Mér finnst kannski óþarflega gaman að rugga bátum

Brynja Dan Gunnarsdóttir, mun skipa oddvitasæti Framsóknarflokksins í Garðabæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Brynja er ekki algjör nýgræðingur þegar kemur að stjórnmálum því hún skipaði
sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður í alþingiskosningunum sl. haust, og er varaþingmaður kjördæmisins.

Vill hafa áhrif til góðs

Margir þekkja vel til Brynju enda hefur hún m.a. verið áberandi á samfélagsmiðlum undanfarin ár. En hvað er það sem heillar hana við stjórnmálin og af hverju ákvað hún að taka oddvitasætið hjá Framsóknarflokknum í Garðabæ? ,,Það sem heillar mig kannski mest er það að geta haft áhrif til góðs. Að fá tækifæri til þess að nýta krafta mína og reynslu til að byggja upp samfélagið okkar,” segir hún og heldur áfram: ,,Ég kem úr mjög pólítískri fjölskyldu svo ég á ekki langt að sækja það, en ég lét svona fyrst til skara skríða síðasta haust fyrir alþingiskosningarnar og fannst ofsalega gaman og spennandi að fá að taka þátt í þeirri baráttu með öllu þessu kraftmikla fólki. Ég ákvað svo að taka oddvitasætið í Garðabænum vegna þess að ég held að við getum gert frábæra hluti með þessum öfluga lista. Þegar ég sá hverjir voru til í að vera með og styðja okkur var einfaldlega ekki hægt að sleppa því að taka slaginn og ég vona að við höldum áfram á þessari siglingu sem Framsókn er á,” segir Brynja.

Ef við segjum aldrei neitt þá breytist aldrei neitt

Og svona fyrir bæjarbúa áður en við höldum áfram, hver er þá Brynja Dan Gunnarsdóttir? ,,Ég er 36 ára kona sem brenn fyrir því að gera betur, ég á lítið grænt fyrirtæki í Smáralindinni sem er svona það sem ég er að fást við dags daglega ásamt því að sinna samfélagsmiðlum.Ég lærði verkfræði við Háskólann í Reykjavík sem var ofsalega góður grunnur út í lífið en heillaðist einhvern veginn ekki beint af því að vinna við það. Ég bý hér í Garðabæ ásamt fjölskyldunni minni og svona flestir af þeim nánustu eru hér í kringum mig í bænum eða rétt fyrir utan bæjarmörkin svo það er afskaplega notalegt að hafa alla á sama blettinum. Ég er alltaf til í ævintýri og reyni að segja já við sem flestu. Mér finnst kannski óþarflega gaman að rugga bátum og rugga þeim stundum nokkrum í einu, en mín skoðun er sú að ef við segjum aldrei neitt þá breytist aldrei neitt. Við þurfum alltaf að vera að skoða hlutina með gagnrýnum augum og aðlagast breyttum tímum. Ég sit í stjórn Barnaheilla og Íslenskrar Ættleiðingar og málefni barna hafa átt hug minn lengi. Það er aldrei hægt að gera of vel þar og betur má ef duga skal.”

Þú hefur lengi búið í Garðabæ, ólstu hérna upp og ertu ánægð með bæinn? ,,Ég ólst ekki alveg upp hér. Ég byrjaði í FG þegar ég var 16 og þá fer ég að vera meira hér, en flyt svo í Garðabæ þegar ég er 18 ára. Ég ólst því upp í Hafnarfirði en samkvæmt mínum útreikningum hef ég búið lengst hér í Garðabæ og tel mig svo sannarlega Garðbæing.
Ég elskaði að vera í FG enda frábær skóli og vona innilega að minn strákur velji hann þó maður ráði því nú ekki. En mér hefur alltaf fundist gott að búa í Garðabænum og vil hvergi annarsstaðar búa. Síðan ég flutti hefur bærinn vaxið og dafnað með ýmsum vaxtaverkjum eins og gefur að skilja.”

En hverjar verða helstu áherslur Framsóknarflokksins í Garðabæ fyrir komandi kosn-ingar, hvað er brýnast að taka á? ,,Áherslurnar okkar verða í anda stefnu Framsóknar og verða kynntar á næstunni. Þær munu meðal annars snúa að því að létta undir með barnafjölskyldum í bænum, jafna tækifæri barna og ungmenna til íþrótta og tómstundaiðkunar og auka lífsgæði þeirra sem eldri eru.
Í skólamálum eru spennandi verkefni framundan sem snúa að innleiðingu barnamálana og snúa að farsæld í þágu barna. Einnig viljum við standa mun betur að málum gagnvart dreifðari byggðum Garðabæjar, Álftanesi og Urriðaholtinu, en þær eiga ekki að mæta afgangi.”

Ég ætla að leyfa mér að dreyma stórt

Það er orðið töluvert langt síðan Framsóknarflokkurinn átti bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Garðabæjar, en það hefur verið ákveðinn meðbyr með Framsóknarflokknum á landsvísu. Áttu von að sá meðbyr nái inn í Garðabæinn og þið náið inn manni eða jafnvel tveimur í bæjarstjórn? ,,Það er auðvitað minn draumur og ég ætla að leyfa mér að dreyma stórt. Auðvitað spyrjum við svo bara að leikslokum, en þangað til þá mun ég gefa allt mitt og það sama gildir um á alla á listanum til þess að láta þann draum rætast. Ég ætla að minnsta kosti að fara mjög bjartsýn inn í vorið og vona að það sé kominn tími fyrir grænt í Garðabæ,” segir hún brosandi.

Garðbæingar orðnir langþreyttir á endalausum rifrildum milli vinstri og hægri

,,Við finnum fyrir miklum meðbyr hér líkt og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að Garðbæingar séu orðnir langþreyttir á orðræðunni um málefni bæjarins og endaulsum rifrildum milli vinstri og hægri. Það er eftirspurn eftir málefnalegum málflutningi og launsnamiðuðum stjórnmálum, sem byggja á samvinnu og við í Framsókn ætlum að standa fyrir því.”

Þetta er ekki flottur listi, heldur framúrskarandi

Og framboðslistinn ykkar var samþykktur sl. fimmtudag – ertu ánægð með listann og komið þið öflug til leiks í þessa kosningabaráttu? ,,Það er svo skemmtilegt frá því að segja að á fundinum voru eldri framsóknarfélagar sem hafa verið í Framsókn hér í Garðabæ töluvert lengi og þau höfðu orð á því hvað það væru mörg nöfn sem þau höfðu aldrei heyrt á listanum. Það getur ekki boðað annað en gott og segir okkur að það er ferskt fólk að koma inn með ferska sýn og vill láta til sín taka. Ég viðurkenni að ég brosti hringinn eftir fundinn og fylltist eldmóð þegar ég hitti alla og sá að þetta er ekki bara flottur listi heldur framúrskarandi,“ segir oddvitinn að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar