Miðflokkurinn kærir sveitarstjórnarkosningarnar í Garðabæ

Miðflokkurinn í Garðabæ hefur ákveðið að kæra kosningarnar í Garðabæ, en umboðsmenn Miðflokksins gerðu eftirfarandi bókun á kjördag og afhentu kjörstjórn.

,,Miðflokkurinn í Garðabæ gerir alvarlegar athugasemdir við kjörseðla í sveitarfélaginu í yfirstandandi kosningum.

Sá alvarlegi ágalli er á kjörseðli við kosningar til bæjarstjórnar Garðabæjar í dag hinn 14. maí að kjörseðill er fyrirfram brotinn saman með tveimur brotum, í hægri enda er ysti listinn (M listinn) brotinn inn í seðilinn og síðan er seðillinn brotinn saman til helminga. Þetta veldur því að þegar kjósandi opnar seðilinn blasa þrír fyrstu listarnir við kjósandanum og þá getur kjósandi sem e.t.v áttar sig ekki á seinna brotinu á seðlinum staðið í þeirri trú að valið standi um þessa þrjá lista sem við blasa.

Umboðsmenn Miðflokksins í Garðabæ hafa upplýsingar frá kjósendum að dæmi séu um að kjósendur hafi ekki áttað sig á að fleiri listar voru í kjöri og því hafi þeir  listar sem ekki blöstu við kjósanda eftir að hafa opnað kjörseðilinn ekki komið til greina hjá viðkomandi kjósanda.

Umboðsmenn M listans í Garðabæ gera alvarlegar athugasemdir við kjörseðilinn í sveitarfélaginu í þessum kosningum og áskilja sér allan rétt í þessu máli, þar á meðal að kæra kosninguna í sveitarfélaginu af þessum sökum.

Það er lágmark að kjörgögn, þá sérstaklega kjörseðlar, séu útbúnir með þeim hætti að þeir listar sem í kjöri eru hafi jafna möguleika frammi fyrir kjósandanum, og ekki þurfi sérstaka aðgát til að opna kjörseðil svo allir listar liggi frammi fyrir kjósanda þegar hann velur þann sem hann hyggst merkja við.“

Myndir – kjörseðilinn í sveitarstjórnarkosningunum í Garðabæ. ,,Það er lágmark að kjörgögn, þá sérstaklega kjörseðlar, séu útbúnir með þeim hætti að þeir listar sem í kjöri eru hafi jafna möguleika frammi fyrir kjósandanum, og ekki þurfi sérstaka aðgát til að opna kjörseðil svo allir listar liggi frammi fyrir kjósanda þegar hann velur þann sem hann hyggst merkja við.“ segir m.a. í kærunni. Myndir: aðsendar.

Prinsippmál

,,Þetta er fyrst og fremst prinsippmál,“ segir Lárus Guðmundsson, oddviti Miðflokksins í Garðabæ um ástæðu kærunnar. ,,Það ber að gæta jafnræðis í framkvæmd allra kosninga og gæta þess að engum flokki sé mismunað við framkvæmdina,“ segir hann en Miðflokkurinn í Garðabæ fékk rúm 300 atkvæði í kosningunum og náðu ekki inn kjörnum fulltrúa í bæjarstjórn Garðabæjar.

Samkvæmt upplýsingum frá Garðabæ þá verður farið yfir kæruna í rólegheitum og henni gefið umsögn eins á að gera.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar