Mikil uppbygging framundan í Garðabæ

Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins gáfum Garðbæingum 100 framsækin fyrirheit fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2018. Undanfarin fjögur ár höfum við unnið staðfastlega að því að efna þau fyrirheit. Og nú er nýtt fjögurra ára tímabil framundan.

Ég stefni á 3.-4. sæti

Ég leita eftir stuðningi sjálfstæðisfólks í Garðabæ til þess að skipa 3.-4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins nú í vor.
Ég hef verið bæjarfulltrúi Garðbæinga og formaður menningar- og safnanefndar undanfarin átta ár. Mig langar til að vinna bæjarfélaginu áfram gagn á því kjörtímabili sem í hönd fer.

Traustar undirstöður, lágir skattar

Fjárhagsstaða Garðabæjar er sterk. Skiptir þar mestu ráðdeild í rekstri og festa við stjórn fjármála bæjarins í gegnum tíðina. Með því móti er lagður grunnur að lágum sköttum á bæjarbúa.
Ég legg mikla áherslu á stöðugleika í fjármálum og að Garðbæingar búi áfram við lágt útsvar.

Góðir skólar, öflugt íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf

Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030, hið fyrsta eftir sameiningu Garðabæjar og Álftaness 2013, er góður grunnur til að byggja áfram sterkt samfélag í bænum.
Í Garðabæ eru góðir skólar á öllum stigum með framsækið skólastarf, einnig öflugt íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf fyrir fólk á öllum aldri.
Íþróttavellir og sundlaugar bæjarins hafa verið endurbætt í stórum stíl, söfnin blómstra, frjálsu félögin okkar eru rekin af miklum myndarskap og fjölnota íþróttahúsið í Vetrarmýri verður opnað nú á vordögum. Þetta mun efla allt íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf í Garðabæ á komandi árum.
Ég vil sjá fjölnota menningar- og fræðamiðstöð i Garðabæ komast á framkvæmdaráætlun.

Íbúðir fyrir unga fólkið okkar

Við þurfum stöðugt að byggja ný íbúðarhverfi í Garðabæ, með unga fólkið okkar í forgrunni.
Uppbyggingu í Urriðaholti lýkur á næstu árum með fullgerðum skólum og íþróttamannvirkjum, ný íbúðarbyggð rís á Álftanesi, við Lyngás og í Vetrarmýri. Hnoðraholtið er svo innan seilingar.

Hafnarfjarðarvegur í stokk

Mikilvægt framfaraskref í samgöngumálum Garðbæinga verður stigið þegar Hafnarfjarðarvegur verður lagður í stokk milli Lyngáss og Vífilsstaðavegar. Mislæg gatnamót munu auka flæði umferðar til muna, bæta tengingu milli hverfa í Garðabæ og auka lífsgæði íbúa.
Þetta verkefni nálgast framkvæmdarstig í samræmi við Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
En það gerist ekki af sjálfu sér.
Hér þarf að halda vel utan um hagsmuni Garðabæjar – og þeir eru miklir.

Farsæl sameining – Rannsóknir sýna …

Rannsóknir á sameiningum sveitarfélaga á Íslandi sýna að sameining sveitarfélaga leiðir ekki sjálfkrafa til bættrar stöðu sveitarsjóða. Megin ávinningur sameiningar, ef vel tekst til, er aukin þjónusta sem skilar sér í bættum búsetuskilyrðum í stærra samfélagi.
Markmið okkar allra er að sameining Garðabæjar og Álftaness verði farsæl fyrir alla Garðbæinga.

Sterk liðsheild

Ég vil leggja mitt af mörkum fyrir bæjarfélagið okkar og býðst til að vera áfram hluti af sterkri liðsheild í bæjarstjórn Garðabæjar – fyrir alla Garðbæinga.

Gunnar Valur Gíslason,
bæjarfulltrúi og formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar