Matvælaumbúðir í fjölskyldusmiðju

Óhætt er að segja að fjölskyldur hafi tekið verkefninu Við langeldinn / Við eldhúsborðið vel en fyrstu tvær smiðjurnar fóru fram í september. Þann 3. október er komið að næstu smiðju í Hönnunarsafninu en það eru vöruhönnuðirnir Auður Ösp Guðmundsdóttir og Embla Vigfúsdóttir sem leiða hönnunarsmiðju sem ætluð er allri fjölskyldunni. Þær stöllur munu skoða matvælaumbúðir sem Kristín Þorkelsdóttir hannaði og eru til sýnis á samnefndri sýningu og í kjölfarið geta þátttakendur hafist handa við að hanna umbúðir í hinu stórskemmtilega rými í Hönnunarsafninu sem nefnist Smiðjan. Vangaveltur um hvernig matvæli voru geymd og borin fram á landnámsöld eru liður í smiðjunni en án efa koma skemmtilegar og nýstárlegar hugmyndir fram.
 
Þátttaka í smiðjunni er ókeypis en verkefnið Við langeldinn / Við eldhúsborðið er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands og tengist landnámsskálanum sem er staðsettur í Hofsstaðagarðinum í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar