan tíma. Ég þekki þetta sjálfur sem þjálfari til margra ára. Þannig að svona hlutir eiga kannski ekki alltaf að koma á óvart, en þetta er ákvörðun Rúnars og ef hann og fjölskyldan hans eru sátt með hana þá er það fyrir öllu. En það verður vissulega  mikill missir af honum.“

Rúnar hvatti mig til að taka við liðinu

Og þú hefur ekki viljað skorast undan þegar til þín var leitað að verða aðalþjálfari liðsins?  ,,Ég og Rúnar ræddum þessa hluti og fórum yfir allar hliðar málsins. Hann hvatti mig til að halda áfram og taka við sem þjálfari liðsins. Ég velti þessu vissulega fyrir mér en mat það svo út frá þessum tímapunkti þ.e.a.s. mótið ný byrjað, reynsluna sem ég hef sem þjálfari, vinnan mín með liðinu í vetur og vor og það sem við höfum lagt í þetta,að þá væri réttast að taka við og halda áfram því góða starfi sem Rúnar Páll hefur unnið hjá félaginu undanfarin átta ár.“

Erum með fjölmennan og fjölbreyttan leikmannahóp

Einar Karl verður í leikbanni í kvöld eftir rauða spjaldið sem hann fékk á móti Leikni í sínum fyrsta alvöruleik með Stjörnunni

Hvað segir þú um leikmannahópinn – sáttur með eins og hann er eða áhuga að styrkja hann eitthvað? ,,Það er skammur tími til stefnu en félagsskiptaglugginn lokar 12. maí nk. En ég hef í raun ekki velt því fyrir mér, við erum með fjölmennan og fjölbreyttan hóp leikmanna hvað varðar eiginleika, aldur og fleira.  Þetta er hópurinn sem ég og Rúnar ákváðum að fara með inn í mótið og treystum á. Þetta er góð blanda af leikmönnum sem þekkja hvorn annan vel og það var virkilega gaman að koma inn í þennan blandaða hóp sem þjálfari.“

En hvernig líst þér annars á framhaldið og varstu sáttur með leik liðsins á móti nýlíðum Leiknis í fyrstu umferð Íslandsmótsins? ,,Já, þetta var fínn leikur að mörgu leyti. Það er alltaf erfitt að fara inn í fyrsta leik Íslandsmótsins, en við fengum ágætis færi og spilmennskan var yfir höfuð nokkuð góð, fínir kaflar sérstaklega inn á milli. Við verðum að sætta okkur við að nýliðarnir í Leikni voru nokkuð sprækir og duglegir, en vissulega vildum við vinna leikinn.“

Verðugt verkefni í Keflavík

Næsti leikur er á sunnudaginn við hina nýliða deildarinnar, Keflavík. Hvernig líst þér á þann leik? ,,Við höfum átt langa viku allir saman og ýmislegt gerst á þessum stutta tíma, en menn eru tilbúnir að leggja sig alla fram á móti Kelfavík. Eftir nokkuð ströggl hjá Keflavík undanfarin ár þá eru þeir komnir með fínt og sókndjarft lið. Það er fínn bragur á þeim og þetta verður mjög verðugt verkefni fyrir okkur. Við þurfum að eiga góðan leik til að sigra.“

Það eru miklar tilfinningar í gangi sem er mjög skiljanlegt

Hvernig hafa leikmenn annars brugðist við þessum tíðindum sl. miðvikudag – hafa menn getað fókusað  á æfingar og einbeitt sér fyrir leikinn á móti Keflavík? ,,Það er eins  með leikmannahópinn hjá okkur og öðrum starfsmannahópum, menn taka svona hlutum misjafnlega. Rúnar Páll er búinn að vera lengi þjálfari þessara stráka og það eru miklar tilfinningar í gangi sem er mjög skiljanlegt. En þeir verða að hugsa um sinn feril sem knattspyrnumenn og halda ótrauðir áfram, menn koma og fara sama hvort það eru leikmenn, þjálfarar eða stjórnarmenn. Menn verða að geta horft fram veginn og haldið áfram og það er einmitt  það sem við ætlum að gera.“

Breytingar á byrjunarliðinu

Eru allir heilir og mega stuðningsmenn eiga von á sama byrjunarliði og var á móti Leikni? ,,Það verða einhverjar breytingar hjá okkur. Danski ungi leikmaðurinn okkar, Magnus Anbo, tognaði í vikunni og þá verður Einar Karl í banni. Þá er Þorsteinn Már búinn að hrista meiðslin af sér og það eru fleiri að koma til baka. Svo það verða einhverjar breytingar á byrjunarliðinu,“ segir Þorvaldur að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar