Metnaðarfull uppbygging á fjölbreyttri íþróttaaðstöðu

Í störfum mínum síðastliðin átta ár sem formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar og fulltrúi í samstarfsnefnd skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, hef ég lagt áherslu á ýmiskonar uppbyggingu á fjölbreyttri aðstöðu fyrir íþrótta- og tómstundastarf fyrir alla aldurshópa. Tel ég að slík uppbygging hafi gríðarlega mikið samfélagslegt gildi og styðji vel við velsæld íbúa.

Fjölnota íþróttahús tekið í notkun

Eftir töluvert langan aðdraganda er Miðgarður, fjölnota íþróttahús Garðabæjar, risið og æfingar hafnar. Í húsinu er meðal annars að finna knattspyrnuvöll í fullri stærð, auk upphitunaraðstöðu og rými fyrir styrktar- og teygjuæfingar. Jafnframt er þar að finna svalir sem hægt er að ganga eða skokka á og klifurveggur mun verða settur upp á næstunni. Miðgarður mun án efa hafa mjög jákvæð áhrif á íþróttalíf allra aldurshópa í bænum enda er aðstaðan mun fjölbreyttari og enn betri en áður. Einnig mun Miðgarður leiða til ýmissa tækifæra í þeim íþróttamannvirkjum sem fyrir eru í Garðabæ þar sem óneitanlega rýmkar um starfsemina þar með tilkomu nýja hússins.

Tæknivæddasta golfæfingasvæði landsins

Í viðbyggingu við íþróttamiðstöð GKG er að finna 16 golfherma og púttsvæði en einnig þjónustu- og veitingasvæði. Um er að ræða eina framsæknustu og tæknivæddustu golfæfingaaðstöðu á landinu. Aðstaðan nýtist börnum og unglingum sem stunda skipulagðar golfæfingar, afrekskylfingum sem og almennum félagsmönnum. Um 700 börn og unglingar nýta sér þjónustu golfklúbbsins sem er með langfjölmennasta barna- og unglingastarf í golfi á Íslandi.

Fjölbreytt uppbygging og endurbætur

Á Álftanesi hefur verið haldið áfram með lagfæringar á íþróttasvæðinu við Breiðumýri og jafnframt er uppbygging á reiðhöll á félagssvæði Sóta nú á lokametrunum. Stutt er í að Útilífsmiðstöðin í Heiðmörk verði tekin í gagnið en sú framkvæmd er unnin í samstarfi við skátafélagið Vífil. Á undanförnum árum hefur einnig verið ráðist í endurbætur á Mýrinni, stækkun og umbætur hafa verið gerðar á knattspyrnusvæðinu við Ásgarð ásamt því að farið var í endurnýjun sundlauga og körfuboltasals í Ásgarði. Þar að auki hefur verið gert átak í uppbyggingu á göngu- og hjólreiðastígum og opin leiksvæði bæjarins verið að stórum hluta endurnýjuð.

Höldum áfram og horfum til framtíðar

Þrátt fyrir mikla uppbyggingu og margvíslegar endurbætur undanfarinna ára þarf að halda áfram og horfa til framtíðar. Meðal þeirra verkefna sem vinna þarf að næstu árin er að fylgja eftir samkomulagi um uppbyggingu á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að bæta aðstöðu og þjónustu fyrir alla hópa skíðaiðkenda. Uppbygging á íþróttahúsi og sundlaug við Urriðaholtsskóla eru einnig mikilvæg verkefni sem ráðast þarf í á næstunni. Til lengri framtíðar þarf svo að huga að uppbyggingu á öðrum íþróttamannvirkjum sem gert er ráð fyrir í skipulagi í Vetrarmýrinni. Ég hef metnað og áhuga á að leggja mitt af mörkum til að vinna að því að Garðabær verði áfram í fremstu röð hvað varðar framúrskarandi aðstöðu til fjölbreyttrar íþrótta- og tómstundaiðkunar fyrir fólk á öllum aldri.

Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar og formaður ÍTG.
Sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar