Íbúi í Urriðaholti sendi á dögunum erindi til bæjarráðs Garðabæjar varðandi veið í Urriðavatni, en veiði í vatninu er bönnuð.
Mikið leitt hugann af vatninu
,,Sem íbúi í Urriðaholti hef ég tekið eftir skiltum við göngu-stíginn við Urriðvatn sem kveða á um bönn við hinu og þessu, t.d. lausagöngu hunda og svo virðist sem ekki megi veiða í vatninu. Þessi skilti fóru upp fyrir margt löngu. Ég keypti þarna og reisti fasteign árið 2015 og hef eðlilega mikið leitt hugann að vatninu sem er mikil prýði, en mér þykir þetta meinta veiðibann mikil synd af ýmsum ástæðum,“ segir í erindinu.
Skemmtilegt, náttúrulegt og jafnvel rómantískt að sjá fólk eða börn kasta fyrir fisk
,,Er undirritaður viðraði hundinn í gærkvöldi og gekk meðfram Urriðavatni í logninu mátti vel greina nokkuð magn silungs vaka og brjóta spegilinn sem myndast hafði á vatninu. Sem íbúi í hverfinu þætti mér einfaldlega mjög skemmtilegt og náttúrulegt (jafnvel rómantískt) að sjá fólk, eða börn kasta þarna fyrir fisk. Ég vildi kanna aðeins nánar hvað er á bakvið þetta meinta veiðibann, ákvarðanatökuna, fundargerðir /ákvarðanir o.fl. og óska eftir þeim gögnum sem eru fyrirliggjandi. Það mætti vel hugsa sér einhverja stranga umgerð í kringum það, t.d. aðgengi takmarkað (t.d. við íbúa hverfisins), eingöngu veiði með flugu og að öllum fiski yrði sleppt. Slíkar ráðstafanir ættu að vernda þá hagsmuni sem þessu meinta veiðibanni er ætlað að tryggja,“ segir í erindi íbúans sem hefur óskað eftir upplýsingum um ákvarðanatökuna, á hverju hún byggir o.s.frv.
Bæjarráð vísaði bréfinu til umhverfisnefndar.
Veiði bönnuð í Urriðavatni
Í frétt á heimsíðu Garðabæjar fyrir tæpu ári síðan kemur fram að Urriðastofninn í Urriðavatni sé mjög viðkvæmur og því er öll veiði bönnuð í vatninu. ,,Ástand urriðastofnsins í Urriðavatni er talið gott en stofninn er mjög viðkvæmur fyrir veiði þar sem nýliðun urriðans er takmörkuð í vatninu og er því öll veiði bönnuð í Urriðavatni. Urriðavatn og lífríki þess er sannkölluð náttúruperla og mikilvægt að vernda það sem slíkt. Urriðavatn er hraunstíflað vatn með votlendisflákum að sunnan- og norðanverðu og er þar mikið fuglalíf. Vatnið og svæði umhverfis það njóta bæjarverndar vegna lífríkis og útivistargildis.”