Meira vart við skán en froðu við ylströndina í Sjálandi – Brák á sjónum af óþekktum uppruna

Náttúrufræðistofa Kópavogs, í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Kópavogs og Garðabæjar, tók að sér að kanna orsök hugsanlegrar mengunar við ylströndina við Vesturbrú í Garðabæ, en kvartanir höfðu borist um froðu og grugg við útivistaströnd Garðabæjar við Sjáland auk þess sem ítrekað hefur orðið vart við brák á sjónum af óþekktum uppruna við Sjáland og höfðu kajakræðarar orðið hennar varir og tilkynnt.

Finnur Ingimarsson frá Náttúrufræðistofnun Kópavogs kynnti rannsóknina á síðasta fundi umverfisnefndar Garðabæjar, sem farið var í við ylströndina á Sjálandi til að kanna orsök hugsanlegrar mengunar.

Lífrænar leifar, prótein og fita

Meginniðurstöður þessara athugana eru þær að mestar líkur séu á að froðan myndist við öldurót vegna uppleystra lífrænna leifa, próteina og fitu. Svona froðumyndun er algeng, lífið er allt í hringrás, lífverur fæðast og vaxa og þær deyja og brotna niður, rotna, fyrir tilstilli niðurbrotsensíma og örvera. Við niðurbrotið leysast prótein og fita úr vefjum lífveranna og við hreyfingu eins og öldurót draga loftbólur þessi efni út í froðu eða skán sem leggst á yfirborð vatnsins.

Við ylströndina er frekar skýlt og væntanlega verður því meira vart við skán en froðu. Á lygnum dögum sérstaklega í logni eða ef vindur er vestanstæður getur þetta safnast upp á staðnum.

Gæti verið ráð að raka sandinn

Erfitt er að ráðleggja um viðbrögð við þessu en ef mikið er af þessari froðu í sandinum á ylströndinni gæti verið ráð að raka sandinn. Slíkri aðferð er beitt á sandstrendur erlendis. Þá er reyndar oft eitthvað rakað upp sem er grófara en einnig hrærist sandurinn þannig að svona froða sem hefur þornað í sandinum er rökuð saman við hann og verður ekki eins áberandi.

Í skýrslunni kemur fram að sjá má af ljósmyndum af botnfalli safnaðra sýna frá Sjálandi, að minnstur hluti botnfalls- ins eru þörungar, stærsti hlutinn er óskilgreint lífrænt grugg. Magn þörunga sem rúmmál, er á bilinu 0,6 til 3,4 mm3/l í Sjálandssýnunum en mun lægra, eða 0,2 mm3/l í samanburðarsýninu. Til að skoða það í samhengi, þá er magn svifþörunga í Tjörninni í Reykjavík yfir sumarið að meðaltali 3,6 mm3/l. Í Þingvallavatni er þetta sama meðaltal (apríl til ágúst) um 2 mm. Það er því ljóst að það er ekki að sjá óvenjulegan þörungavöxt eða blóma.

Skoruþörungur af ættkvíslinni Dinophysis

Höfundur þessarar samantektar telur hugsanlegt að skoða megi hvernig vatnsskiptum sé háttað á útivistarströndinni til þess að leita skýringa uppsöfnun gruggs og froðumyndun.

Þörungar sem kunna að vera varhugaverðir í miklu mæli eru kísilþörungar af ættkvíslinni Pseudonitzschia og Dinophysis

Einnig vour teknar ljósmyndir af helstu tegundum þörunga sem voru í sýnunum. Bæði er um að ræða botnlægar tegundir og tegundir sem eru meira einkennandi fyrir svifið. Botnlægu tegundirnar voru almennt stærri, sem sést á því að þörungafjöldinn var mestur í samanburðarsýninu utan útivistastrandarinnar, þrátt fyrir að heildar magnið (rúmmálið) væri minnst. Þeir þörungar sem kunna að vera varhugaverðir í miklu mæli eru kísilþörungar af ættkvíslinni Pseudonitzschia og skoruþörungar af ættkvíslinni Dinophysis. Þessir þörugar fundust í samanburðarsýninu utan útivistarstrandarinnar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar